02.02.1977
Neðri deild: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

147. mál, Utanríkismálastofnun Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Utanríkismál og öryggismál eru völundarhús sem vart verður skilið nema með miklum upplýsingum og mikilli rannsókn. Hverri sjálfstæðri þjóð er því nauðsynlegt að gera sérstakt átak til þess að fylgjast með þeim málum og öðlast þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til skynsamlegrar skoðanamyndunar og mótunar stefnu á þessu sviði.

Flestar eða allar þjóðir eiga eina eða fleiri rannsóknar- og upplýsingastofnanir á sviði utanríkismála. Þessar stofnanir hafa fyrst og fremst það hlutverk að safna saman á einn stað upplýsingum og hafa þær aðgengilegar fyrir hvern þann sem þarf á þeim að halda. Jafnframt geta stofnanir þessar annast rannsóknarstörf eða stuðlað að því að einstaklingar og stofnanir taki sér fyrir hendur slíkar rannsóknir. Stofnanir þessar gegna margvíslegum verkefnum. Þær koma upp bókasöfnum, söfnum blaða, tímarita og annarra heimilda, sem getur verið mjög mikils virði að eiga á einum stað. Þær gefa út bækling eða tímarit sem verða vettvangur fyrir stefnur og strauma í utanríkis- og öryggismálum viðkomandi þjóða. Þær geta þar að auki rannsakað eða komið á framfæri nýjum hugmyndum á sviði utanríkismála og þannig orðið að margvíslegu gagni.

Nærtækasta dæmið um slíka stofnun af mörgum, sem af er að taka, er Utanríkismálastofnun Noregs. Hún mun hafa byrjað starf sitt með þremur starfsmönnum, en hefur vaxið smám saman og hlutverk hennar aukist svo að starfsmenn munu nú vera eitthvað yfir 30. Fé er veitt til þessarar stofnunar í Noregi á fjárlögum, en hún er látin heyra undir menntmrn. til þess að leggja með því áherslu á að hún sé óháð utanrrn. og ekki verkfæri þess. Í grg. er sagt að rekstur hennar hafi kostað 30 millj. ísl. kr. 1973, en sú tala er að sjálfsögðu á misskilningi byggð og mun vera nær að það séu 30 millj. norskar.

Ég hef leyft mér að flytja frv. um að sett verði lög um Utanríkismálastofnun Íslands og skuli það vera óháð rannsóknar- og fræðslustofnun sem starfi samkv. þeim lögum. Tilgangur hennar á að vera að auka þekkingu og skilning þjóðarinnar á utanríkis- og öryggismálum. Stofnunin á að safna og dreifa hvers konar upplýsingum um þessi mál og stunda rannsóknarstörf á sviði þeirra. Stofnunin á að koma upp heimildasafni og getur staðið að útgáfu.

Í 3. gr. frv. segir: „Utanríkismálastofnun Íslands skal vera óháð þeirri stefnu í utanríkis- og öryggismálum sem íslensk stjórnvöld hafa hverju sinni. Hún skal í öllu starfi sínu gæta óhlutdrægni gagnvart mismunandi skoðunum um þessi mál.“

Varla verður um það deilt að slík stofnun verður að byggja á slíkri óhlutdrægni ef hún á að njóta tiltrúar frá þeim sem hugsanlega geta haft mismunandi skoðanir á ýmsum atriðum þessara mála.

Þá er gert ráð fyrir að í stjórn stofnunarinnar eigi sæti 14 menn, sem kosnir séu hlutfallskosningu af utanrmn. Alþ., og einn fulltrúi frá Seðlabanka Íslands. Gert er ráð fyrir að svo stór stjórn komi ekki saman nema tiltölulega sjaldan, einu sinni til tvisvar á ári, en að hún kjósi sér formann, varaformann og ritara sem verði framkvæmdastjórn. Þessi stjórn á að vera ólaunuð. Ekki eru nánari ákvæði um það á hvern hátt stjórnin gegni störfum sínum, en að sjálfsögðu ræður hún starfslið og tekur meginákvarðanir um starfsemina. Er ekki ástæða til að setja sérstök ákvæði um það í lög sem þessi.

