08.02.1977
Sameinað þing: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

155. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að mæla hér með örfáum orðum fyrir till. til þál. á þskj. 302, en till. fjallar um staðfestingu á niðurstöðu viðræðna um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir íslendinga og færeyinga. Till. er á þessa leið:

Alþ. ályktar að staðfesta niðurstöðu viðræðna um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir íslendinga og færeyinga, sem undirrituð var hinn 4. febr. 1977. Niðurstaðan er prentuð sem fylgiskjal með ályktun þessari.“

Hér er sem sagt farið fram á samþykkt Alþ. á þeirri niðurstöðu sem varð í viðræðum milli lögmanns færeyinga og sjútvrh. þeirra við fulltrúa ríkisstjórnar Íslands sem fram fóru hér í Reykjavík 4. þ. m. um heimildir annars vegar okkar til kolmunnaveiða innan fiskveiðimarka Færeyja og hins vegar færeyinga til loðnuveiða við Ísland.

Eins og grein var gerð fyrir á fundi utanrmn. eigi alls fyrir löngu barst um jólaleytið bréf frá lögmanni færeyinga, Atla Dan, til okkar þar sem farið var fram á heimild til loðnuveiða, 20–30 þús. tonn, á þessu ári. Því var strax svarað til að íslendingar mundu engar veiðiheimildir veita, enga fiskveiðisamninga gera meðan Alþ. væri ekki að störfum eins og fram var tekið í umr. fyrir jólaleyfið. En þegar þing kom saman að nýju var tekið við þessari færeysku sendinefnd, sem ég áðan nefndi, og gerður sá samningur eða það samkomulag sem hér er til umr. og er háð samþykki bæði Alþingis og Lögþings Færeyja. Sú niðurstaða, sem hér um fjallar, gerir ráð fyrir að hvor aðill um sig hafi heimild til að veiða allt að 25 þús. smálestum af framangreindum fisktegundum. Kolmunnaveiðarnar mega stunda 15–17 íslensk skip. Á sama hátt geta 15 færeysk skip stundað loðnuveiðar, þó aldrei fleiri en 8 í senn. Þau fiskiskip, sem umræddar veiðar stunda, skulu hlíta sömu reglum og innlend skip við sams konar veiðar, þ. á m. að því er varðar friðunarsvæði og lokun svæða yfirleitt. Í samkomulaginu er einnig tekið fram að aðilar telja æskilegt að stofnað verði til samvinnu um rannsóknir á göngu kolmunna á svæðinu milli Íslands og Færeyja.

Ástæðan til þess, að ríkisstj. taldi rétt að gera þennan samning, er í örstuttu máli sú í fyrsta lagi, að fiskifræðingar telja að loðnugangan muni að þessu sinni vera það mikil að íslensk skip muni ekki anna veiðum á henni. Í öðru lagi eru höfð í huga þau ákvæði hins samræmda texta sem hefur verið gerður á Hafréttarráðstefnunni, að þegar þannig standi á að fiskstofnar leyfi sé eðlilegt að strandríki veiti öðru ríki samningsbundnar veiðar innan fiskveiðilögsögu sinnar. Í þriðja lagi mætti svo kannske nefna það, að færeyingar hafa sérstöðu og að við höfum viljað með þessu sýna að við skiljum að þeir eiga mikið undir fiskveiðum komið, ekkert síður en við. Færeyingar eiga nú mikla örðugleika fram undan í viðskiptum sínum við Efnahagsbandalag Evrópu, þar sem ljóst er að veiðisvæði mjög mikils hluta þessa afla, sem þeir hafa að undanförnu fiskað, verður innan fiskveiðitakmarka Efnahagsbandalags Evrópu, og fari svo að bretar fái sérstaka fiskveiðilögsögu fyrir sig, t. d. 50 mílur, þá eru allar horfur á því að verulegur hluti veiðisvæðis færeyska aflans undanfarið lendi innan þess svæðis og þá er staða færeyinga mjög örðug.

Eins og ég sagði er niðurstaðan birt sem fylgiskjal, og ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja hana nánar en gert hefur verið. Ég hef þegar gert grein fyrir helsta efni hennar. Ég hef þegar gert grein fyrir þeim ástæðum sem lágu að baki þeirri ákvörðun ríkisstj. að gera þetta samkomulag, þó að sjálfsögðu að áskildu samþykki Alþingis.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að þegar menn hafa rætt vild sína nú, þá verði umr. frestað og till. vísað til hv. utanrmn. Ég vil taka fram að ef hv. alþm. ákveða að verða við þessari beiðni færeyinga og staðfesta þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir, þá er þeim mjög áríðandi að fá að hefja veiðarnar sem allra fyrst, þar eð miklu styttra er á miðin meðan loðnan er fyrir Austur-Íslandi heldur en síðar verður, þegar hún hefur flutt sig annað.