26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

242. mál, heyverkunaraðferðir

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. þeirri á þskj. 27, sem hv. 6. þm. Suðurl. var að tala hér fyrir, vil ég gefa eftirfarandi svar, en það er samið af Ólafi Guðmundssyni deildarstjóra hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem vinnur að þessum málum í samstarfi við Hvanneyrarskólann:

Reynt var að efla þessar rannsóknir sem mest með tilliti til þáltill. um auknar rannsóknir á heyverkun sem samþ. var á Alþ. s.l. vor. Lagðar voru fram till. um starfs- og fjárhagsáætlun fyrir árið 1977, þar sem m.a. var beðið um leyfi til að ráða sérfræðing í heyverkun, en enginn slíkur er nú í fullu starfi við bútæknideildina. Þessi beiðni var strikuð út og er ekki í fjárhagstill. þeim sem nú liggja fyrir Alþ.

Fyrir liggur margra mánaða vinna við uppgjör úr þeim tilraunum sem gerðar hafa verið að undanförnu, en enginn starfskraftur til þess að vinna það verk.

Það er útilokað að auka rannsóknir í heyverkun, bæði vegna votheys- og þurrheysverkunar, nema til þess fáist starfskraftur, þ.e.a.s. sérfræðingur og rannsóknamaður.

Reynslan s.l. sumar sýnir að óþurrkakaflar valda þjóðarbúinu tapi sem nemur hundruðum millj. kr. á ári. Margir möguleikar virðast vera fyrir hendi til þess að bæta heyverkun og þurfa þeir rannsóknar við. Kaupa þarf tæki og koma upp heygeymsluaðstöðu og innréttingum, t.d. ýmsum tegundum af votheysgeymslum, tækni við losun heyja og flutning á fóðurgang, tæknibúnað við súgþurrkun, varmadælutækni o.fl. Auk þess þarf að prófa miklu betur tæki fyrir votheysog þurrheysöflun.

Vegna þess, hve brýnt þetta vandamál er og hversu illa bændur eru búnir til að mæta vandamálunum, verður að taka á þessu af alvöru og kaupa nauðsynlegan tæknibúnað og ráða lágmarksstarfslið til heyverkunarrannsókna. Því var lagt til við Alþ. að veitt fé til þessara rannsókna á árinu 1977 yrði sem hér segir: Sérfræðingur í heyverkun 2 millj. Rannsóknarmaður honum til aðstoðar 1.5 millj. Fjármagn til kaupa á tækjabúnaði og mælitækjum sem komið yrði fyrir á Hvanneyri, Hesti og e.t.v. öðrum tilraunastöðum 8 millj. kr. Ýmis rekstrargjöld, ferðakostnaður o.fl. 1.5 millj. Alls 13 millj. kr.

Til viðbótar þessu vil ég svo geta þess sem gert hefur verið Á sumrinu 1976 var unnið að heyverkunartilraunum í samvinnu við Bændaskólann á Hvanneyri svo sem hér segir:

Áhrif sláttutíma og verkunar á gildi þurrheys til fóðrunar: Samanburðarliðir: Snemmslegið vel þurrt og verkað hey, hrakið, komið í hlöðu. Síðslegið, vel þurrt, verkað. Ákvarðanir gerðar á verkunartapi og efnisinnihaldi, fóðrunartilraunir gerðar á sauðfé næsta vetur.

Breytingar á fóðurgildi heys frá slætti til gjafar: Mælingar á rúmlega 20 bæjum. Tilgangur þessara rannsókna er að mæla þær breytingar sem verða á fóðurgildi og fóðurmagni frá því að grös eru slegin þar til þau eru fullverkuð og búin til fóðrunar. Rannsóknir þessar voru framkvæmdar hjá bændum á 30 stöðum s.l. samar, en úrvinnslu er ekki að vænta fyrr en efnarannsóknir hafa verið gerðar á heyjunum við gjafir nú í vetur.

Sláttutími með tilliti til veðurfars: Tilgangur rannsókna er sá að kanna, hvort affarasælt sé að slá niður gras á æskilegu þroskastigi í vætutíð og láta það bíða þurrks í sláttuskárum eða láta sláttinn biða þurrvirðis og taka þá áhættu að grasíð spretti úr sér.

Þýðing heymúga í þurrkatíð: Tilgangur að kanna tap á fóðurefnum í heyi sem annars vegar liggur flatt. en hins vegar sett í múga.

Hitun í heyböggum: Mæling á hitamyndun og þyngdarbreytingu í heyböggum sem voru geymdir úti á velli. ýmist flatir eða í stökkum Tilgangurinn er að mæla fóðurrýrnun heysins.

Hitamyndun í lausu og bundnu heyi í hlöðu: Tilgangur tilraunarinnar er að mæla rýrnun á fóðurgildi heys af völdum hitamyndunar í hlöðu. Fóðurrýrnun við hrakning: Tilgangur tilraunarinnar er að kanna hvernig loftstraumar frá súgþurrkunarkerfi haga sér í baggastæðu. Notagildi súgþurrkunar með köldu lofti í vætutíð.

