25.10.1976
Sameinað þing: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Góðir íslendingar. Það er oft sagt að stjórnmálamenn þori ekki að segja þjóðinni sannleikann umbúðalaust, en fari í ræðum sínum í kringum hlutina eins og köttur í kringum beitan graut af ótta við að vekja reiði hjá einstökum kjósendum og þess vegna fari á þann veg, að stjórnmálamenn taki hlutina ekki föstum tökum. Því miður er allt of mikið rétt í þessum ásökunum. Þetta hefur að vissu leyti valdið nokkurri upplausn í þjóðfélaginu, því að mönnum hefur orðið á að hlusta betur á neikvæðar ræður, niðurrifsræðurnar, en meta ekki og fagna því, sem hefur áunnist, og skilja að það er ekki hægt að framkvæma eða gera allt í einu.

Niðurrifsöflin hafa komið ár sinni vel fyrir borð, og þið heyrðuð í kvöld þennan niðurrifssöng stjórnarandstöðunnar. Allt var ómögulegt í þessu þjóðfélagi, allt var á niðurleið, allt var komið á heljarþröm í þeirra lýsingum. Það er skiljanlegt að öfl, sem vilja þingræði í landinu feigt, tali svona, en hitt er óskiljanlegt, þegar flokkur, sem kennir sig við lýðræði og er lýðræðisflokkur, bagar sér þannig í sínum málflutningi.

Út af ummælum Benedikts Gröndal væri fróðlegt að fá að heyra hvaða umbætur Alþfl. flutti í skattamálum þegar hann sat í ríkisstj. samfleytt frá árinu 1956 til 1971 eða í 15 ár. Hverjar voru till. þess flokks umfram þær breyt. sem gerðar voru á skattamálum á þessum árum?

Stjórnarandstaðan telur fjárl. vera allt of há, en í sömu andránni telja málsvarar hennar allt of lítil fjárframlög til allra framkvæmda í þjóðfélaginu, og til margvíslegra umbótamála telja þeir að þurfi að stórbæta við fjárveitingar. En þegar kemur að því að afla tekna fyrir ríkissjóð til að standa undir þessu öllu, þá hafa þeir enga skoðun á því, nema vera á móti allri tekjuöflun. Þetta er það sem við köllum neikvæða afstöðu til mála, niðurrifsstefnu. Ef menn vilja auka útgjöld samfélagsins, þá verða þeir einnig að standa að því að afla tekna til þess að standa undir þessum útgjöldum.

Karvel Pálmason taldi framlag til Byggðasjóðs vera allt of lítið. Byggðasjóður fær framlög skv. fjárlagafrv. næsta árs, hvorki meira né minna en 1630 millj. kr., auk þess hefur hann vaxtatekjur um 350 millj. kr. eða samtals 1980 millj., en það er miklu hærra framlag en var í tíð þeirrar stjórnar sem þessi þm. studdi, þó að það væri fært til núverandi verðgildis.

Ég vil benda á að það er margt sem betur má fara, bæði hjá þessari ríkisstj. og öðrum ríkisstj. sem setið hafa á undan. Það er svo margt sem við þurfum að bæta úr. En þegar einhverju á að breyta í þessu þjóðfélagi, þá er mótmælt öllum breytingum þegar þær snerta einhverja ákveðna starfshópa eða ákveðna einstaklinga. Þá telja þeir að hér megi engu breyta af því að það snertir mig. Það á að breyta einhverju, sem snertir einhvern annan.

Við skulum hafa það ríkt í huga að mannsævin er að lengjast, hlutfallslega fleiri verða aldraðir í okkar þjóðfélagi en voru fyrir nokkrum áratugum, fólk sem við eigum að sjá fyrir lífeyri í ellinni, eins og gert hefur verið. En samtímis þessu eru námsárin að verða fleiri hjá unga fólkinu: Fólkið kemur seinna en áður á vinnumarkaðinn. Þetta gerir það að verkum að hlutfallstala þeirra, sem standa undir útgjöldum þjóðfélagsins, verður sífellt lægri en áður var, og það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á þennan hóp að greiða til samfélagsins. Þetta verðum við að hafa ríkt í huga við allar kröfugerðir.

