09.02.1977
Efri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

153. mál, áfengislög

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til umr. hér í hv. d. á síðasta þingi lýsti ég nokkuð afstöðu minni til þessa máls í heild.

Ég vil byrja á því að taka það fram, að ég efast ekki um góðan vilja flm. þessa frv. og skilning þeirra á hinum miklu vandamálum sem við er að eiga hjá þjóðinni í sambandi við áfengismálin. Það hefur svo oftlega komið fram, bæði í ræðu og riti, hjá þeim hv. alþm. sem standa að þessu frv., að þeir hafa miklar áhyggjur af því hvernig komið er fyrir þjóðinni í sambandi við þessi mál. Þeir hafa mikinn vilja á að leggja sinn skerf af mörkum til þess að leysa þau, og aðgerðir þeirra, sem felast í flutningi þessa frv., eru þakkarverðar svo langt sem þær þá. Aðeins vil ég taka það fram um meginstefnu þessa frv., sem felur í sér aukin bönn, auknar hömlur á meðferð áfengra drykkja og stórkostlega aukin sektarákvæði, að ég er þeirrar skoðunar að samþykkt slíkra ákvæða eins og felast í þessu frv. lækni engan vanda, en kannske komi til með að skapa enn meiri vandkvæði en við eigum við að etja í dag. Hins vegar ber að fagna því að flutningur frv. eins og þessa, sem hér liggur fyrir, gefur tilefni og opnar möguleikana til að ræða þessi alvarlegu mál á víðtækum og almennum grundvelli.

Ég held að sú staðreynd sé ljós öllum þeim sem af raunsæi og alvöru vilja hugsa og tala um þessi mál, að okkur er mikil nauðsyn að taka öll þessi mál til alvarlegrar athugunar og þá ekki síst núgildandi áfengislöggjöf. Ég held að þó að víða væri leitað fanga muni vera torvelt að finna meðal siðaðra þjóða löggjöf um meðferð og sölu áfengis sem er jafngölluð og sú löggjöf sem við eigum við að búa. Vil ég þá t. a. m. nefna sem kannske einhvern mesta agnúann, að það skuli vera löglegt að selja, kaupa og neyta sterkra, brenndra drykkja í lítra- og ámatali, en á sama tíma er ekki hægt að fá með máltíð mannsæmandi drykk sem kallaður er áfengt öl. Maður verður að fara til mjög frumstæðra þjóða til þess að finna dæmi til að slíkur háttur sé hafður á um meðferð þessara mála. Þess vegna fyndist mér ekki óeðlilegt að við meðferð þessa máls í n. yrði tekið til gaumgæfilegrar athugunar að endurskoða áfengislöggjöfina og reyna að taka af henni verstu agnúana, og þá tel ég að lægi fyrst fyrir að heimila sölu áfengs öls í landinu.

Ég ætla ekki að fara að eyða löngu máli til þess að réttlæta þá ráðstöfun, því að menn geta deilt um slíka hluti óendanlega. En ég er þeirrar skoðunar og þykist tala af nokkurri reynslu og það kannske dýrkeyptri reynslu, að það er bjargföst sannfæring mín að við værum betur settir með að hafa þá tilhögun að leyfa neyslu áfengs öls. Hef ég þá sérstaklega í huga ungu kynslóðina sem ég held að við séum allir sammála um að við berum alveg sérstaklega fyrir brjósti í sambandi við þessi málefni.

Ég held að þegar menn eru að ræða um áfengismál, þá vilji því miður allt of oft bera á því að skoðanir manna mótist af tilfinningasemi, stundum af óskhyggju og jafnvel af ofstæki, en við gefum okkur ekki nógu mikinn tíma til að setjast niður og athuga þessi mál af raunsæi og stillingu. Frá mínum bæjardyrum séð eru áfengismálin kannske eitt af mestu uppeldismálum þjóðarinnar. Það hefur verið mikið talað um það nú á síðari árum, að það væri mjög nauðsynlegt að taka upp fræðslu í kynferðismálum og hefja þá fræðslu allsnemma í skólum landsins. Ég vil í því sambandi varpa fram hvort það mundi ekki vera fyllsta ástæða til þess að taka upp fræðslu í skólum landsins og byrja snemma í sambandi við áfengismálin.

