03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um það ágæta mál sem hér liggur fyrir. Ég tel það gott mál og fullkomlega eðlilegt og raunar nauðsynlegt að það sé nú undinn tiltölulega bráður bugur að því að koma hér upp a. m. k. einni eða tveimur fullkomnum verksmiðjum þar sem byggt verði bæði á íslenskri og ekki síður erlendri reynslu, því að það hefur verið upplýst nýlega sem menn höfðu raunar óljósan grun um, að við höfum ekki fylgst með í þessum efnum og nágrannaþjóðir okkar eru komnar miklu lengra en við á því sviði að reisa fullkomnar verksmiðjur til loðnubræðslu og annarrar fiskbræðslu. Ég tel þess vegna að það sé full ástæða til að taka þessari till. vel og kanna hvar rétt sé og nauðsynlegt að koma upp nýjum verksmiðjum, einni eða fleiri.

En það, sem kom mér til að standa upp, er það, að ég held að það, sem nauðsynlegt sé að gera nú sem allra fyrst og þyrfti raunar að gerast næstu daga, sé að reyna að fá fram þá breytingu í sambandi við loðnuflutningana að það verði verulegt keppikefli fyrir stóru loðnuskipin, þau skip sem geta flutt verulegt magn, það verði keppikefli fyrir þau að flytja loðnuna um langan veg. Mér hefur skilist, — ég hygg að það sé rétt og raunar kom það fram í máli hæstv. sjútvrh., — að það hafi verið töluverð andstaða gegn því að taka nokkurt umtalsvert fjármagn í flutningasjóðinn nú fyrir þessa vertíð. Eftir því sem mér er tjáð hafa það verið útgerðarmenn og skipstjórar og sjómenn smærri skipanna sem af hreinum misskilningi, að ég tel, voru þeirrar skoðunar að með því að taka umtalsverða upphæð af aflanum í flutningasjóðinn væri verið að flytja stóru loðnuskipunum einhverja umtalsverða fjármuni. En einmitt þessa dagana er það að sannast að þessi skammsýni, sem ég vil segja, kemur langharðast niður á litlu skipunum sem hafa ekki aðstöðu til að flytja a. m. k. neitt verulegt magn um langan veg. Ég hygg að það sé þannig komið í dag að margir, sem beittu sér gegn því að tekið væri umtalsvert fjármagn í flutningasjóðinn í haust, séu komnir á þá skoðun að þetta hafi verið og sé óskynsamlegt. Ég hygg að það sé innan við 2% af aflaverðmæti sem nú er tekið í þennan flutningasjóð, og það eru fáeinir aurar sem greiddir eru til þess að ýta undir að stóru skipin sigli langan veg með sinn afla. En ég er sannfærður um að það væri mjög skynsamlegt og gæti bjargað e. t. v. hundruðum millj., ef ekki milljörðum kr. í þjóðarbúið að taka 10-12% af aflanum og auðvelda þannig hinum stærri skipum að sigla með afla sinn á nokkuð fjarlægar hafnir þar sem loðnubræðslur eru. Með þessu vinnst tvennt: atvinnan dreifist á loðnubræðslurnar allvíða um landið og möguleikar allra skipa, ekki síst hinna minni, aukast stórlega að geta landað í þeim höfnum sem eru þá tiltölulega nálægt veiðisvæðinu á hverjum tíma.

Við eigum nú sem betur fer allstóran og vaxandi flota skipa sem bera 500 og allt upp í 1100 tonn, og það er enginn efi á því, að það að gera þessum skipum sæmilega fýsilegt að sigla um nokkuð langan veg mundi geta bjargað geysilega miklum verðmætum þegar á þessari vertíð. Ég vil nú aðeins, um leið og ég legg sérstaka áherslu á þetta sem nánast mál dagsins, beina því til hæstv. sjútvrh. hvort það væri ekki hægt nú þegar að fenginni reynslu að fá þarna fram breytingu sem ég held að sé mjög skynsamleg og verði bæði í bráð og lengd öllum til mikilla hagsbóta.