03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

130. mál, varnir gegn óréttmætum verslunarháttum

Flm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Stefáni Jónssyni leyft mér að flytja till. til þál. um endurskoðun l. nr. 81 19. júní 1933, um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram endurskoðun á l. nr. 84 19. júní 1933, um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum, í því skyni að endurnýja og gera ítarlegri öll ákvæði er varða almennar verslunarauglýsingar. Skal höfuðáhersla lögð á að gera lögin þannig úr garði að þau feli í sér aukna vernd gegn háþróuðum auglýsingaiðnaði nútímans, með því m. a. að gera ákveðnar kröfur til heiðarleika, siðgæðis, sanninda og látleysis auglýsinga.“

Þessi till. var flutt á 96. löggjafarþingi, fyrir tveim árum, og þá fylgdi henni grg. sem ég vil víkja e. t. v. stuttlega að nokkrum köflum úr.

Það er alkunna að flóð auglýsinga vöru og þjónustu er eitt einkenni nútíma viðskiptahátta. Blöð og tímarit, útvarp og sjónvarp flytja viðskiptavinum sínum daglega fjölda þessara auglýsinga í miklu úrvali. Sjónvarp hefur þó algera sérstöðu á þessu sviði sem nýr og einhver áhrifamesti fjölmiðill sem enn er fundinn upp. Framleiðendur, heildsalar og smásalar reyna með þessum hætti að ná athygli almennings hver í kapp við annan, gylla vöru sína með öllum ráðum. Hér má auðvitað við bæta ýmsu fleiru en beinum vöruauglýsingum eða verslunarauglýsingum. Ýmsar aðrar auglýsingar, sem dynja yfir okkur, eru með þeim hætti að það er full ástæða til að endurskoða þær einnig, þótt þær falli kannske ekki eins inn í þessi lög og þurft hefði.

Það má segja að í þjóðfélagi sem okkar gegni auglýsingar þýðingarmiklu hlutverki, bæði fyrir seljanda og neytanda, en innan hæfilegra marka þó. Í grg. er bent á það, að auglýsingaflaumur allsnægtaþjóðfélagsins, sem við erum stundum að guma af, sé kominn út fyrir gagnsemismörkin, hann grundvallist á þeirri staðreynd að þörfum margra er fullnægt og meira en það. Þeir, sem eiga nóga peninga, þurfa þess vegna beinlínis að láta búa til þarfir handa sér, — þeir sem hafa mesta kaupgetuna og bestu kjörin.

Um sinn hefur að vísu syrt að hjá miklum hluta fólks þó að mikil kaupgeta sé enn áberandi hjá stórum þjóðfélagshópum. En þetta að búa til þarfirnar er að verða sífellt meira áberandi og auglýsingar eru því reknar sem háþróuð vísindi, ég tala nú ekki um í því móðurlandi auglýsinganna, Bandaríkjunum, þar sem þetta gengur hvað lengst. Þar er um sálfræði að ræða sem hefur það viðfangsefni að vekja hjá manninum löngun sem hann fann ekki fyrir áður.

Gamlar kennisetningar um lögmál framboðs og eftirspurnar eru því löngu orðnar marklausar að þessu leyti varðandi fjölda fólks, og það á við um sorglega marga að aðrir búa til þarfir handa þeim. Maðurinn er ekki fullkomlega sjálfráður um þær í raun. Það er rétt að lagagr., sem að þessu lúta sérstaklega í þessum nær 44 ára gömlu lögum, eru nokkuð ákveðnar og segja töluvert mikið. En það, sem ég set mest út á og held að þurfi mikillar athugunar við, er að þær eru ekki nógu tæmandi.

Við flm. bendum á það í grg. að auglýsingar gegna ákveðnu hlutverki. Þær njóta viðurkenningar og fyrirgreiðslu og þess vegna hvílir á þeim mikil þjóðfélagsleg ábyrgð og gildi þeirra byggist á tiltrú neytenda. Áhrif þeirra eru mikil og þess vegna er nauðsynlegt að vanda til þeirra og koma í veg fyrir allar skaðlegar verkanir og óæskilegan boðskap. Í grg. er auk þess bent á nokkur atriði sem þyrftu beinlínis að koma inn í upptalningu um hvað varast beri í auglýsingum. Ég vil leyfa mér að lesa upp þessi atriði:

