08.02.1977
Sameinað þing: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

155. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hef ekki athugasemdir að gera við það samkomulag sem gert hefur verið við færeyinga og hér er til umr. Ég vil hins vegar taka það fram, að fylgi mitt við þessa till. er af nokkuð öðrum toga spunnið en hér kom fram hjá hæstv. utanrrh.

Ég tel ekki hafa verið röksemdir fyrir því að semja um þessa heimild handa færeyingum nú af þeim ástæðum að við íslendingar gætum ekki veitt alla þá loðnu sem fiskifræðingar telja leyfilegt að veiða á okkar miðum. Það er misskilningur. Það er tiltölulega mjög auðvelt fyrir okkar flota að veiða allt það magn. Þar er aðeins um það að ræða að skipuleggja okkar mál nokkuð á annan veg en nú er gert til þess að koma því í verk. Ég tel ekki heldur ástæðu fyrir þessum samningum þá, að við séum að fá rétt hjá færeyingum til veiða á kolmunna. Ég hefði sætt mig vel við þennan samning án nokkurrar slíkrar heimildar. Það er skoðun mín að ef eitthvað verður að ráði úr veiðum okkar á kolmunna, þá muni þær veiðar allar fara fram, miðað við þá reynslu sem við höfum af því, í fiskveiðilögsögu okkar.

Ástæðan til þess að ég vil ekki standa gegn því að færeyingum sé veitt þessi heimild er sérstaða færeyinga og sú vinsemd sem ég tel að við eigum að sýna færeyingum varðandi þessi mál. Ég hef sagt það áður, að ég hefði talið rétt að standa þannig að þessum málum nú, að við hefðum sagt upp öllum fiskveiðiheimildum útlendinga sem nú eru í gildi og gert tilraun til þess að losa okkur við vestur-þýska samninginn vegna gjörbreyttra kringumstæðna, — og þegar ég segi: að losa okkur við alla samninga, þá á ég einnig við þá samninga sem gilda við færeyinga, en taka svo upp þeirra sérmál alveg sérstaklega og athuga þá einnig hvort við gætum ekki liðsinnt þeim með heimildum til veiða á loðnu, einkum og sérstaklega að mínum dómi á sumarveiddri loðnu, en leita eftir því við þá að þeir féllu hins vegar frá óskum sínum um að stunda þorskveiðar hér, einkum á þessu ári sem verður tvímælalaust nokkuð viðkvæmt ár fyrir okkur með þorskinn. En hæstv. ríkisstj. hefur hér haft annan hátt á, haldið áfram í gildi öllum fiskveiðiheimildum, sem verið hafa, og tekið út úr þessa beiðni um loðnuveiðar. Ég vil ekki standa gegn því af því að ég vil meta stöðu færeyinga á annan veg en annarra og að við sýnum þeim þá vinsemd sem fram kemur í þessum samningi. Því mun ég út af fyrir sig styðja þetta samkomulag, þó að ég hefði óskað eftir því að öðruvísi yrði staðið að málinu. Rökstuðningur minn fyrir því að fylgja þessu máli er talsvert mikið á annan veg en kom fram hjá hæstv. utanrrh.