08.02.1977
Sameinað þing: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

80. mál, hámarkslaun

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Við flytjum saman á þskj. 88, við Helgi F. Seljan og Jónas Árnason, þáltill. þessa sem hljóðar raunar fremur um launahlutfall, að kveðið verði á um launahlutfall, heldur en beinlínis það hver hæstu laun megi vera. Efnisgrein till. hljóðar þannig:

Alþ. skorar á ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um hámarkslaun, þar sem kveðið verði á um að ekki megi greiða hærri laun hér á landi en sem svarar tvöföldum vinnulaunum verkamanns miðað við 40 stunda vinnuviku. Jafnframt verði loku fyrir það skotið að einstaklingar gegni nema einu fastlaunuðu starfi, eins fyrir hitt, að átt geti sér stað duldar launagreiðslur í formi neins konar fríðinda umfram hámarkslaun. Með breytingu á skattalögum skal að því stefnt að einkafyrirtæki hagnist ekki á lögbundinni lækkun hæstu launa, og skal því fé, sem rennur til ríkissjóðs af þessum sökum eða sparast með niðurskurði á launum embættismanna í efstu launaþrepunum, varið til almennrar kjarajöfnunar og annarra félagslegra umbóta.“

Till. samhljóða þessari var flutt í Ed. í fyrra, en fékkst þá eigi afgreidd.

Í grg. með till. er vakin athygli á því, með hvaða hætti reynsla kynslóðanna leiddi til þess í þessu landi árstíðabundinna athafna að teknar voru upp ákveðnar reglur um það, fyrst og fremst í sjávarútvegi okkar, hvernig skipta skyldi feng. Ég mun ekki lesa að þessu sinni grg. með þáltill. sjálfri, heldur víkja þegar í upphafi sérstaklega að því, með hvaða hætti við flm. höfum hugsað okkur að látið yrði gilda í afstöðu til þessa hlutfalls á milli hæstu og lægstu launa svipað kerfi og það sem við höfum þrautreynt í aflaskiptunum. Ég ber hér sem sagt fram till. um stjórnun á kaupgjaldsmálum sem byggist á kynslóðareynslu varðandi mestu umbun fyrir kunnáttu, framtak, reynslu og ábyrgð, en þar er skipstjórahluturinn tvöfaldur hásetahlutur eða var lengst af — og mun hafa verið svo lengst af allar götur frá landnámstíð. Má vel vera að forfeður okkar hafi flutt með sér þennan hátt um skiptingu afla frá Noregi. Ég ætla í upphafi þessa máls að staldra nokkur andartök við þetta atriði eitt, og þá er það skoðun mín að einstakir þegnar á landi hér eigi ekki fremur tímanlega velferð sína undir kunnáttu og hæfileikum eins forustumanns í okkar þurra samfélagi heldur en hásetinn undir hæfileikum og dug skipstjóra síns. Reynsla kynslóðanna á landi hér í þessi 1100 ár hefur verið sú, að það mun láta nokkuð nærri að umbun í launum fyrir hina mestu ábyrgð, forsjón og framtak megi teljast vera tvöföld laun. Fiskigengd, veðrátta og farkostur með búnaði eru, eins og að líkum lætur, frumforsendur fyrir afla, en þar næst dugur áhafnar undir forustu skipstjóra. Hvort fengurinn, sem til skipta kemur, er meiri eða minni verður hlutföllunum ekki haggað. Skipstjórinn fær u. þ. b. tvöfaldan hásetahlut.

Ég hygg að það sé ekki um það deilt að þessi skipan hafi gefist afburðavel á okkar landi á þessu tímabili. Að vísu er þess að geta að á hlutföllunum hafa orðið lítils háttar breytingar, ekki síst nú síðari árin við tilkomu dýrari skipa og dýrari veiðarfæra þar sem hlutur kapítalsins eða höfuðstólsins í aflaskiptunum hefur verið aukinn og raunverulega veikt hin forna staða hlutaskiptamannsins í kjarasamningum. Ég vil ekki ræða þessar breytingar, tilorðningu þeirra eða hvort þær hafa veríð æskilegar eða óæskilegar, og enn þá síður mun ég ræða þau afbrigði sem orðið hafa þegar eigendur fiskiskipa, hvort heldur einstaklingur eða félög, hafa farið út á þá leið að bjóða í fengsælustu aflaskipstjóra til þess að fá þá til sín með því að bjóða þeim bætur af bátshlut, til þess að fá þá fremur í sína þjónustu. Dæmi um þetta eru kunnug. Dæmi um það eru einnig kunnug að skipstjórar hafa afþakkað slíkt. Það sagði mér útgerðarmaður í hittiðfyrra hvernig skipstjóri hans, einn af fremstu aflamönnum landsins, hefði svarað boði hans um aukinn hlut. Hann sagði við hann: „Leggðu þetta heldur í veiðarfæri. Ég get þá reynt að fiska meira. Ég er hræddur um að strákarnir kynnu að tortryggja mig um það, ef þeir fréttu af því að ég tæki svona boði, að ég ætlaði að gera eitthvað ljótt í staðinn.“ Og útgerðarmanninum fannst þetta nokkuð gott svar.