Auglýsingar eiga aldrei að vera þess eðlis að þær færi sér í nyt reynsluleysi eða kunnáttuleysi þeirra sem þeim er beint til. Þær eiga aldrei að höfða til hjátrúar og því síður til ótta eða bera með sér staðhæfingar sem eru til þess fallnar að villa um fyrir fólki eða vekja upp hugboð sem er villandi um ástand eða eiginleika. Þær ættu aldrei að sýna eða lýsa atvíkum sem brjóta almennar varúðarreglur eða gætu ýtt undir vanrækslu í þeim efnum, t. d. hvað viðvíkur meðferð á rafmagni, vatn: eða eldi eða umferðarreglum og fyrirmælum stjórnvalds. Auglýsingum ætti aldrei að beina til barna eða unglinga og ekki ættu þær að bera með sér staðhæfingar eða myndir, sem gætu reynst börnum og unglingum skaðlegar sálrænt og siðferðislega eða hefðu skaðleg áhrif á uppeldi þeirra og afstöðu til uppalenda þeirra. Þær ættu ekki heldur að færa sér í nyt eðlilega trúgirni barna eða reynsluleysi. Og síðasta atriðið er um það, að auglýsingar ættu aldrei að færa sér í nyt vonir þeirra, sem haldnir eru sjúkdómum, eða færa sér í nyt dómgreindarleysi sjúkra og þjáðra með loforðum um lækningu. Varast ætti allar auglýsingar sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á þá sem haldnir eru spila- eða veðmálafíkn.

Þessi atriði eru ekki tæmandi, heldur tekin af handahófi. Það, sem vakir fyrir okkur flm., er fyrst og fremst að endurskoða þessi lög og gera þau fyllri og ítarlegri. Það hlýtur að vera full þörf á því með jafngömul lög og hér er um að ræða og þær gífurlega breyttu aðstæður í þjóðfélaginu sem við stöndum andspænis gagnvart auglýsingaiðnaðinum.

Ég hef leyft mér að vitna í grg. Hún segir í raun og veru flest sem segja þarf um ástæður þess að þessi till. er flutt. Auglýsingin er hér aðalatriðið og það er af ofureðlilegum ástæðum. Það er lítt sambærilegt, eins og ég sagði áðan, hvernig auglýst er nú og fyrir 40 árum. Auglýsingatæknin, möguleikarnir, fjölmiðlarnir og fjölbreytnin þar, allt þetta gerir það að verkum að brýn nauðsyn er að gera allar þessar reglur ítarlegri og gera mögulegt að auðvelt sé um að dæma hvaða auglýsingar eigi rétt á sér og hverjar ekki.

Það er ýmislegt, sem hér þarf að athuga. Ég fullyrði að yfirleitt eru t. d. íslenskar sjónvarpsauglýsingar ólíkt betur unnar og um leið sannari þó en velflestar þær útlendu sem margar hverjar eru svo forheimskandi að þær mæla beinlínis gegn þeirri vöru sem verið er að gylla. Þær eru því að þessu leyti til saklausar. En um leið vaknar sú spurning: Hvaða rétt eiga slíkar forheimskandi auglýsingar inn á hvert heimili í sjónvarpi t. d.? Ég dreg hann stórlega í efa. Börn og unglingar og jafnvel við hin fullorðnu erum býsna viðkvæm og á vissan hátt móttækileg fyrir slíkum auglýsingum þrátt fyrir allt, og nóg er til í fjölmiðlum af ýmsu tagi til þess að brjála dómgreind okkar þó að ekki sé bætt þar ofan á með auglýsingum sem ég hirði ekki um að tilgreina, en mér hafa oft ofboðið algerlega.

Sjónvarpsauglýsingar voru hér mjög til umr. á síðasta þingi. Þar á meðal var um það rætt að banna erlendar auglýsingar, og um leið voru höfð sterk orð um þær á hinn neikvæða veg. Undir margt af því get ég fúslega tekið. En innlendu sjónvarpsauglýsingarnar sumar hverjar hafa þó vakið upp hjá mér vissar efasemdir og spurningar og einstakar þeirra vakið slíka andúð hjá mér að ég hef sannfærst um að endurskoðun umræddrar löggjafar sé nauðsynleg. Ég hef fengið um það ábendingar hjá svo glöggum mönnum að ég hlýt að taka þar á mikið mark. Einn kunnasti og virtasti bókaútgefandi landsins hafði við mig samband fyrir skömmu og hvatti mig mjög eindregið til þess að ná þessari endurskoðun fram. Síðan benti hann mér á ýmis dæmi sem hann hafði tekið eftir varðandi auglýsingar okkar sem hann taldi beinlínis að hefði átt að banna. Hann tók eina sérstaklega sem dæmi, — auglýsingu sem menn hafa eflaust skemmt sér rækilega við ná í kringum áramótin og fara sennilega að gera nú aftur og var leikin svo vel að raunverulegur boðskapur hennar fór í raun og vera fram hjá fólki. Hér var þó hvorki um meira né minna að ræða, sagði þessi ágæti bókaútgefandi, en að það var æðsta menntastofnun okkar sem þessari auglýsingu stóð. Þar var blátt áfram, ef grannt var skoðað, hvatt til þess að menn viðhefðu svík í spilum, og það var sett í samband við Happdrætti Háskólans á vægast sagt ósmekklegan máta. Það var því ekki nema von að lítill frændi þessa bókaútgefanda segði: „Svona á að spila, svona á að græða.“

Ég held að með nákvæmum reglum um auglýsingar hefði þessi auglýsing varla sést í sjónvarpinu. Þetta dæmi er tekið beint frá þessum ágæta bókaútgefanda, ekki síst fyrir þá sök að hann vildi að það kæmi hér glögglega fram í sambandi við þessa till. og einmitt að þarna var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, þar sem var Háskólinn sjálfur.