Þegar við lítum yfir tveggja ára valdatímabil núv. ríkisstj., þá ber hæst einhliða ákvörðun hennar um stækkun fiskveiðilandhelginnar í 200 mílur. Það hefur verið haldið á því máli af festu og einurð. Þar hefur ekki verið rasað um ráð fram, og við höfðum unnið hvern stórsigurinn á fætur öðrum. Samningurinn við breta er þó stærsti sigurinn, þar sem þeir viðurkenna einhliða rétt okkar til nýtingar á 200 mílna fiskveiðilögsögu. Á fyrstu 5 mánuðum þessa árs veiddu bretar undir herskipavernd 6 þús. tonnum minna magn en á sama tíma árið 1975 þrátt fyrir frækilega frammístöðu landhelgisgæslunnar. En með Oslóarsamningnum er sjáanlegt að afli þeirra verður 30600 tonnum minni en 1975 mánuðina júní til nóv. Og samt fyrirfinnast menn eins og Ragnar Arnalds, sem berja hausnum við steininn og hrópa að enga samninga eigi að gera, og einu úrræði þeirra hafa verið að binda íslenska fiskiskipaflotann í höfn, eins og Þjóðvilja-drengirnir hafa krafist í allt sumar að gert verði. Aldrei hefur náðst betri árangur nú að minnka veiðar útiendinga innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Á árinu 1972 var veiði þeirra á þorski og öðrum botnlægum fisktegundum 45%, en 1975 er hún komin niður í 31.3% og fyrstu 9 mánuði þessa árs var afli þeirra kominn niður í 23.2%.

Samdráttur í veiðum útiendinga og aukning á veiðum okkar íslendinga hefur aldrei verið meiri en síðan þessi ríkisstj. tók við völdum. Í sjávarútvegsmálum hafa ekki orðið jafnmiklar breytingar í marga áratugi og á þessu ári. Þar ber hæst löggjöfina um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þar er að finna margvísleg friðunarákvæði og fyllri ákvæði um stjórnun veiða og eftirlit með veiðum meira en áður var. Þá má nefna endurskoðun sjóðakerfisins, en þar eru fluttar til í sjávarútvegi um 4 þús. millj. kr. Í framhaldi af því voru sett lög um nýtt útflutningsgjald af sjávarafurðum og lög um Stofnfjársjóð fiskiskipa. Sjóðakerfisbreytingin gerði það að verkum, að skiptaverðmæti alls afla hækkaði að meðaltali um 32%, um 61% frá því sem það var fyrir hana og um 133% frá ársbyrjun 1974. Þá vil ég minna á lögin um upptöku ólöglegs afla og um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands.

Á þessu ári hafa verið gerðar margvíslegar ráðstafanir til þess að minnka sóknina í þorskinn og aðrar þær fisktegundir sem eru ofnýttar eða fullnýttar. Við höfum náð mjög góðum árangri hvað snertir loðnuveiðar, og margt bendir til þess að loðnuveiðar geti orðið arðbær atvinnuvegur fyrir allmikinn fjölda skipa næstum því árið um kring. Við höfum hafið skipulega leit að úthafsrækju með nokkrum árangri. Við höfum einnig gert tilraunir með veiðar, vinnslu og sölu á kolmunna. Allt bendir til þess að veiða megi mikið magn af þessum fiski og spærlingi, en hins vegar er ekki eins tryggt um sölu á þessum afurðum nema til bræðslu.

Það er óhjákvæmilegt að stöðva nú um sinn kaup á fiskiskipum til landsins, því að sá fiskiskipastóll, sem fyrir er, er fullstór fyrir þá veiði sem við megum og getum tekið innan okkar fiskveiðilandhelgi. Við verðum að stefna að því að dreifa fiskiskipastól okkar á fleiri tegundir veiða en verið hefur, en eins og allir vita, þá verðum við að draga úr sókn í þorskstofninn. Hann þolir ekki þann sóknarþunga sem verið hefur, aflinn hefur minnkað verulega á sóknareiningu.

Það er áætlað að útflutningsframleiðsla sjávarafurða verði á þessu ári 50.7 milljarðar kr., en var á s.l. ári 37 milljarðar kr. Verðmæti fiskaflans upp úr sjó á þessu ári er nú áætlað 26.4 milljarðar samanborið við 16.7 milljarða á s.l. ári.

Það er sjáanlegt að batahorfur hafa orðið miklar í sambandi við sjávarátveg frá liðnu ári. Hins vegar hefur stór hluti þessa bata farið í fiskverðshækkanir til þess að bæta kjör sjómanna og útgerðar sem hafa orðið að taka á sig stórfellda nýja byrði vegna almennra verðhækkana. Þjóðhagsstofnunin telur að afkoma frystingar verði nokkru betri en á sama tíma í fyrra, en þó nemur sá bati ekki meira en 1.5–2% af fob.- verðmæti framleiðslunnar. En þess ber einnig að gæta, að útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóði vegna frystingarinnar hafa verið auknar verulega og verða nálægt 650 millj. kr. og nema þá alls um 2700 millj. kr. á heilu ári. Í reynd er hér um verðábyrgð ríkissjóðs að ræða þar eð innistaða freðfiskdeildar Verðjöfnunarsjóðs er svo að segja engin. Afkoma söltunar og herslu er áætluð allmiklu lakari en á sama tíma í fyrra, en það mun nema um 7–7.5% af fob.- verðmæti framleiðslunnar.