Ég hygg að þessi háttur, sem notaður hefur verið við skipti á arði af sjófeng, hafi gegnum aldirnar samrýmst allvel réttlætiskennd fólksins og eigi m. a. sinn þátt í því að íslendingar hafa reynst afburðamenn við sjósókn, e. t. v. öðrum þjóðum fremur hér við Norðaustur-Atlantshafið, og tel því eðlilegt vegna þessarar góðu reynslu að siðfræðin, sem að baki þessa fyrirkomulags liggur, fái einnig að gilda um skipan launamála í landi að verulegu leyti.

Ég vil aðeins ítreka nú strax þetta atriði, að í þessari þáltill. er ekki gert ráð fyrir því að sett verði takmörk fyrir því hversu há laun megi greiða á Íslandi, heldur er kveðið á um það hvert hlutfall skuli verða á milli almennra verkamannalauna, miðað við 40 stunda vinnuviku, og hinna hæstu launa sem greidd eru. Tilgangurinn er óneitanlega fyrst og fremst að gera það að algjöru skilyrði fyrir launahækkunum til þeirra, sem hina hæstu launaflokka skipa og hin æðstu embætti og eru í aðstöðu til þess að ráða miklu um skipan íslenskra efnahagsmála, að algjört skilyrði fyrir launahækkunum þeim til handa verði launahækkanir hinna lægst launuðu, að því gólfi verði þeir, sem hæst eru launaðir, að lyfta með sér ef þeir ætli að bæta kjör sín og beita til þess sérstakri aðstöðu sinni.

Í framsöguræðu minni með þáltill. þessari í F.d. leyfði ég mér að taka sérstaklega til dæmis launakjör bankastjóra sem hefðu haft það svo að segja í sama skotinu þá nokkrum vikum áður að hækka laun sín, að sjálfsögðu með heimild sem þeim reyndist ákaflega auðfengin, og að birta yfirlýsingar um að efnahagsástand þjóðarinnar væri með þeim hætti að það þyldi það alls ekki að almenn verkamannalaun yrðu hækkuð á því ári. Ef í lögum hefði verið ákvæði þess háttar, að lækkun á launum verkamanna væri skilyrði fyrir hækkun launa annarra starfshópa, þá hefðu bankastjórarnir okkar, sem í fyrra munu hafa tekið um það bil sexföld verkamannalaun að aukasporslum meðtöldum, alls ekki getað hækkað laun sín samtímis því sem þeir hefðu lagt blátt bann við því að almenn verkamannalaun í landinu hækkuðu. Ég er efalaus um að sú stefna, sem fylgt hefur verið opinberlega á Íslandi síðustu áratugina, að launamismunur sé ekki aðeins leyfilegur, heldur æskilegur sem driffjöður dáða í samfélaginu, — ég er viss um að af þessari stefnu hefur margt nýtt leitt í samfélagi okkar, ekki þó síst innan samtaka launafólks. Ég er einnig viss um að þessi opinbera stefna, að launamismunur skuli í sjálfu sér vera hvati til athafna í samfélagi okkar, hefur leitt til þess að okkur hefur orðið mun erfiðari viðureignin við dýrtíðarvandamálið á landi hér.

Hugtakið hagvöxtur hefur verið skilgreint ákaflega frjálslega hér í sölum hv. Alþ., allt frá þeim skýringum hreinskilinna manna að aukin neysla, bæði einkaneysla og samneysla, stuðli að auknum hagvexti sem sé æskilegur í sjálfu sér og þá að því er virðist án tillits til fjármuna sem úr er að spila fyrir heildina, og til þess að hagvöxtur sé þrátt fyrir allt hugtak sem nota eigi í áætlanagerð um efnahagsmál þjóðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar, að launamismunurinn, sem stuðlað hefur verið að á landi hér síðustu áratugina, hafi valdið þjóðinni fjárhagslegum áföllum. Og síðast en ekki síst hygg ég að hann hafi valdið, ef svo má segja, siðferðilegri hrörnun sem við erum nú að glíma við og höfum séð framan í í ákaflega hvimleiðum og erfiðum málum hin síðari missirin.

