09.02.1977
Efri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

153. mál, áfengislög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt út af fyrir sig til þess að vita, að allir eru á einu máli um þörfina fyrir að minnka drykkjuskap í landinu. Menn greinir á um leiðir að markinu eins og oft.

Ég held að afstaða hv. 2. þm. Norðurl. e. stafi að nokkru leyti af misskilningi. Hann lítur svo á að það sé hægt að ala okkar unga fólk upp með því að gefa því áfengan bjór nógu snemma, það mundi verða til þess að það félli síður fyrir drykkjuskapnum síðar. En það er búið að gera svo miklar tilraunir með þetta og það er búið að reyna þetta svo víða, að það fer ekki neitt á milli mála. Við erum ekki með þeim verstu í veröldinni hvað drykkjuskap áhrærir og vandamál vegna drykkjuskapar. Nágrannar okkar og frændur á Norðurlöndunum, bandaríkjamenn og rússar eru ekkert betur settir. Allar þessar þjóðir hafa haft í ríkum mæli áfengt öl til drykkjar um áratugi, en það hefur sýnt sig að það er annað sem ræður mjög miklu um hvort ástandið fer batnandi eða versnandi í löndunum. Vafalaust er óhætt að fullyrða að bætt afkoma fjárhagsleg valdi miklu þar um. Ég las nýlega grein í dönsku blaði, ég held læknablaði, þar sem þess var getið að það væri vaxandi vandamál nú hjá dönum að svo mörg börn innan fermingaraldurs kæmu inn á sjúkrahúsin með delirium tremens, sem er lokastig áfengissýkinnar, að það væri með ólíkindum og hafi orðið á þessu snögg breyting til hins verra nú á síðustu árum. Þarna er sannarlega nóg af öli til að drekka, en vandamálið virðist vera vaxandi hjá þeim og einmitt á sama hátt og er hjá okkur reyndar líka, þ.e. a.s. það eru konur og það eru börn og unglingar sem drekka meira nú en áður hefur þekkst. Það verður því að leita orsakanna einhvers staðar annars staðar en hjá ölinu eða ölskortinum.

Það er kannske ekkert óeðlilegt að mönnum detti í hug að þetta vandamál muni verða leyst með fræðslu. En það er ekki einhlítt. Ég held að sé óhætt að fullyrða að þeir, sem best þekkja til og ekki ættu að þurfa frekari fræðslu um áfengi og vandamál þess, sem sé heilbrigðisstéttirnar, séu ekkert betri í þessum efnum og ekkert öruggari en almenningur. Það er vitað mál að þetta er ekki siður vandamál lækna en annarra í þjóðfélaginu.

En það er eitt sem hvarvetna hefur komið að haldi, og það eru hömlur. Það eru fyrst og fremst fjárhagslegar hömlur, þ. e. a. s. að selja áfengi dýru verði. Það mun vera orðið nokkuð algengt að menn viðurkenni að það hjálpar og það minnkar drykkjuskapinn.

Ég kemst ekki hjá að hafa orð á því, að í viðleitni okkar til að hamla gegn drykkjuskap hafa fjárhagsmál háð okkur allmikið. Einkum hefur það verið áberandi nú á undanförnum árum að ýmislegt sem menn hafa verið sammála um að þyrfti að gera, hefur ekki verið hægt að leysa af hendi vegna fjárskorts. Ed. samþ. fyrir tveimur árum frv. sem mundi hafa bætt úr í þessum efnum. Því miður var þetta frv. fellt í Nd., en það er ekki við okkur að sakast um það. Það er ekki vafi á því, að ef við hefðum fyrir alllöngu getað komið fótum undir þær stofnanir, sem við vitum að víða hafa heppnast vel til að hamla gegn mikilli drykkju, þá værum við betur settir í dag en við erum.

Það er ekki oft sem dagblöð sýna áfengismálum svo mikinn sóma að taka þau inn í leiðara. En fyrir nokkru var hluti leiðara í dagblaðinu Tímanum um áfengismál og með leyfi forseta langar mig til að lesa hann. Yfirskriftin er: „Á villigötum“.

