03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Flm. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 95 ásamt þremur öðrum hv. þm., þeim Oddi Ólafssyni, Jóni Skaftasyni og Geir Gunnarssyni, till. til þál. um að reist verði fiskimjölsverksmiðja í Grindavík er vinni loðnu og annan fisk ásamt fiskúrgangi. Till. hljóðar svo:

„Alþingi skorar á ríkisstj. að beita sér fyrir að stór fiskimjölsverksmiðja (helst með 1000 tonna bræðsluafköst á sólarhring) verði reist á árinu 1977 í Grindavík og verksmiðjan geti hafið vinnslu á loðnuvertíðinni 1978.“

Í tiltölulega stuttri grg. segir að hér við land hafi loðnuveiðar hafist fyrst fyrir nokkru ráði 1965 og öfluðust þá um 50 þús. tonn. Árið eftir verður mikil aukning og veiðast þá um 125 þús. tonn. Næstu tvö árin er aflinn heldur minni rétt innan við 100 þús. tonn, en á árunum 1969–1971 er aflinn orðinn 170–190 þús. tonn. árið eftir, 1972, aflast um 277 þús. tonn. Síðan hefur aflinn verið um eða yfir 450 þús. tonn. Menn sjá því að hér er um verulega mikið aflamagn að ræða og mikil verðmæti.

Þessi athyglisverða aukning á loðnuafla verður vegna stóraukins fjölda skipa, er taka þátt í veiðunum, og jafnframt mikilla og árangursríkra rannsókna fiskifræðinga á göngum og hegðun loðnunnar. Veiðar og vinnsla á loðnu eru því nú orðnar snar þáttur í þjóðarbúskap okkar og alls ekki fyrirsjáanlegt annað en að svo muni verða um óákveðinn tíma.

Þessi mikli afli hefur komið á land alls staðar, það er rétt að undirstrika það, alls staðar þar sem verksmiðjur eru er bræða loðnu. Auk þess hefur norska skipið Norglobal tekið á móti verulegu magni af loðnu eða árið 1975 74 þús. tonnum og 1976 60 þús. tonnum. Skipið fékkst ekki á þessa vertíð og mun varla fást framar, eftir því sem upplýsingar herma. Það er ekki heldur viðeigandi að við skulum þurfa, til þess að meiri afli komi á land, að vera háðir því að útlendingar leigi okkur ákveðna verksmiðju þó á fljótandi skipi sé. Þess vegna eru rök fyrir því að við hugleiðum málið gaumgæfilega, og þessi till. gengur út á það að verksmiðja verði reist í Grindavík. Rétt er að geta þess, að ef ég man rétt skipaði hæstv. sjútvrh. í fyrri hluta janúar n. til að rannsaka hvernig best mundi verða staðið að því að efla verksmiðjukost í landinu, og þess er að vænta að n. skili fljótlega tillögum um þessi mál. Engu að síður er rétt að vekja á þessu sérstaka athygli, að nauðsyn er að þessi mál fái fljóta og góða afgreiðslu. Það kom fram nú í fréttum að verksmiðjan í Neskaupstað, en þessi till. er um verksmiðjustarf svipað og þar er, mundi framleiða núna fyrir 30–35 millj. á dag, svo menn sjá að hér er um verulega mikið atriði að ræða í gjaldeyrisöflun. En einnig er mun betra útlit nú en verið hefur undanfarið um notagildi verksmiðjanna vegna sumarveiðanna. Það mun tengja vinnslutíma verksmiðjanna saman á öllum árstímum og er það vel, því að tímabundið framboð á hráefni til verksmiðjanna hefur verið fyrir hendi í allmörg ár og hefur það verið þeim til vandræða. En samkv. öllum rannsóknum og horfum um loðnuveiðar má gera ráð fyrir að verulegt magn komi frá sumarloðnuveiðunum,jafnvel nokkuð á annað hundrað þús. tonn. Það gaf á s. l. ári nokkuð á annan milljarðatug í þjóðarbúið í gjaldeyristekjum.

Stofnkostnaður þessarar verksmiðju getur verið frá rúmlega 1 milljarði upp í 13–14 hundruð þús. eftir því hvernig til tekst með staðarval og önnur atriði. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að þó að sumum kunni að finnast þessi verksmiðja nokkuð stór, þá hafa menn, sem hafa athugað þessi mál fyrir mig og þekkja vel til, bent á að það sé heppilegt að verksmiðja sé ekki undir 800 tonna afköstum, þá helst tvisvar sinnum 400 tonna afköst, til 1000 tonna vegna þess að löndunarkranar, alls konar flutningstæki og annað verði að vera það stórt í sniðum til þess að mæta eðlilegri þörf skipanna að fastur kostnaður muni nýtast verulegum mun betur með því að þessar einingar séu gagnvart þessum fasta kostnaði.

Það fer ekki á milli mála, því miður, og þarf ekki mikla spámenn til að sjá að til vandræða muni koma að losna við aflann á þessari vertíð og næstu vertíðum ef ekki verður gert sérstakt átak til þess að taka á móti afla loðnubátanna. Afkastageta skipanna er orðin svo miklu meiri en afkastageta verksmiðjanna í landi að þar gætir verulegs ósamræmis. Flotinn hefur sýnt það að hann fer létt með það og áhafnir skipanna að bjarga 20 þús. tonnum á sólarhring, en afkastageta verksmiðjanna er um 10 þús. tonn. Því miður ber nú brátt að að fá þessi tæki, og margir staðir hafa áhuga á því að laga til hjá sér og vilja komast í þau uppgrip sem loðnan gefur. Út af fyrir sig er það jákvætt og æskilegt. En þó skal hafa gát á öllu, bæði varðandi þessa verksmiðju og aðrar, og vanda nokkuð vel til verksins. Engu að síður er tíminn naumur.

Vissar aðstæður eru fyrir hendi í Grindavik mjög æskilegar. Þar er gott pláss við höfnina svo ekki er það til fyrirstöðu. Ákveðið húsnæði kæmi vel til greina sem hér er til í landinu, þó ekki uppsett, en til í stálgrindaformi og væri sennilega falt með góðum kjörum svo það vandamál er leyst. Þá er hins vegar hvernig leysa má fjármögnun á slíku fyrirtæki, en þar þarf sennilega að fylgja eitthvert erlent lán með vélum og einnig eitthvað innlent. En verksmiðja af þessari stærð, ef hún getur skilað miklu á annan milljarð í þjóðarbúið í gjaldeyristekjum, á sannarlega rétt á sér. Menn kann að greina á um staðarvalið, en það sýnir sig og þarf ekki að fara mörg ár aftur í tímann til að sanna það. Ég minnist þegar tveggja loðnuvertíða er svo var hart norðvestanveður að ein vika leið án þess að skip kæmust fyrir Reykjanes, og aðeins ein vika sem þannig stendur af sér og með fullar verksmiðjur fyrir austan kostar þjóðarbúið allmikið.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að þessum orðum sögðum að þessari till. verði vísað til atvmn., og ég vonast til að hún fái þar eðlilega og skjóta afgreiðslu.