Ég get ekki látið útrætt um sjávarútvegsmál að ég nefni ekki brbl. um kaup og kjör sjómanna, en um þau lög hefur verið þyrlað miklu moldviðri án þess að málið hafi verið rætt með nokkrum rökum.

Það kemur úr hörðustu átt þegar hinn endurborni krati, Karvel Pálmason, sem talaði hér fyrir hönd Samtakanna, ræðst að mér með persónulegum gífuryrðum, maður sem hvað eftir annað kom að máli við mig fyrir þinglok í vor og hvatti til aðgerða ríkisvaldsins um lausu kjaradeilu sjómanna, þar sem forusta sjómannasamtakanna hafði gefist upp, og m.a. var hann einn þeirra sem þorðu ekki að stíga nema í aðra löppina. Þetta er drengskapur eða hitt þó heldur.

Forsenda fiskverðshækkunarinnar, sem kom í kjölfar sjóðakerfisbreytingarinnar, var að samkomulag yrði á milli aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör. Allir vita hvernig þetta hefur farið. þrátt fyrir skýlausar yfirlýsingar sem þá voru gefnar um að þetta ætti að ná fram að ganga. Ég hef ekki tíma til þess að ræða þessi brbl. nánar hér, en ég fæ tækifæri til þess síðar að koma fram mínum skoðunum, bæði í útvarpi á morgun og hér á hv. Alþ.

Ef við lítum á það sem hefur verið gert á tímabili núv. ríkisstj. í raforkumálum, þá held ég að allir séu sammála um það, að aldrei hafi verið meiri framkvæmdir í þeim málaflokki en á þessu tímabili. Sérstaklega ber að fagna miklum framkvæmdum í hitaveitumálum. Það mun láta nærri að um 25 þús. landsmenn hafi fengið hitaveitu — eða séu að fá hitaveitu innan nokkurra mánaða — frá því að núv. ríkisstj. tók við. Framkvæmdirnar í orkumálum eru allar vel á vegi staddar og hefur ríkt stórhugur og eindrægni að koma þeim málum fram.

Í tryggingamálum hafa orðið miklar og örar framfarir. Útgjöld elli- og örorkulífeyris almannatrygginganna hafa hækkað úr 2335 millj. kr. frá árinu 1973 í 4982 millj. kr. á s.l. ári, og á þessu ári er talið að heildarútgjöld til elli- og örorkulífeyris verði hvorki meira né minna en 7 milljarðar 580 millj. kr. Almennur ellilífeyrir og tekjutrygging var á árinu 1972 54.5% af mánaðarlaunum samkv. 4. taxta Dagsbrúnar, en lækkaði á valdatímabili fyrrv. heilbrrh. um 0.6% eða í 53.9%, en er nú í ágúst á þessu ári kominn upp í 61.4%, þannig að aldrei hefur meira tillit verið tekið til ellilífeyris- og tekjutryggingarþega — og þá alveg sérstaklega tekjutryggingarþeganna — en á valdatíma þessarar ríkisstj. Það kemur því úr hörðustu átt að heyra gagnrýni frá hendi fyrrv. heilbrrh. sem stóð síg ekki betur en það, að þetta hlutfall lækkaði á hans fyrsta valdaári um 0.6%. Ég ráðlegg Gils Guðmundssyni og Helga Seljan að kynna sér betur staðreyndir, en fara ekki með fleipur eins og fram kom í ræðu Helga í upplestri Gils hér áðan.

Skynsamleg stefna í þjóðmálum hefur komið í veg fyrir atvinnuleysi. Við höfum þessi ár aukið skuldir okkar við útiönd. Batahorfur eru góðar, en það er vandi að fara varlega með þennan bata. Við getum ekki skipt því sem við höfum þegar tekið út. Skuldasöfnin getur ekki gengið til langframa. Þótt efnahagsmál séu snar þáttur í lífi hverrar fjölskyldu og einstaklings, þá megum við ekki gleyma því í þessu lífsgæðakapphlaupi, að lífshamingjan verður ekki metin til fjár. Lífshamingjan verður ekki keypt fyrir peninga. Gleymið því ekki, að börnin eru framtíð þjóðarinnar og þeim þarf að sinna betur en víða er gert. Kynslóðabilið verður ekki brúað með því að öll börn séu á dagvistarheimilum ár eftir ár og síðan í skóla, en pabbi og mamma vinni bæði úti, afi og amma komi sér sem fyrst á elliheimili þegar starfsþrekið dvín. Samheldni heimilanna skapar lífshamingju þegar vakað er yfir uppeldi barnanna og þeim sýnt að heima sé best. Þá leita þau síður afþreyingar í misjöfnum félagsskap sem leiðir oft til afbrota og snillingar sem nú er slæmur fylgisjúkdómur í lífsgæðakapphlaupi okkar litla þjóðfélags. Horfum meira á þetta vandamál og önnur þeim lík og hættum að skara eld að glóðum óánægju og haturs á milli manna og stétta.