„Það fer varla lengur á milli mála að við höfum kallað yfir okkur mikla ógæfu þar sem eru hin fjölmörgu vínveitingahús með óteljandi börum. Drykkjuskapur er orðinn svo hemjulaus að engu tali tekur, og í kjölfar hans koma svo slys og afbrot, heimiliserjur og meiðingar og síaukinn fjöldi drykkjusjúklinga auk alls vinnutaps sem áreiðanlega er jafnmikið eða meira en af öllum verkföllum og vinnudeilum sem þó þykir þungt undir að búa. Ekki má heldur gleyma stórauknum kostnaði við löggæslu, sem að langmestu leyti tengist drykkjuskapnum, sjúkrahús, fangelsi og margs konar stofnanir. Tæpast er of harkalega til orða tekið að kalla það kraðak vinveitingabara, sem upp hefur verið komið, drykkjuskaparskóla, og við höfum þegar séð nóg af hroðalegum dæmum um það, hvað það gildir að stunda þá. Þegar þessum börum er lokað á lögskyldum tíma er haldið úr þeim af allt of mörgum á vit hvers konar ógæfuverka sem verða einstaklingum og þjóðfélaginu í heild þyngri í skauti en tárum taki. Þessi ofboðslegi drykkjuskapur er hvort tveggja í senn þjóðarböl og þjóðarsmán.“

Þetta er sannarlega rétt. Og þegar við höfum það í huga sem nú er orðið nokkuð öruggt og hefur verið rannsakað, hlutfallslega mikill fjöldi af þeim, sem liggja í okkar sjúkrahúsum, bæði geðsjúkrahúsum og almennum sjúkrahúsum, liggur þar vegna beinna eða óbeinna afleiðinga af drykkju, þá er ekki furða þó að við förum að líta þessi mál svolítið alvarlegri augum en við höfum gert áður.

Það er hins vegar rétt, að það er engin einföld lausn á þessu og það talar enginn um það lengur að banna áfenga drykki. Þó er því ekki að leyna að það eru hundruð milljóna í heiminum sem nota ekki áfengi. Okkur hefur aldrei dottið í hug að banna sígarettur fyrr en núna. Nú eru uppi háar raddir um að það muni ekki líða margir áratugir þangað til sígarettur verði beinlínis bannaðar í framleiðslu. Og það gæti svo farið, ef áfram héldi rannsókn á almennri skaðsemi áfengis á líkamann, bæði andlega og líkamlega starfsemi, að þá komi að því að bann verði ekki eins fjarri hugum manna og það er nú. Hitt er jafnrétt, að það þýðir að sjálfsögðu ekki neitt að við förum að banna áfengi ef allir í kringum okkur veita það fullum fetum og leyfa drykkju og leyfa sölu á því. En það er engin fjarstæða að hugsa sér að þeir tímar geti komið að það verði raunhæft að tala um bann aftur. Og ég hef það fyrir satt, hvað sem hver segir, að þá muni ástandið í þjóðfélaginu á bannárunum hafa verið miklu betra og ekkert sambærilegt við það sem er nú. Þá á ég ekki við í því efni að sjá drykkjumenn, heldur hvað varðar alls konar afbrot og glæpi sem gjarnan eru fylgifiskar áfengisdrykkju, og það svo mjög, að ég held að lögreglan haldi því fram að um 90% af öllum glæpum, sem hún fær með að gera, séu bein eða óbein afleiðing af drykkju. Sannarlega er því von og eðlilegt að við öll séum á því að um þurfi að bæta í þessum efnum, þótt okkur greini á um leiðirnar.

Eins og ég hef oft sagt áður, er ég ekki í nokkrum vafa um að áfengisvandamálið er okkar erfiðasta félagslega vandamál. Það er það vandamál sem eyðileggur flestar fjölskyldur, eyðileggur flest hjónabönd og eyðileggur flesta unglinga.

Það vill nú þannig til að tiltölulega er nýkomin út bók um starf nefndar í Svíþjóð sem hafði það markmið að gera till. um hvað ætti að gera við vandamálinu þar í landi, sem er líklega enn þá verra en hérna, miklum mun verra. Með leyfi forseta ætla ég að lesa glefsur úr till. þessarar nefndar:

1) Það á að svipta áfengi dýrðarljómanum. Það verður vafalaust ekki gert á meðan t. d. okkar sjónvarp er eins og það er í dag. Það þarf fræðslu og upplýsingastarf, auglýsingabann, jákvæða dagskrárþætti í útvarpi og sjónvarpi, bann við kynningu áfengistegunda.

2) Aukin bindindisfræðsla barna, unglinga og fullorðinna. Áfengisvarnarráðið fái 11 millj. sænskra kr. árlega til upplýsingastarfsemi og námsefni skóla sé ákveðið í þessu efni.

3) Fjölgun bindindismanna. Það skal fyrst og fremst gert með auknum fjárhagslegum stuðningi við bindindishreyfinguna. Hreyfingin fái 5.4 millj. sænskra kr. árlega og auk þess möguleika á að sækja um styrk til sérstakrar fræðslu- og upplýsingastarfsemi til áfengísvarnaráðsins.

