03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

74. mál, sami kjördagur fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 82 hef ég leyft mér að flytja svofellda till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga hvort ekki sé æskilegt að reglulegar kosningar til Alþingis og sveitarstjórna fari fram samtímis.“

Með þáltill. þessari fylgir nokkuð löng grg., en þó tel ég rétt að víkja til viðbótar að nokkrum efnisþáttum sem mér finnst eðlilegt að hér komi fram í sambandi við framsögu fyrir þáltill.

Í fyrsta lagi vil ég gera grein fyrir því hvers vegna ég hef flutt þetta sem þáltill., því að sjálfsögðu væri alveg eins hægt að flytja t. d. brtt. við lög nr. 58 frá 1961 um almennar sveitarstjórnarkosningar og færa kjördag samkv. þeim lögum til samræmis við það sem gildir í lögum um kosningar til Alþ. En það hef ég ekki gert, heldur valið hina leiðina, þá að flytja þetta í þáltill. formi. Ástæðan fyrir þessu er sú, að mér er fyllilega ljóst að þetta er mál þess eðlis, að það þarf nokkurrar athugunar víð. Menn kunna við fljótan yfirlestur þess að vera haldnir ýmsum fordómum sem ég vænti að nánari athugun, t. d. í n., gæti vikið burt úr hugum þeirra sem af slíkum fordómum eru haldnir. Þess vegna legg ég til að þetta mál verði athugað.

Í öðru lagi vil ég víkja örfáum orðum að því, hver ástæðan er til þessa tillöguflutnings. Það er kunnara en svo, að um þurfi að fjalla í löngu máli, að kosningar til Alþ. og sveitarstjórna kosta æðimikið fjármagn og mikla vinnu hér sem annars staðar. Gæti ég trúað því að kosningar hér hjá okkur væru, miðað við aðstæður allar, dýrari en í flestum öðrum þeim lýðræðisþjóðfélögum sem ég þekki til. Það er því út af fyrir sig þjóðfélagslega eftirsólmarvert að draga úr þeim kostnaði ef mögulegt er og það kemur ekki á neinn hátt í bága við rétt hins almenna kjósanda til að ráða skipan Alþ. og sveitarstjórnar. Þetta tel ég að hægt sé að gera, draga úr hinum almenna kostnaði og umstangi, sem er í kringum kosningar án þess að það skerði á nokkurn hátt hinn helga kosningarrétt.

Ég geri ráð fyrir því að fleiri hv. þm. en ég hafi hugsað stundum, þegar úrslit kosninga liggja fyrir, eitthvað á þann veg, að til lítils hafi kannske verið varið öllum þeim tíma og þeim fjármunum sem einstakir flokkar hafa lagt í kosningaslaginn, því að oft og tíðum hafa breytingar í kosningum ekki orðið miklar. Enn fremur vil ég benda á að þetta fyrirbæri, að kosið sé samtímis til þjóðþinga og til sveitarstjórna, er þekkt annars staðar frá. Þær fregnir, sem ég hef af reynslu þeirra þjóða, sem þetta hafa reynt, eru allar á einn veg — ég ætti e. t. v. ekki að segja „þeirra þjóða“, því að ég hef satt að segja aðeins reynslu einnar þjóðar fyrir mér í þessu sambandi, en það er reynsla svía sem árið 1970 tóku það í lög að kjósa samtímis til þjóðþingsins, til landsþinganna og til sveitar- og bæjarstjórnanna.

Í grg. með þáltill. þessari hef ég lýst því hvernig að þessum kosningum er staðið, kosningafyrirkomulaginu og öðrum atriðum framkvæmdalegs eðlis í sambandi við þessar kosningar. En það get ég fullyrt og hef fyrir mér orð margra mætra sænskra þm., og raunar fleiri en þm., að þeir telja allir að þessar breytingar hafi orðið til góðs, og það hygg ég að mundi verða hér á landi eftir því sem tímar líða fram og menn fara að kynnast þessu nánar.

Það hefur svo sem gerst í okkar sögu að kosningar til Alþ. og sveitarstjórna hafi verið á sama ári. Ég held að ég muni það rétt, að árið 1946 hafi svo gerst og á næsta ári á að öllu óbreyttu að kjósa á sama ári til Alþingis og sveitarstjórna. Ef horfið yrði að því ráði hér að hafa sama kjördag til alþingis- og sveitarstjórnarkosningar, þá er nauðsynlegt að hyggja að því að samkv. okkar lögum og raunar stjórnarskrá er gert ráð fyrir að hægt sé að rjúfa þing. Það þýðir að fjögurra ára kjörtímabilið kann að styttast vegna þingrofs. Og þá kynnu einhverjir að spyrja sem svo: Hvernig fer þá, ef kjósa á á sama degi til sveitarstjórna og til Alþ., hvernig fer þá með umboð sveitarstjórnanna? Það er hægt að hugsa sér tvennar breytingar á lögunum til að koma í veg fyrir að þetta verði vandamál. Í fyrsta lagi væri hugsanlegt að binda kjörtímabil sveitarstjórna við kjörtímabil til Alþ. Það mundi þýða að ef þingrof færi fram og kjörtímabil styttist, þá styttist af sjálfu sér einnig kjörtímabil hinna ýmsu sveitarstjórna. En ég tel þá leið á margan hátt óeðlilega. Það er ekki svo beint samband á milli sveitarstjórnarmálefna og landsmála að þingrofsheimildin, sem er beitt til að stytta kjörtímabil Alþ., eigi að leiða af sjálfu sér til þess að kjörtímabil sveitarstjórna styttist. Því hallast ég að því fordæmi sem svíar hafa í þessum efnum. Þar er heimild til þess að rjúfa þing alveg eins og hjá okkur. En þingrof í sjálfu sér í Svíþjóð leiðir ekki til lengingar hins almenna kjörtímabils. Kjörtímabil í Svíþjóð er nú, ef ég man rétt, 3 ár. Ef þing yrði rofið að hálfnuðu kjörtímabili, eftir að 11/2 ár er liðið af því, og gengið til nýrra kosninga, mundi umboð hinna nýju þm., sem kjörnir yrðu við þessar kosningar, aðeins gilda til enda hins venjulega kjörtímabils. Svipuð ákvæði væri auðvelt að segja í lög um kosningar til Alþ. ef að þessu fyrirkomulagi yrði horfið, að láta kosningar til Alþ. og sveitarstjórna bera upp á sama daginn.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að fara mörgum fleiri orðum um þennan tillöguflutning. Ég vísaði í upphafi til þeirrar grg. sem fylgir með till. og er nokkuð ítarleg. Það er trúa mín að ef að þessu fyrirkomulagi yrði horfið, þá mundi það fljótlega sanna ágæti sitt hér eins og það hefur t. d. gert í Svíþjóð. Það getur á engan hátt verið eftirsóknarvert út af fyrir sig í okkar þjóðfélagi að efna til harðvítugra kosninga oftar en brýnustu nauðsyn ber til. Þar af leiðir að allar breytingar, sem gætu komið í veg fyrir að efnt væri of oft til kosninga, eru að mínu viti til bóta ef þær skerða á engan hátt kosningarrétt hins almenna kjósanda og geta jafnvel stuðlað að frekari friði í þjóðfélagi okkar, þjóðlífi okkar, en á fáu þurfum við meira að halda nú en einmitt slíkum starfsfriði.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málínu vísað til hv. allshn.