03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Flm. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. yfirlýsingu hans um að hann tæki vinsamlega undir þessa till. þótt hann gerði ýmsar athugasemdir sem eðlilegt er. Um ástand í þessum málum vil ég samt minna á það, eins og síðasti ræðumaður drap réttilega á, að þetta er ekki alveg nýtt mál hér á Alþ. Ég flutti hér 1973, að vísu þá einn, á þskj. 152 till. um að verksmiðja yrði reist í Grindavík. Það var að gefnu tilefni vegna mikilla vandræða í veiðunum, loðnuskip urðu þá jafnvel að henda afla, auk þess sem ég vissi að til voru tvær samstæður á 500 tonn — eins og sagt er á viðskiptamáli — með reyfarakjörum til kaupa handa okkur vegna þess að kanadamenn hættu við að kaupa þessar samstæður. En það var því miður ekki hlustað á eitt eða neitt í þessu máli. Það má segja að maður geti verið vitur eftir á, en margfaldlega hefði þessi verksmiðja verið búin að skila stofnkostnaði, milljörðum fullyrði ég, í þjóðarbúið ef það hefði verið gert — 2 milljörðum á þrem árum.

Hvað sem því líður að rifja þetta upp, þá trúi ég því ekki að þessi ágæta n. og hæstv. ráðh. sjái ekki að a. m. k. tveir staðir á landinu eiga full rök og rétt til að fá góða verksmiðju, og það eru Grindavík og Snæfellsnes. Hér hefur verið tekið jákvætt undir það að Snæfellsnes fái sína verksmiðju, og er það vel. Það er rétt hjá hæstv. ráðh. að tölulega má setja fram að verksmiðjurnar hafi afköst upp á 12 350 tonn á sólarhring, nákvæmlega tiltekið. En það er meira á pappírnum en í raunveruleikanum. Þess vegna fór ég ekki hærra en í 10 þús. tonn á sólarhring. Í Ólafsvík er skráð hér 170 þús. tonna verksmiðja, á Patreksfirði 200, Sveinseyri 70, Suðureyri 75 — þetta eru minnstu verksmiðjurnar — Breiðdalsvík 150, Stöðvarfirði 150, Djúpavogi 160. En hæstv. ráðh. gat þess í ræðu sinni að sumar verksmiðjanna hefðu aldrei tekið við loðnu. Auk þess erum við allir bjartsýnir á að það komi meiri afli á land, og þessar sömu verksmiðjur verða að bræða úrgang úr öðrum fiski, þannig að þær hafa blessunarlega að mati bæði mínu og margra annarra vaxandi verkefni og vaxandi gildi í íslenskum þjóðarbúskapnum. Svo kemur sumarloðnuveiðin sem verður örugglega staðreynd og stór þáttur, og þá eru, eins og hæstv. ráðh. gat um og við flm. báðir, viðhorfin gjörbreytt, að ég tali ekki um spærlinginn og kolmunnann. Þá er hagkvæmt að hafa verksmiðjur við suðurströndina, og áreiðanlega er áhugi í Þorlákshöfn og jafnvel Vestmannaeyjum til að gera betur í móttöku þar, sem er algjörlega rökrétt. Ef við förum að veiða kolmunna sem nemur jafnvel tugum þús. tonna. eða enn meiru, þá liggur þetta svæði best við miðum og svo suðausturhornið, Hornafjörður, og kannske einhverjar litlu verksmiðjurnar syðst á Austfjörðum.

Það hníga því öll rök að því að gera sérstakt átak í því að byggja upp þennan iðnað. Það er ekki nýtt að það sé erfitt fyrstu 2–5 árin hjá íslenskum iðnfyrirtækjum á Íslandi. Ég vil minna á í leiðinni: Hvaða aðili reiknar með því að togari skili arðsemi fyrstu árin, togari sem kostar í dag 650–850 milljónir? Ekki einn einasti maður. Ég veit ekki betur en á borði hæstv. ráðh. liggi beiðni um líklega á annan tuga skipa sem flest eru af þessari kostnaðarstærð. Og ríkissjóður verður þegar á þessu ári að greiða 100 millj. í beina rekstrarstyrki fyrirsjáanlega, kannske meira.

Ég er algjörlega sammála hæstv. ráðh. um að það er nauðsynlegt að athuga þetta mál. Hann tók jákvætt í það, og ég treysti því að það sé meira en orðin tóm og hann muni leggja þessu lið. Ég er næstum sannfærður um að verksmiðjan fær að rísa sem fyrst, og þrátt fyrir það að hér geti verið um fjárfestingu að ræða sem liggi á bilinu í kringum 1 milljarð eða rúmlega það, þá mun hún fljótlega mala okkur gull. Ég er alveg viss um það. Það sannar skynsamleg og rétt uppbygging sem átti sér stað í Neskaupstað eftir náttúruhamfarirnar þar. Sú verksmiðja á eftir að skila bæði Austfjörðum og þjóðarbúinu miklu og einnig verksmiðjur á Vestfjörðum, í Grindavík og ég vona einnig á Snæfellsnesi.