03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt að umr. verði um mál það sem hér liggur fyrir um byggingu nýrrar loðnuverksmiðju. Við stöndum frammi fyrir því að loðnan er einn af þeim fáu fiskstofnum hér við Ísland sem ekki eru ennþá taldir fullnýttir, og því er eðlilegt að menn renni augum þangað sérstaklega þar sem það er vitað að loðnuveiðar og loðnuvinnsla geta hvort tveggja verið sæmilega arðbær atvinnurekstur.

Mér finnst að það þurfi að marka ákveðna stefnu í þessum málum, og mun hæstv. sjútvrh. vera að undirbúa það með skipun þeirrar n. sem nú vinnur að þessum málum. En ég tel að það, sem fyrst og fremst og brýnast sé að gera og fljótvirkast til að auka afköst við vinnslu í landi, sé að tæknivæða betur en nú er þær verksmiðjur sem fyrir hendi eru, og víða mun það vera hægt að stækka þær verulega með miklu minni tilkostnaði en ef um er að ræða byggingu nýrrar verksmiðju. Ég hygg að það yrði fjárhagslega hagkvæmast að standa þannig að málum, að veita þessari hlið málsins forgang.

Hitt liggur nokkuð ljóst fyrir einnig, að það mun að því koma að nýjar verksmiðjur verði byggðar ef loðnuveiði heldur áfram í vaxandi mæli, en ekki er annað sjáanlegt en að svo muni verða á næstunni.

Hv. 2. þm. Austurl. minntist réttilega á það, að ekkert verður að gert í þessum efnum nema um aukið fjármagn verði að ræða. Ég er honum alveg sammála um það. Þrátt fyrir það að alþm. allir muni telja að fara beri varlega í skuldaaukningu erlendis, þá tel ég að í þessu tilfelli komi mjög til greina og liggi raunverulega ljóst fyrir, að ef réttlætanlegt sé að nokkur lán verði tekin erlendis, þá séu það lán til framleiðslutækja eins og hér er um að ræða. Ég hygg að bæði endurbætur á eldri verksmiðjum og reyndar bygginga á nýjum verksmiðjum muni gjaldeyrislega skila sér á til þess að gera mjög stuttum tíma, jafnvel örfáum árum. Ég hygg því að það væri vel réttlætanlegt að veita fyrirgreiðslu í sambandi við lántökur erlendis til bæði einkaaðila og þeirra samtaka sem verksmiðjur eiga. Og ég hygg að það muni reynast hagkvæmast fyrir þessa atvinnugrein að haldið verði frekar áfram á þeirri braut að veita fyrirgreiðslu til handa einstaklingum og félagasamtökum. Á ég þar við fyrirgreiðslu í sambandi við lántökur frekar en að ríkið fari að taka að sér að byggja verksmiðjunnar, hvort heldur væri í Grindavík eða á Snæfellsnesi.

Hér hefur einnig verið minnst á möguleika á kaupum eða leigu á flutningaskipum. Ég tel einnig að sú leið komi mjög til greina. Meðan við erum að koma þessum málum í fastari skorður mundu flutningaskip vel geta jafnað vinnsluna um landið. Yfir vetrarmánuðina þyrfti e. t. v. að flytja loðnu í byrjun vertíðar til Austur- og Suðurlands, og yfir sumarmánuðina væri einnig hagkvæmt að flytja loðnuna bæði til Vestur- og Suðurlands. Með flutningaskipum væri sennilega hægt að jafna mjög afköst verksmiðjanna. Það segir sig sjálft að ef á að gera verksmiðjurnar arðbærari en þær eru nú í dag, þá þurfa þær að fá jafnara hráefni yfir lengri tíma en nú á sér stað. Í mörgum verksmiðjum er unnið af fullum krafti dag og nótt og að sjálfsögðu með tilheyrandi auknum rekstararkostnaði. En ef hægt væri að dreifa vinnslu þeirra á lengri tíma mundi afraksturinn verða enn þá betri og öruggari en hann nú er.

Ég vil undirstrika það í sambandi við bæði endurbætur á þeim verksmiðjum, sem nú eru fyrir hendi, sem ég tel að sé nauðsynlegt og sjálfsagt að tæknivæða betur, og einnig í sambandi við nýjar verksmiðjur, að ég tel vel forsvaranlegt að ríkisstj. beiti sér fyrir lánafyrirgreiðslu á erlendum vettvangi þar sem sjáanlega er ekki um fjármagn innanlands að ræða. Og ég legg áherslu á að það verði ekki síður gert gagnvart einstaklingum og félagasamtökum einstaklinga heldur en að ríkið fari að taka lán sjálft til að byggja upp verksmiðjur sem reknar væru af hinu opinbera.