09.02.1977
Efri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

153. mál, áfengislög

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Hér er til umr., eins og nokkuð oft áður ákaflega viðkvæmt mál, þar sem gerð er tilraun af löggjafans hálfu til að gera þær breyt., sem nauðsynlegastar eru taldar á gildandi löggjöf til þess að koma í veg fyrir eða draga úr neyslu áfengis. Nú hygg ég að okkur greini ekki á um það, að hér er um alvarlegt þjóðfélagsvandamál að ræða, — vandamál sem hefur á undanförnum árum og áratugum, eins og sagt var hér áðan, því miður fylgt þjóðinni of lengi og ekki verið krufið að mínu viti til mergjar. Þess í stað samþykkjum við hér árlega ákveðinn tekjulið til almennra þarfa í landinu, — tekjur sem byggðar eru á nægjanlega mikilli sölu áfengra drykkja. Á sama tíma þykjumst við vera að gera upp hug okkar um afstöðu til þessa vandamáls og erum að betrumbæta löggjöf okkar í þeim efnum, og til þess er það frv., sem hér er til umr., að sjálfsögðu flutt. Ég efast ekkert um þann vilja sem að baki liggur, flm. fjögurra, að það er þeirra vilji að koma á betra skipulagi, ef það má orða það svo, meira mannsæmandi skipulagi á neyslu áfengis heldur en er í dag.

Eins og þegar hefur verið bent á er þjóðin ekki alveg reynslulaus í sambandi við þennan vanda. Við höfum reynt algjört vínbann. Við höfum leyft sölu léttra vína um ákveðið skeið, svonefnda púrtvínsöld. Og við höfum leyft — með takmörkunum þó — sölu sterkra drykkja eins og gert er í dag, þó með þeim fyrirvara að ekki væri um sterkt öl að ræða. Það er atriði sem ég skal ekki fara inn á hér, þær röksemdir sem liggja til þess, að meiri hluti Alþingis hefur ekki á það fallist að leyfa framleiðslu sterks öls. En á það er gjarnan bent, að reynsla annarra þjóða sé sú að sterka ölið komi einungis til viðbótar sterkum drykkjum. Í þessum efnum ríkir fullyrðing á móti fullyrðingu, og hirði ég ekki um það að ræða.

Skoðun mín er sú, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að gera þær breyt. á gildandi löggjöf sem mættu draga úr áfengisneyslu eða stuðla að slíku. Þarna er ekki stefnt að kjarna málsins, nema að því leyti sem minnst hefur verið á nauðsynlega fræðslu. Þar höfum við einnig nokkra reynslu, sem ekki er sérlega fögur, í sambandi við reykingar. Það er fullyrt eftir áratugalangar rannsóknir færustu sérfræðinga í heimi, að þær boði ekki minni hættu líkamlegri hreysti manna og andlegu atgervi heldur en jafnvel áfengisneysla, a. m. k. þeirra sem geta með góðu móti umgengist áfengi án þess að það verði þeim til áberandi tjóns. Það eru líka stífar reglur um boð og bönn í sambandi við auglýsingar og alls konar hvatningu til kaupa á þessari tegundinni eða hinni af tóbaki. Sjáanlegur árangur er því miður ekki af þessu. En eigi að síður er það skoðun mín, — og ég get tekið undir það með hv. þm. Jóni Sólnes, segi ég það ekki alveg reynslulaust, ég hef hlotið af því dýrkeypta reynslu eins og hann að sjá hvílíka erfiðleika neysla þessara drykkja skapar viðkomandi persónu og þá ekki síður — að seint verði slíkt til fullnustu mælt eða vegið á vogarskálum.

Megingrunnurinn í þessari viðleitni finnst mér að ætti að vera að efla þær stofnanir sem til eru í landinu. Við höfum sett lög um áfengisvarnaráð sem er algjörlega fjárvana og getur sig lítið hreyft þrátt fyrir góðan vilja til þess að breiða út boðskapinn og auglýsa fyrir mönnum þær hættur sem af áfengisneyslu hljótast. Við höfum nánast aldargróið starf Góðtemplarareglunnar á Íslandi, sem einnig hefur mætt takmörkuðum skilningi, svo ekki sé meira sagt, á sinni starfsemi. Vaxandi eru nú í landinu frjáls samtök manna sem eiga í erfiðleikum og hafa átt í þessum efnum undanfarin ár, svonefnd AA-samtök, sem ég veit ekki til að njóti neinnar opinberrar aðstoðar til sinna starfa. Það var fróðlegt viðtal í útvarpinu nú á dögunum, sem tekið var upp. að mér virtist, á Akureyri, við menn úr báðum þessum stofnunum, þ. e. a. s. annars vegar úr Góðtemplarareglunni og hins vegar AA-samtökunum. Ég verð að játa að persónulega féll mér málflutningur AA-mannsins mun betur og var mun betur við mitt hæfi eða mínar skoðanir heldur en málflutningur hins þó báðir vildu í raun og veru keppa að sama marki, þ. e. a. s. draga úr áfengisneyslu.