Að lokum er 5. gr. sem fjallar um kostnað við rekstur þessarar væntanlegu stofnunar. Þar hef ég staðnæmst við þá hugmynd að ekki sé óeðlilegt að greiða þennan kostnað af gjaldeyrisviðskiptum sem sannarlega eru utanríkismál. Þess vegna er lagt til að Seðlabankinn standi undir kostnaði við stofnunina af tekjum af gjaldeyrisviðskiptum og geti endurheimt hluta upphæðarinnar af þeim viðskiptabönkum sem versla með erlendan gjaldeyri. Loks er ákvæði um hvernig með skuli fara ef ágreiningur verður um upphæð þessa kostnaðar.

Að sjálfsögðu mætti hugsa sér fleiri leiðir til að standa undir kostnaði við slíka stofnun, en ég hef staðnæmst við þessa vegna þess að ég tel ekki þær aðstæður vera nú fyrir hendi að rétt sé að fara fram á að slík nýjung sé kostuð á fjárlögum. En ég vil benda á að ég tel að stofnun sem þessi mundi geta útvegað sér verulega mikið fjármagn sjálf til einstakra verkefna, svo sem til ráðstefnuhalds eða útgáfu, og hygg ég að mörg fyrirtæki í landinu, sem annast viðskipti við aðrar þjóðir, mundu vera reiðubúin til að hlaupa þar undir bagga.

Einnig mætti athuga ýmsar aðrar hugmyndir um að skipa stjórn fyrir slíka stofnun. En ég hef staðnæmst við það að viðurkenna hlut stjórnmálanna því flestar meginskoðanir á utanríkis- og varnarmálum koma fram í flokkakerfi íslendinga. Ég treysti því að stjórnmálaflokkarnir muni haga mannavali í þessa stjórn þannig að sem best henti og sem minnstar beinar, almennar pólitískar deilur þurfi um stofnunina að vera.

Ég get ímyndað mér að rétt væri að slík stofnun hæfi störf með þriggja manna starfsliði og yrði væntanlega ekki ástæða til að fjölga því um alllanga framtíð. Þar gæti verið einn yfirmaður sem væri að sjálfsögðu sérfróður í utanríkis- og varnarmálum, aðstoðarmaður hans, sem hefði bókavarðar- og útgáfustörf að aðalstarfi, og loks ritari. Þetta starfslið og skrifstofuhald mundi sennilega kosta um 7 millj. kr. Gert er ráð fyrir svo sem 2 millj. til þess að byggja upp bóka- og heimildasafn. Þá yrði heildarkostnaður rúmlega 9 millj. kr. Hygg ég að það sé ekki stór deild í skrifstofukerfi gjaldeyrisbankanna sem kostar það fé og þá mundi satt að segja lítið sem ekkert um það muna.

Herra forseti. Ég vil að lokum geta þess, að augljóslega ætti þetta frv. að fara til utanrmn. En nú er utanrmn. ekki í þessari d., heldur í Sþ., og hefur verið farið svo með slík mál að frv. væri vísað til einhverrar n. sem kosin er í d. sjálfri. Ég hygg að það sé ekkert í þingsköpum sem bannaði að þessu frv. væri vísað til utanrmn., því Nd. er öll í Sþ. Ég ætla þó ekki að blanda slíkum málum inn á þessu stigi þó ég nefni þetta. En ég hef flutt frv. um breyt. á þingsköpum sem einmitt kemur inn á þetta, enda væri miklu eðlilegra að n. þingsins væru í Sþ. og málum vísað til þeirra frá deildum. Við það gætum við haft miklu öflugri n., sem gætu starfað meira og betur og nýtt krafta og tíma þm. miklu betur en er í dag. Að því frátöldu og til þess að fylgja venjum, sem að vísu eru ekki einhlítar, því það var beinlínis til þess ætlast, þegar utanrmn. var stofnuð 1923, að vísa mætti til hennar málum frá d. og var fram tekið. Eftir því sem Bjarni Benediktsson segir í riti sínu um deildir Alþ. mun þessi háttur hafa verið hafður á fram undir 1940, en ekki hef ég kannað hvers vegna frá því var þá horfið. Þó ég geti þessara atriða mun ég, eins og ég sagði, fylgja þeim háttum sem hér hafa ríkt og legg til að frv. verði vísað til hv. menntmn.