03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Umr. um þessa till., sem hér hafa farið fram, hafa að ýmsu leyti verið athyglisverðar að mínum dómi. Hér hefur komið fram í máli margra hv. þm. mikill áhugi á því að byggðar verði nýjar síldarverksmiðjur eða loðnuverksmiðjur og reyndar einnig að þær, sem fyrir eru, verði bættar. Menn hafa bent hér á þá miklu möguleika sem við eigum í því að veiða allmiklu meira magn af loðnu en við höfum gert. Allt er þetta að mínum dómi rétt og gott og býsna táknrænt. Hins vegar finnst mér að það hafi verið minna rætt um þá hlið þessa máls sem hér skiptir þó öllu máli, en það er fjáröflun í þessu skyni.

Með þessari till. er áskorun beint til ríkisstj. að hún hafi áhrif á að það verði komið upp myndarlegri verksmiðju af þessari gerð í Grindavík. Ég get varla skilið þessa till. á annan veg en þann, að flm. ætlist til þess að það verði Síldarverksmiðjur ríkisins sem eigi að byggja þessa verksmiðju og eiga hana og reka. Vissulega kemur það til greina, svo mikinn rekstur sem Síldarverksmiðjur ríkisins hafa á höndum. Og vissulega kæmi einnig til greina að Síldarverksmiðjur ríkisins byggðu verksmiðju á Snæfellsnesi sem hefur líka verið nefnd. En nú vitum við það, að mikill meiri hluti verksmiðjanna í landinu hefur ekki verið byggður af Síldarverksmiðjum ríkisins og er ekki rekinn af þeim. Menn hafa ráðist í það að byggja verksmiðjur af þessari gerð ef skilyrði hafa verið sköpuð til þess að menn gætu komið upp svona verksmiðjum og það er einmitt þetta sem á hefur staðið. Það hefur staðið á því að fá fjármagn til þess að þeir, sem hafa áhuga á því og vissa getu til þess að koma upp svona verksmiðju, fái undirstöðulán til framkvæmdanna, og það stendur á nákvæmlega því sama hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Þær hafa verið að biðja um æ ofan í æ aukið fjármagn til að endurbæta verksmiðjur sínar, gera þær sæmilega rekstrarhæfar, og þær hafa ekki fengið fjármagn. Nú hefur verið mótuð sú stefna að skera niður fjármagn í þessu skyni, en það hefur venjulega runnið í gegnum Fiskveiðasjóð. Hann vantar algjörlega fjármagn. Hann verður að neita beiðnum um lán til allra nauðsynlegustu framkvæmda og hann hefur, eins og málin liggja fyrir og fjármagni hans er háttað, engin skilyrði til að samþykkja lán til nýrra verksmiðja.

Hér er því komið að því máli, að ef þm. ætlast til þess að eitthvað sé gert í þessum efnum, bæði til þess að hressa upp á þær verksmiðjur, sem eru fyrir, og til þess að byggja nýjar, þá þarf að taka ákvörðun um að útvega fjármagn í miklu ríkara mæli en nú er til þessara framkvæmda. M. ö. o.: það verður að breyta þeirri lánastefnu sem hefur verið mörkuð af hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, annars gerist ekki neitt. Ég fyrir mitt leyti er á þeirri skoðun að það eigi að breyta þeirri stefnu og útvega Fiskveiðasjóði, sem er eðlilegur aðili að þessu máli, allverulegt fjármagn eða aðgang að erlendu fjármagni með lántöku svo hægt sé að ráðast í skynsamlegar framkvæmdir varðandi þennan atvinnuþátt.

Ég held það hafi verið skynsamlegt af hæstv. sjútvrh. að skipa sérstaka n. til að gera úttekt á þessum málum og reyna að gera sér grein fyrir hve þörfin er mikil og hvar þörfin er mest og hvar væri hyggilegast að hefja fyrstu framkvæmdir, hvort það er bygging nýrra verksmiðja eða endurbætur á þeim eldri. Það er sjálfsagt að athuga það. En ég efast ekkert um að það þarf að setja í okkar verksmiðjur mikið fjármagn vegna þess, eins og hér hefur verið sagt, að þær hafa verið að dragast aftur úr á undanförnum árum vegna fjármagnsskorts, og svo einnig vegna þess að það hefur gengið yfir visst tímabil núna að það hefur verið heldur þröngt hjá verksmiðjunum rekstrarlega séð, þannig að allmargar af verksmiðjunum hafa dregist mjög aftur úr og eru í rauninni orðnar annars og þriðja flokks fyrirtæki eða verksmiðjur.

