03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég þarf auðvitað engu við það að bæta sem ræðumenn hér á undan mér hafa sagt um þýðingu loðnuveiðanna og loðnuvinnslunnar, hve geysilega mikil hún er. Og vafalaust er það rétt, að nýjar verksmiðjur þurfi að rísa til þess að afköst geti verulega aukist. Hitt fer þó ekki á milli mála, að ódýrara er og fljótvirkara að koma þeim verksmiðjum, sem fyrir hendi eru, í fullkomið lag og nýta þá afkastagetu sem þar er. Á ég þar ekki síst við verksmiðjurnar á Siglufirði. Þótt það sé út af fyrir sig rétt að núna sé hægt að vinna með hagkvæmari hætti í nýtískulegum verksmiðjum en í þeim eldri, þá er hitt líka rétt, að það er hægt að endurbæta eldri verksmiðjurnar fyrir miklu minna fé en kostar að byggja upp nýjar og á miklu skemmri tíma.

Sem betur fer er nú unnið að því að endurbæta síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði, en ég tel þó að þar sé ekki nógu hratt að unnið og e. t. v. ekki í nógu stórum stíl. En ég veit að það er áhugi á því bæði í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og hjá hæstv. sjútvrh. að framkvæma þessar endurbætur. Ég tel einnig að verksmiðjuna á Skagaströnd þurfi að endurbæta og endurbyggja, þannig að hún geti komið í not sem allra fyrst. Við skulum ekki gleyma því, að þótt vetrarveiðarnar á loðnu séu mikilvægar eru sumarloðnuveiðar líka að verða mjög mikilvægar, og þá eru það einmitt norðlensku hafnirnar sem einna best liggja við til þess að stunda loðnuvinnslu, kannske meira en hálft árið, kannske meiri hluta ársins, í stað þess að það eru eingöngu nokkrar vikur sem vetrarloðnuvertíðin stendur sem hæst.

En það, sem ég vildi hér sagt hafa, er að ég tel brýna nauðsyn að endurbæta verksmiðjurnar norðanlands sem allra fyrst. Ég treysti því að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og hæstv. sjútvrh. muni sjá til þess því að þar er afkastagetan mikil og þar yrði vinnslutíminn lengstur.