03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Þessi till. hefur nú um nokkur ár verið hér til meðferðar á hv. Alþ., og hún byggist á ýmsum aðstæðum, m. a. því, að við höfum aldrei getað fullnægt þeim veiðimöguleikum sem fyrir hendi hafa verið á loðnunni. Það hefur alltaf staðið á möguleikunum til að vinna aflann, og þess vegna hefur veiði hvers skips orðið miklu minni en verið hefði ef ekki hefði þurft að bíða eftir löndun.

Fiskimjöls- og lýsisframleiðsla er orðinn mjög stór og mikilvægur þáttur í okkar þjóðarframleiðslu. Þetta er að því leyti svolítið sérstæð vinnsluaðferð, að hún gefur mikinn gjaldeyri og krefst tiltölulega lítils vinnuafls. Eins og hæstv. sjútvrh. gat um áðan hefur veiði og vinnsla á loðnu líka þá sérstöðu, að við höfum hingað til ekki getað veitt það magn sem fiskifræðingar hafa talið að óhætt væri að veiða. Við höfum lengst af í okkar landhelgisbaráttu látið þess getið, að við værum fullfærir um það einir að nýta okkar landhelgi og veiða þann fisk sem veiða mætti. En nú geta útlendingar með nokkrum rétti komið og sagt: Þið eruð ekki færir um að nýta loðnuveiðina. Þið hafið því siðferðilega skyldu til að láta okkur fá hlutdeild í þeim veiðum. — Hvað sem um þetta má segja, þá er það eitt víst, að með aukningu á vinnslumöguleikum er hægt að stórauka veiði þess flota sem nú þegar er fyrir hendi, og þar að auki eigum við mikið af skipum sem gætu stundað loðnuveiðar til viðbótar við þau sem nú þegar eru á þeim veiðum.

En það eru fleiri ástæður sem liggja til þess, að við höfum á undanförnum árum talið nauðsynlegt að byggja verksmiðju og þá gjarnan í Grindavík. Það er í fyrsta lagi vegna þess að enda þótt við eigum hér margar verksmiðjur, þá er flestum það sameiginlegt að þær eru mjög ófullkomnar. Þær eru með gamlar vélar og eru alls ekki reknar með nýtískulegu sniði. Þetta er ekki vansalaust fyrir okkur með jafnstóran atvinnuveg, að eiga — ég vil segja varla nokkra verksmiðju rekna með nýtískulegu sniði í þessum iðnaði. Úr þessu verður að bæta og úr því verður varla bætt nema með því að byggja nýja verksmiðju. Þar að auki hafa verið uppi skoðanir um að hagnýta mætti jarðhita til þess að fá betra hráefni og jafnvel ódýrari vinnslu. Sá möguleiki ætti að vera fyrir hendi á þessum stað. Þarna er mikill jarðhiti og því miklir möguleikar til gufunýtingar. Þar að auki er að því komið að við þyrftum að fara að gera tilraunir til framleiðslu á fiskimjöli til manneldis. Slíkt hefur þegar verið gert í Noregi með nokkuð góðum árangri, og ástæða er til að ætla að með enn þá nýtískulegri aðferðum væri hægt að vinna þetta þannig að komið gæti að miklu gagni. Allt þetta rennir stoðum undir það að við byggjum verksmiðju til viðbótar við þær sem við eigum. Og ég held að það sé hægt að segja með nokkrum rétti að þessari verksmiðju væri vel valinn staður í Grindavík. Kemur þar til það, sem ég hef áður sagt um nýtingu jarðhitans, og í öðru lagi, eins og getið var um áðan af 1. flm., að fyrir Reykjanes er oft erfitt að komast með fullt loðnuskip. Því er eðlilegt að nokkuð stór verksmiðja komi í Grindavík, þar sem Grindavík liggur mjög vel við svæði þar sem loðnan er veidd allan seinni hluta veiðitímans.