Mér er fyllilega ljóst að við gefnar aðstæður kynni að reynast mjög erfitt að framfylgja lagaákvæðum um að enginn starfshópur, engin stétt mætti taka hærri daglaun en tvöföld verkamannalaun. Þetta er mér mjög svo ljóst. Mér er það alveg ljóst að til þess að gera slík lög framkvæmanleg yrðum við að gera grundvallarbreytingu á margs konar annarri löggjöf í landinu. Aftur á móti þykist ég sjá fram á, að slík breyting sé bráðnauðsynleg, og treysti mér til að færa að því ýmis rök. Ég er þeirrar skoðunar að á síðustu áratugum hafi málin þróast óeðlilega og óæskilega og á siðlítinn hátt í það horf, að matið á vinnunni, framlagi hvers manns sem vinnur með höndum sínum tveimur og huga án eignaraðildar, að matið á vinnu þessa manns hafi lækkað óeðlilega í hlutfalli aftur á móti við þann arð sem reiknaður er fyrir fjármagn og fyrir stjórnun. Ég tel að þróunin hafi verið óeðlileg í þá átt að meta til verðs sérfræðimenntun einstakra starfsmanna, hún hafi verið ofmetin á kostnað þeirra verðmæta sem erfiðismaðurinn leggur af mörkum við sköpun verðmætanna með höndum sínum og þreki. Ég tel að launamismunurinn, óeðlilegur og óréttlátur launamismunur, sem gilt hefur á landi hér, hafi valdið sundrung — hættulegri sundrung — innan samtaka launafólks og tortryggni — hættulegri tortryggni — í samfélagi okkar.

Ég minnist þess að við umr. um till. þessa í Ed. kom fram sá misskilningur hjá a. m. k. tveimur hv. þdm. að með þessari till. væri miðað að skerðingu samningsréttar verkalýðsfélaganna. Ég vil vekja athygli á því að í þessari þáltill., í því formi sem hún nú er, er í fyrsta lagi ekki að því miðað að sú skipan, sem hér er ráðgerð, verði látin hrófla við þeim hætti sem nú er á hlutaskiptum sjómanna á sjó. Í öðru lagi er ekki að því miðað að hér verði kveðið beinlínis á um arðskipti, skiptingu á milli — ja, við getum sagt kapítals og vinnu. Það er mál sem skilið yrði eftir, þó að samþykkt till, af þessari tegund kynni kannske að stuðla að því að slíkt mál hlyti að verða tekið upp. Og enn fremur þetta: Það er ekki kveðið á um það að hámarkslaun á Íslandi megi ekki fara upp fyrir ákveðna krónutölu hverju sinni, aðeins kveðið á um hvert verða skuli hlutfall á milli hæstu launa og almennra verkamannalauna á landi hér.

Við búum í landi sem hin svartsýnu skáld 19. aldar leyfðu sér stundum að kalla „helgrinda hjarn“, og á eftir fylgdu spakir ræðumenn í stjórnmálum og öðrum félagsmálum, sem fylgdu eftir kveðskapnum á þá lund að land þetta væri „á mörkum hins byggilega heims.“ Það mun vera rétt að hvað náttúrufar snertir og hinar ytri aðstæður atvinnuvega okkar eða bjargræðisvega, þá mun þetta land tæpast eiga sinn líka í öllum heiminum. Frá því að land byggðist höfum við orðið að sæta stopulli veðráttu og skammri sumartíð og árstíðabundinni fiskigengd til þess að afla þeirra verðmæta, sem þjóðin hefur lifað á, og þess auðs, sem skapast hefur í landinu. Af þessum sökum hefur okkur gengið misjafnlega að sniða stjórn efnahagsmála okkar eftir því sem tíðkast hefur í grannlöndunum, þar sem m. a. okkar hv. hagfræðingar hafa lært fræði sín sem þeir hafa flutt hingað til landsins. Eins og að líkum lætur hafa þessir hagfræðingar, sem eru nú orðnir býsna valdamiklir menn á Íslandi og við finnum fyrir svo að segja daglega hér í sölum hv. Alþ. að ráða býsna miklu um stefnuna í efnahagsmálunum, að sjálfsögðu hafa þeir unað þessum staðreyndum ákaflega illa, að fræði þeirra, sem þeir tileinkuðu sér með talsverðri fyrirhöfn, sumir þeirra að því er virðist með blóði, svita og tárum, þau skuli ekki vegna náttúrufars landsins og aðstæðna hérna vera í heiðri höfð, og hafa þeir þó lagt sig fram um það að fá þjóðfélagsbyggingu þessarar eyþjóðar breytt í trássi við náttúrufar landsins til þess að fræði þeirra megi ná fram að ganga. Ég geri ráð fyrir að ýmsum þeirra þyki að með till. sem þessari sé harla lítið tillit tekið til fræðigreinar þeirra. En með tilliti til þess hvernig fræði þeirra hefur gefist og stjórnun þeirra á íslenskum efnahagsmálum, svo sem við okkur blasir í dag, þá leyfi ég mér að gera það að lokaorðum mínum í framsögu með þessari till., þá leyfi ég mér að bera það andsvar fram strax í upphafi, að tími sé til kominn að leita annarra ráða heldur en þeir hálærðu og góðu menn hafa gefið valdhöfum þjóðarinnar um stjórnun efnahagsmála síðustu áratugina.