4) Aukin bindindissemi þar sem sérstök þörf er viðbragðsflýtis og dómgreindar. Styrkir til upplýsingastarfs á vinnustöðum. Upplýsingaherferð varðandi hættur af áfengisneyslu í umferð, á baðstöðum, við veiðar og siglingar.

5) Neyslu sé beint að veikum drykkjum. Því hærra áfengismagn, þeim mun hærri skattur. Áfengismagn milliöls minnki.

6) Aukning neyslu óáfengra drykkja í stað áfengis. Reynt að koma á neysluvenjum sem binda neysluna máltíðum.

7 ) Öflun áfengis verði gerð erfiðari. Stefna í verðlagningu grundvallist á samræmdri áfengismálastefnu. Verðið hækki í hlutfalli við almennar verðhækkanir. Um áfengisveitingar í skipum gildi sömu reglur og í landi.

8) Unnið skal að því að engin áfengisneysla eigi sér stað meðal barna og unglinga. Aldurstakmörk verði óbreytt.

9) Tekið skal tillít til áfengismála þegar gerðar eru áætlanir um félagslegar breytingar og umbætur.

10) Stuðlað skal að eflingu stofnana þar sem áfengi er bannað og unnið að því að samskipti fólks fari fram án áfengis. Samkomustaðir og félagsheimili, þar sem áfengisbann ríkir, skulu efld, áfengi ekki veitt á skemmtistöðum og íþróttaleikvöngum. Áfengisbann í leikhúsum. Bönnuð áfengisneysla á almannafæri.

11) Unnið skal gegn bruggun, smygli, leynisölu og annars konar ólöglegri meðferð áfengis.

12) Stofna skal áfengisvarnaráð er hafi það hlutverk að samræma baráttu opinberra aðila og einstaklinga gegn áfengisböli og vinna að mótun heilbrigðrar áfengismálastefnu með athugun og aðgerðum. Í áfengisvarnaráðinu verði 15 fulltrúar, m. a. frá þingflokkum.

13) Rannsóknir verði efldar. Aukið verði starfslið áfengisrannsóknastofnunarinnar. Vísindalegar athuganir fari fram víða um land.

Þetta er það sem þessi n., sem hefur starfað í mörg ár, leggur til. Og hún gerir í formála ljóst að hér sé um geysilegt vandamál að ræða.

Athugun á skaðsemi áfengis hefur aukist mjög mikið og rannsóknir á afdrifum drykkjumanna, vegna þess að það hefur, eins og ég gat um áðan, nýlega komið í ljós hve geysimargir af þeim sjúklingum, sem eru langvinnir sjúklingar á stofnunum og reyndar sjúklingar bæði á almennum spítölum og geðsjúkrahúsum, geta kennt áfengisneyslu um sjúkdóma sína. Þar sem heilbrigðisþjónusta er mjög í sviðsljósinu víða um lönd, þá er ekki óeðlilegt þó að athyglin beinist einmitt að þessu atriði sem svo mjög veldur fjölgun sjúkrahúsdaga. Smitandi sjúkdómar voru ein höfuðorsök sjúkrahúsdaga áður fyrr, og margir bjuggust við því, þegar ráðið varð við þá hroðalegu sjúkdóma marga, að þá mundi batna í ári. En það hefur ekki gerst eins mikið og menn bjuggust við, m. a. vegna óhófs í neyslu áfengis, vegna reykinga, vegna aukinnar slysatíðni og neyslu ýmissa annarra efna sem komið hafa fram í dagsljósið síðan.

Ég vil svo að lokum leggja áherslu á það, að þetta frv., þótt samþ. verði, mun ekki valda neinum stórbreytingum. Ég held að það sé sjálfsögð lagfæring þar sem tölum er breytt í okkar verðbólguþjóðfélagi og fært nokkuð upp, enn fremur að fella niður ákvæðið sem var hér áður um skírteini. Það á ekki við okkur, a. m. k. ekki enn þá. En ég vil eindregið benda á það, að allt, sem við getum gert til þess að reyna að tefja fyrir því, að einstaklingurinn verði drykkjusjúklingur, er mjög mikils virði, því að unglingur innan við tvítugt þarf að allt að því tíu sinnum styttri tíma til að verða alvarlegur áfengissjúklingur heldur en sá sem er kominn yfir tvítugt. Þetta er ein af þeim ástæðum sem valda því, að fulla nauðsyn ber til að leggja mikla áherslu á einmitt að reyna að forða unglingunum frá því að fara snemma að neyta áfengis.