Við búum í þjóðfélagi þar sem þær staðreyndir blasa við, hvort sem okkur er það ljúft eða leitt, að áfengið er fylgifiskur mannkynsins. Það hefur verið það frá örófi alda. Staða okkar sem þjóðar er nú á tímum þannig að við erum í miðri þjóðbraut og okkur er enginn kostur að hafa annan hátt á um meðferð þessara mála heldur en gengur og gerist hjá nágrannaþjóðum okkar sem eru taldar vera komnar kannske lengst á braut þroska, menningar og siðgæðis. Gagnvart þessum málum hlýtur því að vera skylda okkar að reyna að miða stefnuna í þjóðfélaginu, bæði frá hendi löggjafans, hendi uppalendanna og hendi allra sem þetta mál snertir, svipað því sem gerist meðal frjálsra, siðaðra þjóða. Þeir tímar eru liðnir að við vegna einangrunar gátum haft annan hátt á í sambandi við þessi mál. Þeir eru löngu liðnir, svo að því fyrr sem við almennt viðurkennum þær staðreyndir, sem við er að búa, og tökum af manndómi á þessum málum, því betra.

Ég held að okkur sé öllum ljóst að það hefur orðið mikilsverð breyting á lífsvenjum t. d. unga fólksins, æskunnar, nú á síðari árum. Það skiptir engu hvort menn koma frá svokölluðum góðum heimilum þar sem allt er vel búið, bæði að því er snertir tæki, húsrými og annað, eða hvort unga fólkið kemur frá heimilum sem hafa verri aðbúnað. Þróunin hefur orðið sú, að unglingarnir tolla ekki á heimilunum. Þeir vilja halda hópinn. Þeir vilja eyða frístundum sínum í hópi sinna aldursfélaga, skólafélaga og annarra, utan heimilanna. Þeir vilja hafa samastað og þeir vilja hafa frelsi til þess að ræða sín mál innan síns hóps. Og það er ótrúlega skjótt og miklu fyrr en gerðist áður að unglingar vilja hafa eitthvað í glasi.

Þess vegna held ég að í ljósi þeirra staðreynda sem við getum ekki breytt, höfum ekki nokkra minnstu möguleika á að breyta, gefum við okkur of lítinn tíma til þess að athuga það alveg niður í kjölinn hvernig er best að bregðast við þessu vandamáli, — því mér er ljóst eins og öllum öðrum að hér er við gífurlega mikið vandamál að etja, — hvernig við getum brugðist við þessu vandamáli og reynt að leysa það á þann veg að við getum snúið við dæminu, að þetta verði ekki til jafnmikillar ógæfu og valdi ekki jafnmiklum hörmungum og áfengismálin því miður hafa valdið og valda í dag með þjóðinni. Ég er þeirrar skoðunar að höft, hömlur, bönn, viðurlög séu ekki rétt. Það verður eitthvað annað að koma til. Ég hef miklu meiri trú á fræðslu, leiðbeiningum, heldur en þeim aðgerðum sem ég nefndi hér á undan.