Það hefur verið sagt, um leið og menn hafa bent á þann möguleika sem við höfum til að stórauka loðnuveiðina, að við gætum ekki veitt alla þá loðnu sjálfir sem fiskifræðingar teldu óhætt að veiða. Þetta er mikill misskilningur. Það er ekkert léttara en það að floti okkar, sá sem stundar veiðar í dag, geti veitt alla þá loðnu sem þeir hafa þorað að tala um að við mættum veiða. Þeir hafa verið svona með töluna milli 600 og 800 þús. tonn. Sé veiðin stunduð, eins og menn gera áætlun um nú, nær allt árið, þá er auðvelt verk fyrir þann flota að veiða þetta magn og þó meira væri. Ég býst meira að segja við því að þeir treysti sér til að leggja þetta aflamagn á land, þessir 30 eða 35 sem hæstv. sjútvrh. tók út úr öllum hópnum, sem eru með stærstu og bestu veiðiskipin, ef þeir fengju sæmilega aðstöðu að öðru leyti í samlandi við vinnslu aflans. Við getum veitt þetta magn, það er enginn vafi á því, og komum til með að gera það eflaust og væntanlega meira magn en þetta sem menn hafa nefnt. En það er rétt, að til þess m. a. að þær verksmiðjur, sem eru í landinu, geti unnið úr meira aflamagni en þær gera í dag, þá þarf að leggja í viðbótarkostnað. Rekstrartími hverrar verksmiðju hjá okkur nú er mjög stuttur, miklu styttri en hjá hliðstæðum verksmiðjum t. d. í Noregi. Hér var það nefnt, sem ég dreg nokkuð í efa að sé í raunveruleikanum, að á sama tíma sem afköst í verksmiðjunum í landinu væru svona 10–12 þús. tonn á dag, þá væri þó til þróarrými upp á 150 þús. tonn. Þessi tala bendir til þess að verksmiðjurnar í landinu hafi helmingi meira þróarrými miðað við afköst heldur en t. d. verksmiðjan okkar í Neskaupstað. Ég dreg það nú heldur í efa að þær hafi það að meðaltali, nema rétt að nafninu. En mér er ljóst að þarna þarf að leggja í verulegan aukinn kostnað ef á að vera hægt að geyma hráefni á viðunandi hátt og hafa vinnslutímann miklu lengri en hann er nú. Á þessu hefur allt stöðvast. Menn hafa ekki haft fjármagn til þess að ráðast í þessar framkvæmdir og hafa því orðið að búa við það sem var.

Ég legg því áherslu á það, að ég er því fylgjandi að till. eins og þessi sé samþykkt og þessari áskorun sé beint til ríkisstj. Ég álít að till. fari í rétta átt. En ég get líka tekið undir þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram, að það þarf auðvitað að huga að verksmiðjukostinum almennt í landinu. En ég vil bæta því við, að það er grundvallaratriði til þess að hægt sé að gera nokkurn skapaðan hlut að marki í þessu máli að það verði ákveðið að útvega viðbótarfjármagn til þess að þeir geti ráðist í byggingu verksmiðja sem hafa hug á því, hvort sem það eru Síldarverksmiðjur ríkisins eða aðrir, en aðrir stækkað verksmiðjur sínar eða bætt þær frá því sem nú er. Nú eru í þessum efnum alveg lokaðar dyr, og eins og lánsfjáráætlun hefur þegar verið afgreidd hér á Alþ. og fjármál Fiskveiðasjóðs, þá eru möguleikarnir engir.

Í sambandi við þetta mál mætti svo skjóta því hér inn, af því að hér er auðvitað um margþætt vandamál að ræða sem ber að hafa í hyggju hvernig á að leysa á sem skynsamlegastan hátt, að það er margt fleira sem hér grípur inn í. Ég nefndi aðeins einn stað í mínu kjördæmi, Vopnafjörð, þar sem er ágæt verksmiðja sem var drifin af stað eftir nokkurra ára notkunarleysi. Þar stendur enn þannig á vegna fjármagnsskorts að betri loðnuskipin, sem þangað leita með farma, fljóta ekki upp að bryggju nema við sérstakar aðstæður og hafa haft skaða af, þau sem hafa lagt í áhættuna. Það hefur ekki fengist fjármagn til þess að búa sæmilega hafnaraðstöðu á þessum stað. Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, en það verður ekki leyst nema með fjármagni. Og sú ríkisstj., sem vill setja sitt fjármagn í eintóma Grundartanga, en hræðist fiskveiðar, hún samþykkir auðvitað áætlun eins og hím hefur gert. En það þarf að rífa upp slíka samninga og breyta til og setja fjármagnið í það sem gæti gefið okkur einhverja peninga og er alveg öruggt að við töpum ekki á, eins og þessum Grundartöngum sem ég er hræddur um að við töpum heldur betur á.