Tóbaksauglýsingar eru bannaðar hér, en í auglýsingum eru reykingar rækilega auglýstar og í raun og veru lofsungnar. Það er reyndar gert víðar og e. t. v. á enn umdeilanlegri hátt í sjónvarpi, svo sem frægt varð á s. l. ári. Hið sama má auðvitað segja um auglýsingu áfengis af ýmsu tagi í dagskrá sjónvarpsins alveg sérstaklega. Þar hefur það jafnvel borið við að heil leikrit hafa verið byggð upp á drykkjuskap, bæði fegruðum, alveg sérstaklega fegruðum og reyndar ófegraðri mynd hans líka. Þetta er sérkapítuli sem væri þó freistandi að ræða, en á tæpast heima í þessum umr. og snertir þar ekki beint, þó að unnt væri að nefna sláandi dæmi um óbeinar auglýsingar af þessu tagi.

Ég vil nefna aðeins dæmi sem snertir þá upptalningu er í grg. felst. Umferðarmál okkar hafa af eðlilegum ástæðum verið mjög á döfinni og sérstakir umferðarþættir til varnaðar hafa verið fluttir, svo sem eðlilegt og sjálfsagt er. Það hefur verið býsna ömurlegt að horfa nokkrum mínútum áður á auglýsingar frá bilasölu hér sem hafa vægast sagt ekki verið til varnaðar, heldur þvert á móti sýnt hinn svæsnasta glannaskap og jafnvel bein brot á öllum umferðarlögum og þá alveg sérstaklega hvað bein öryggismál snertir, — auglýsingar sem tvímælalaust ættu að hverfa ef hér væri fastar og ákveðnar að orði kveðið í endurskoðuðum lögum. aðeins eitt dæmi af mörgum.

Og svo eru lækningaauglýsingarnar, töframeðulin sem við höfum verið blessunarlega laus við, þó að alltaf öðru hverju hafi þeim skotið upp og ekki aðeins veittar falskar vonir, heldur ekki síður sumar hverjar beinlínis verið skaðlegar. Hér held ég að sjónvarpið okkar blessaða sé tiltölulega laust við, þó að þar hafi þessi vettvangur verið notaður býsna vel af framleiðendum ýmiss konar til að koma vöru sinni á framfæri.

Sumir vilja í alvöru halda því fram að auglýsingaflóðið sé svo yfirþyrmandi að það skipti þess vegna litlu máli um ákvæði þar að lútandi, hvort þau eru gerð strangari eða nákvæmari. Það er sagt að auglýsingar séu orðnar óþægilega fyrirferðarmiklar í þjóðlífinu, og mér þykja þær vægast sagt hvimleitt fyrirbæri, t. d. í útvarpi og sjónvarpi, sem margtuggnar eru um ágæti ýmissa vörutegunda, nauðsyn þessa og hins, þó að enn fáum við að vera í friði fyrir þessum auglýsingum inni í miðri dagskrá svo sem er í Bandaríkjunum t. d. En án takmarkana og fastari reglna hér um er ég sannfærður um að ýmsir hvimleiðir fylgifiskar óæskilegrar auglýsingamennsku muni aukast hér að miklum mun á næstunni, ef skorður verða þar ekki við reistar.

Ég vil hins vegar taka það mjög skýrt fram, að eðlileg auglýsingastarfsemi er sjálfsögð í nútímaþjóðfélagi og við henni er síst verið að amast með þessari till., eins og ég heyrði utan að mér á sínum tíma. Ég dreg hins vegar ekkert úr andúð minni á því að sífellt sé verið að búa til þarfir handa fólki og gylla þær með glæstum, en meira og minna ósönnum auglýsingum. Hér kann að vera komið að hinu margrómaða og margumtalaða frelsi sem ekki hvað síst kemur fram í ýmsu því er lýtur að verslun og viðskiptum og er meira og minna byggt á fölskum forsendum. En hér þarf vissa rönd við að reisa. Till. okkar hv. þm. Stefáns Jónssonar er tilraun í þá átt að málið allt verði athugað, að bestu menn verði til kvaddir að gera þau ákvæði sem ítarlegust sem á er þörf og umfram allt hindra óæskilega þróun sem ýmislegt bendir til nú þegar og vitað er að á verður sótt af ofurkappi ef ekkert verður við gert.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því að þessari till. verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.