02.02.1977
Neðri deild: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

149. mál, umferðarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki fara hér mörgum orðum um þetta frv. Þetta var hér á dagskrá, eins og fram kom hjá hv. frsm., á síðasta þingi og ég gerði þá grein fyrir viðhorfum mínum til málsins og dró þar ekkert undan. Ég er sömu skoðunar enn og hef í engu breytt afstöðu minni til málsins að því leyti til. En ég ætlaði aðeins nú við 1. umr, þessa máls að segja hér örfá orð.

Það er í fyrsta lagi að frsm. nefndi álit lækna í sambandi við notkun öryggisbelta. Ég held að það sé í þeim efnum sem og mörgum öðrum að læknar séu ekki algerlega sammála um það öryggi sem talið er að notkun öryggisbílbelta. Þar greinir menn á um í þeirri stétt, eins og svo marga aðra, þannig að ekkert einhlítt sýnist mér vera í því efni.

En það, sem ég taldi rétt að fara hér örfáum orðum um fyrst og fremst í sambandi við þetta frv. nú, það er 5. gr. frv., þar sem lagt er til að upphaf 33. gr. laganna orðist svo: „Kennslu í akstri og meðferð bifreiða og bifhjóla mega löggiltir ökuskólar einir annast.“ Hvað skyldi það verða víða á landinu sem slíkar stofnanir yrðu á fót settar, eða á hér að taka út einn bálkinn til víðbótar og stefna öllu kerfinu hingað á Reykjavíkursvæðið? Er það meiningin með þessu — eða hvað er átt við? (Gripið fram í.) Nei, ef ég skil þetta rétt, þá er það sannarlega ekki byggðastefna. Ef þetta verður framkvæmt með þessum hætti sem hér er lagt til, þá er greinilega og vísvitandi að því stefnt, að mér sýnist, að öll þessi kennsla fari einungis fram hér á þessu svæði, því að ég er ekki búinn að koma auga á það að löggiltir ökuskólar verði settir upp víða á landinu. Ég hygg að þeir mundu verða tiltölulega fáir og á tiltölulega fáum stöðum. Og ef það er þetta sem stefnt er að með þessu orðalagi og þessu ákvæði frv., þá kemur hér enn eitt sem ég er algerlega á móti í þessu frv. Ég er algerlega á móti því að setja lög um slíkar stofnanir sem þessar sem einungis yrðu staðfestar hér á þessu svæði. Og ég vil biðja menn að athuga gaumgæfilega hvort þetta er í raun og veru það sem stefna ber að til jafnvægis í byggð landsins, eins og oft er talað um.

Auk þess, eins og ég sagði áðan, er ýmislegt annað sem ég hef við frv. að athuga. En ég gerði grein fyrir viðhorfum mínum til þess þegar sams konar frv. var hér til umr, á síðasta þingi. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu og spyrjast fyrir um það, spyrja hv. flm. frv. um það, hvort það sé þeirra meining að einungis löggiltir ökuskólar megi annast kennslu í meðferð bifreiða og bifhjóla. Ef það er meiningin, þá er stefnt að því að setja þetta allt á þetta svæði og þá kemur enn eitt atriðið sem verður þess valdandi að raska um of því sem menn hafa verið að tala um að reyna að lagfæra, þ. e. a. s. að jafna aðstöðuna í landinu. Ég vildi gjarnan fá á því skýringu hver meining flm. frv. er með þessu orðalagi, hvort ég hef misskilið þetta, eða ef svo er að ég hafi misskilið það, hvað þá er átt við.