Ég held að grundvöllurinn undir raunhæfu starfi til þess að ná því marki sem unnt er í þessum efnum verði að koma innan frá, frá viðkomandi persónu sem við vandann á að etja, og það verði aldrei nógsamlega veitt fé til slíkrar fræðslu, þannig að menn geti ekki raunverulega borið við innra með sjálfum sér a. m. k. að þeir viti ekki hvaða hætta er á ferðum.

Tveir kunnir menn í þessari baráttu eða tveir nánast heimskunnir menn, er vist óhætt að fullyrða, í baráttunni gegn alkóhóli og neyslu þess hafa komið til landsins á s. l. ári og haldið hér fyrirlestra. Báðir veita þeir forstöðu stofnunum sem eru til aðstoðar fólki sem Bakkus konungur hefur náð of miklum tökum á. Þeir sögðu frá reynslu sinni. Ég átti þess kost að ræða við annan þessara manna og sagði við hann: „Hvernig er hægt fyrir mann, sem komist hefur yfir það að neyta áfengis og getur hætt því, að kyngja þeirri kenningu að einu sinni alkóhólisti sé alltaf alkóhólisti?“ Þá benti hann á brjóstið á sjálfum sér og sagði: „Hér er einn ! Ég var drykkjusjúkur maður fyrir 25 árum, en ég á enn þá í vök að verjast að losna við þetta ofurveldi Bakkusar. Allt starfsfólk á þeirri stofnun, sem ég veiti forstöðu,“ sagði hann, „er fyrrverandi drykkjusjúklingar, og þeir hafa reynst hinir bestu starfskraftar vegna þeirrar döpru reynslu sem þeir höfðu persónulega hlotið.“ Þannig leit hann á þessi mál og þannig var niðurstaðan af hans ræðu, að menn gætu aldrei lokað bókinni með það í huga að hún væri fulllesin í þessum efnum, heldur yrðu þeir að vera sífellt vakandi ef þeir hefðu einhvern tíma hrasað á þessu hættulega svelli.

Þetta er að mínu viti næst mínum skoðunum, að hvetja menn, sem hafa hrasað, með fræðslu um hvað sé þarna á ferðinni annars vegar, og svo er fyrirbyggjandi fræðslan hins vegar. Það ætti að vera skyldunámsgrein í skólum á vissu aldurskeiði, þegar unglingar væru komnir á þann aldur að það væri talið fullvíst að þeir skildu þann vanda sem hér er á höndum, ef þeir hefðu þá ekki meiri og minni persónuleg eða fjölskylduleg tengsl við þennan vanda, en þeir munu ófáir sem þannig er ástatt um. Ég held að það væri langtum raunhæfara til úrbóta af okkar hálfu heldur en e. t. v. nauðsynlegar, en smávægilegar breytingar á lögum, í hinu daglega lífi einstaklinga þjóðfélagsins, að einbeita sér af hálfu löggjafans að fræðslustörfum í stað boða og banna, eins og of mikið hefur borið á að væru talin allsherjarlausn í þessum efnum.

Ég held að við mundum með góðu móti geta á þann hátt stuðlað að því að koma fyrir almenningssjónir allri þeirri fræðslu sem í mannlegu valdi er, með því að styrkja þær stofnanir, sem þegar eru til í landinu, og efla framkvæmd þeirrar löggjafar, sem um þessi efni er, en þó umfram allt að það, sem gert er, byggist á raunhæfri fræðslu til allra þeirra sem hlut eiga að máli. Jafnframt verður að fylgjast að hin fyrirbyggjandi fræðsla til þeirra sem enn þá hafa losnað við þann vanda sem áfengisbölið boðar.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, lýsa því yfir að ég get vel fellt mig við það frv., sem hér er til umr., og mun á engan hátt leggja stein í götu þess. Það er sjálfsagt til úrbóta á þeirri löggjöf sem við höfum. En ég held að við ættum að snúa okkur meira að hinni hlið málsins, þ. e. a. s. bæði fyrirbyggjandi fræðslu og fræðslu til þeirra sem vilja af fúsum og frjálsum vilja losna úr þessum viðjum, og þá umfram allt að gera þeim aðilum, sem til eru í landinu og hafa sannað gildi sitt, eins og Góðtemplarareglan og AA-samtökin, kleift að njóta sín svo sem kostur er með fjárhagslegum stuðningi gegn þeim vágesti sem áfengismálin tvímælalaust eru.