26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

242. mál, heyverkunaraðferðir

Fyrirspyrjandi (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Sumarið 1975 var bændum óvenju óhagstætt til heyskapar um meginhluta landsins eða allt frá sunnanverðum Austfjörðum vestur og norður um land austur til Skagafjarðar. Með hliðsjón af því erfiða ástandi, sem var afleiðing óþurrkanna og kom fram í litlum og lélegum heyforða á þessu svæði, flutti ég hér á Alþ. till. til þál. um rannsóknir og áætlanagerð um heyverkunaraðferðir. Till. var samþ. 18. maí s.l. og er þál. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hún hlutist til um að Rannsóknastofnun landbúnaðarins efni til frekari rannsókna á heyverkunaraðferðum með það fyrir augum að finna með hverjum hætti hagkvæmast verði staðið að heyskap, enda verði fjármagn veitt til verkefnisins á fjárlögum.“

Eftir að þessi till. var samþ. hafa fjölmargir einstaklingar, leikir og lærðir, haft samband við mig og hafa sumir spurst fyrir um framkvæmd till., en aðrir komið fram með hvers konar till. um lausn á vandamálum sem þessum. Öllum þessum aðilum hef ég stefnt til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins til þess að fá upplýsingar þar um framkvæmdina. M.a. hefur mér borist till., sem samþ. var á Fjórðungsþingi Norðlendinga og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungsþing Norðlendinga, haldið á Siglufirði 30. ágúst til 1. sept. 1976, beinir því til Búnaðarfélags Íslands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að auknar verði rannsóknir og leiðbeiningar á mismunandi heyverkunaraðferðum.“ Þá þykir mér rétt að vitna hér einnig til þess, að sama dag og till. mín var samþ. á Alþ., hinn 18. maí s.l., kom hópur manna saman til fundar í húsi Vatnsveitu Reykjavíkur og ræddi um varmadælutækni og hugsanleg áhrif hennar á þjóðarhag og væri þá líklegast að hagnýta þá tækni við t.d. húsahitun, almennan iðnað, súgþurrkun heys, fiskiðnað o.fl. Og 9. júní 1976 skrifar svo Jónas Elíasson prófessor við verkfræði- og raunvísindadeild Háskólans bréf til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér með sendist yður erindi umræðuhóps um varmadælutækni varðandi súgþurrkun. Þessi viðræðuhópur hefur starfað um hríð. Innan hans eru ekki sérfræðingar í heyverkun, en hópurinn telur að með samstarfi við þá séu góðir möguleikar á að bæta súgþurrkunartæknina án verulegs kostnaðarauka. Sé áhugi á þessu samstarfi fyrir hendi er hópurinn til viðræðu um nánari framkvæmdaatriði málsins, tæknileg og kostnaðarleg.

Virðingarfyllst,

Jónas Elíasson prófessor.“

Nú hefur það gerst, sem mönnum er í fersku minni, en sjaldan hendir, að óþurrkar hafa herjað að nýju sömu byggðarlög sumarið 1976 og harðast urðu úti sumarið áður. Það er því tvíaukin þörf fyrirbyggjandi aðgerða af hálfu hins opinbera samfara því að leysa bráðan vanda þeirra sem ekki þola slík endurtekin áföll, en það er önnur saga.

Ég vil einnig nú láta það koma hér fram, að rannsóknir, sem farið hafa fram á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á fóðurgildi heys frá sumrinu í sumar, benda allar til þess að heyin séu að þessu sinni snöggt um verri heldur en þau voru í fyrra og það svo að um Suðurland muni ekki vera nema fjórðungur heyjanna sem má telja að sé sæmilegt að notagildi. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. landbrh. sem er svo hljóðandi:

„Hvað líður framkvæmd þál., sem samþ. var á síðasta Alþ., um rannsóknir og áætlanagerð um heyverkunaraðferðir?“