08.02.1977
Sameinað þing: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

155. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil aðeins að það komi fram hér, að við munum styðja þá þáltill. sem hér er til umr. og afgreiðslu. Skoðun mín er sú, að sá samningur, sem hér er gert ráð fyrir að gerður verði, byggist ekki á því að við íslendingar sjálfir getum ekki veitt allt það aflamagn af loðnu sem hugsanlegt er. Ég held að það sé vart nokkurt vafamál að við gætum gert það. Við höfum flota til þess og með skynsamlegri hagnýtingu verksmiðja væri hægt að anna þeim afla. En ég held að einmitt á þessu sviði, þ. e. í sambandi við loðnuna, getum við helst leyft okkur að sýna færeyingum þá velvild að leyfa þeim að veiða hér nokkurt magn af loðnu nú.

Ég hef við allar umr. um samninga við erlendar þjóðir í fiskveiðilandhelgi okkar að undanförnu gert grein fyrir þeirri afstöðu minni, að ég væri andvígur öllum samningum við allar þjóðir sem væru í því formi að heimila þeim veiði á þorski hér innan fiskveiðilandhelginnar. Ég hef ekki breytt neitt afstöðu minni til þessa, og ég vil láta það koma fram að ég tek mjög undir það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., að ég hefði talið eðlilegt vegna gjörbreyttra aðstæðna að notað hefði verið það tækifæri sem gefist hefur til þess að segja upp öllum þeim samningum sem gerðir hafa verið við erlendar þjóðir um heimild til veiði á þorski innan landhelginnar, ekki hvað síst þeim samningi sem gerður var við vestur-þjóðverja á sínum tíma. Sá samningur er hinn versti sem við verðum að búa við nú — allt fram í nóvember n. k. að minnsta kosti. Það hefði því verið full ástæða til að losa sig við þann samning.

En ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Við þm. SF munum greiða atkv. með því, að þessi samningur verði gerður, og teljum að á þann hátt getum við sýnt færeyingum þá velvild, sem þeir eiga að mörgu leyti skilið, og að við getum hvað frekast veitt þann stuðning með því að leyfa þeim veiði á þessum fiskstofni.