Ég nefni sem dæmi um rangt viðhorf í þessum málum þegar Félagsstofnun stúdenta við Háskólann, sem að mínu mati hefur merkilega starfsemi, Félagsstofnun stúdenta, þegar hún á sínum tíma sækir um leyfi til að veita létt vín innan sinna veggja. Þessu er synjað. Þetta tel ég mjög ranga afstöðu af hálfu hins opinbera. Þetta er að bregðast við vanda alveg þvert á móti því sem ég tel hyggilegt. Það er vitanlegt hverjum manni, sem það vill skynja, að líkast til er hvergi farið frjálslegar með áfenga drykki heldur en í híbýlum stúdenta. Og svo er verið með slíkt yfirskin og yfirvarp að neita stofnun, sem þeir vilja bera ábyrgð á, um jafnsjálfsagða þjónustu að selja innan veggja félagsskapar síns létt vin, sem auk þess hefði mikla fjárhagslega þýðingu fyrir rekstur og afkomu þessarar stofnunar sem þeir hafa að mörgu leyti rekið af miklum myndarskap. Þetta eru viðhorf sem ég tel mjög neikvæð af þjóðfélagsins hálfu. Og þegar svona er brugðist við vanda, þá er ekki við góðu að búast.

Enn fremur blasir sú staðreynd við, að til að mynda í þessari borg, í Reykjavík, er um hverja helgi þannig ástatt að það eru þúsundir unglinga og æskumanna sem hvergi hafa athvarf. Þó að samkomuhúsin séu mörg hér í borginni, þá er þannig háttað að það eru þúsundir unglinga sem hvergi hafa afdrep og hvergi hafa aðgang. Hvað á að verða um þetta fólk? Það reikar hér um hvippinn og hvappinn, það eigrar um í eirðarleysi í leit að einhverju, heim fer það ekki, og þessar aðstæður valda oft því að ungir, óharnaðir unglingar lenda út á miklu verri götur en kannske hefði orðið ef þeir hefðu átt aðgang að sæmilegri krá eða veitingahúsi.

Löggjöf okkar um veitingastaði og vínsölustaði er að mínu mati svo geysilega áfátt að þar er nauðsyn á mjög mikilvægri endurskoðun. Að meta einhvern stað, sem hefur leyfi til að selja áfenga drykki, eftir því hvernig eldhús er útbúið og hversu það er fullkomið, hvort það hafi verið settar svo og svo margar milljónir í einhvern útbúnað í eldhúsi til að hægt sé að kaupa sér glas af léttu víni eða staup af brennivíni, það stenst ekkert mat heilbrigðrar skynsemi.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef veitingalöggjöfinni yrði breytt þannig að hér í Reykjavík t. a. m. væri opnuð leið til þess að hafa eina 40–50 eða sem sagt ótakmarkaða litla smáveitingastaði, þar sem menn gætu setið yfir glasi af öli, yfir víni, þá mundi það gjörbreyta þessum slæmu áhrifum og þessu mikla vandamáli sem við er að etja.

Ég held að því fyrr sem hv. alþm., sem eiga að vera leiðtogar þjóðarinnar og stefnumarkandi í þessum málum eins og svo mörgum öðrum, því fyrr sem þeir gera sér ljósa þá skyldu að takmarkið hlýtur að vera að reyna á uppeldislegan hátt að skapa hjá þjóðinni og þá fyrst og fremst æskunni skilning á því vandamáli, sem við er að etja í sambandi við neyslu áfengis, og á þann hátt að beita kröftunum til þess að skapa þann manndóm sem þarf til þess að umgangast áfengi og neyslu þess á þann hátt sem frjálsbornu fólki sæmir, — því fyrr sem hv. Alþ. markar það sem stefnumið sitt að halda þannig á þessu viðkvæma máli, því fyrr lifum við þá stund að við komumst frá því mikla vandamáli sem við er að etja í dag, og ráðum við það. Við ráðum ekki við það með því að auka höftin, hömlurnar og auka sektarákvæðin. Við verðum að reyna að lækna þetta vandamál með því að taka á því í byrjuninni, líta á það sem uppeldismál, sem fræðslumál. Boð og bönn duga ekki.

Ég vil boða í sambandi við meðferð þessa frv. að það mun verða flutt till. um að breyta áfengislögunum þannig að heimiluð verði bruggun og sala áfengs bjórs og um aðrar breytingar á framkvæmd laganna sem að mínu mati verka á þann hátt að af meiri skynsemi verði farið með þessi mál en nú ríkir með þjóðinni.