Votheystilraunir: Gerður var samanburður á votheysverkun mismunandi grastegunda, annars vegar snemmsleginna og hins vegar síðsleginna. Gerðar mælingar á verkunartapi og fóðurgæðum. Nú standa yfir tilraunir um fóðrun sauðfjár á þessu heyi.

Íblöndunarefni í hey: Gerðar voru athuganir á áhrifum íblöndunarefnis í bundið hey, en efni þetta á að draga úr myglumyndun í því.

Súgþurrkunarblásarar: Nú í haust hafa staðið yfir mælingar á afköstum og notagildi súgþurrkunarblásara, en niðurstöður þeirra mælinga verða til leiðbeiningar fyrir þá sem gera áætlanir um stærð og gerð súgþurrkunarkerfa í hlöðum.

Vinnurannsóknir varðandi verktækni við heyverkun: Gerðar hafa verið rannsóknir á þessu ári og undanfarin ár. Nýlega hafa birst ritgerðir um efni við flutning heyfóðurs úr geymslu á fóðurgang og/eða í jötu, og kemur þar m.a. fram samanburður á vinnu við þurrhey og vothey. Í þessu sambandi hafa verið gerðar prófanir á mismunandi tæknibúnaði til þess að leysa þessi verk. Áður hafa farið fram vinnurannsóknir varðandi mismunandi tækni við öflun heyja, bæði þurrheys og votheys.

Hraðþurrkun heys við jarðhita: Gerðar voru frumathuganir varðandi hraðþurrkun heys við jarðhita og fékkst til þess aðstaða í þangverksmiðjunni á Reykhólum 13. og 14. sept. s.l.

Þá eru hér framtíðarverkefni á þessu sviði: Á sviði heyverkunar bíða ýmis vandamál úrlausnar. Afkoma við heyskap með hliðsjón af veðurskýrslum og sprettu er verkefni sem þyrfti að sinna meira. Tilraunum með tæknibúnað við súgþurrkun á heyi þarf að efla, bæði að því er varðar súgþurrkunarkerfið sjálft og þurrkunargetu loftsins, t.d. við upphitun þess. Á sviði votheysverkunar eru ýmis vandamál óleyst, ekki síst í sambandi við vinnuaðstöðu, verktækni í gripahúsum. Tilraunir með hagnýtingu innlendra orkugjafa við hraðþurrkun heys eru verkefni sem aðkallandi er að sinna í auknum mæli.

Eitt meginverkefni bútæknideildarinnar er prófun búvéla. Á þessu ári hafa deildinni borist 18 landbúnaðartæki til prófunar og er æðimikið starf bæði við framkvæmd þeirra prófana og úrvinnslu og skýrslugerð. Þá vinnur bútæknideildin í vaxandi mæli að tilraunum varðandi vinnuaðstöðu og verktækni í útihúsum og starfsaðferð sérfræðinga hjá bútæknideild á því sviði.

Á s.l. sumri og undanfarin ár hefur sérfræðingur ásamt aðstoðarmanni starfað í 2– 3 mánuði á ári að heyverkunartilraunum og er það alls ófullnægjandi. Allmikið hefur verið framkvæmt af tilraunum, en ekki hefur tekist að vinna jafnharðan úr niðurstöðum vegna mannfæðar, en við deildina starfa nú þrír fastráðnir menn. Liggur þannig fyrir margra mánaða vinna við uppgjör þessara tilrauna, þó að reynt hafi verið eftir megni að gera grein fyrir helstu niðurstöðum á fundum með ráðunautum og bændum.

Allir, sem hafa kynni af landbúnaði, gera sér grein fyrir því að öflun heyja er undirstaða undir búrekstri eins og hann er rekinn víðast hvar hér á landi og því auðsætt að rannsóknir á fóðurverkun verða að haldast í bendur við nýja verktækni sem kemur fram á sjónarsviðið. Í því sambandi má hafa í huga að heyframleiðslan á ári mun vera 350–400 þús. tonn miðað við þurrhey, og með núverandi verðgildi má meta heyfenginn á öllu landinu um 8 milljarða kr. Má af þessu ráða að það varðar miklu fyrir þjóðarbúið hvort vel eða illa tekst til um öflun heyjanna.

Þessu til viðbótar vil ég segja það, að landbrn. hefur óskað eftir því við þá n., sem vinnur að heykögglaverksmiðjuathugunum og uppbyggingu þeirra, að hafa þetta mál einnig til meðferðar, auk þess sem rn. hefur óskað eftir áframhaldandi starfi hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, í bútæknideildinni. Landbrn. óskaði eftir fjárveitingum til þessa verks við gerð fjárl. fyrir árið 1977 og mun beita sér fyrir því við fjvn. Alþ. að fjárveiting verði tekin upp til þess að vinna að þessum verkefnum, því að þetta svar sannar að brýna nauðsyn ber til þess að leggja meiri vinnu og meiri rannsóknir í heyverkunarmálin heldur en gert hefur verið til þessa.

Ég vona að þetta svar nægi hv. fyrirspyrjanda.