09.02.1977
Efri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

153. mál, áfengislög

Flm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Þetta skulu vera fá orð. „Tökum af manndómi á þessum málum,“ voru orð hv. þm. Jóns G. Sólness. Það eru orð að sönnu. Ekki held ég að honum hafi nú verið alvara þegar hann í framhaldi af þessu eða framhjáhlaupi sagði að sá manndómur ætti að felast í ótakmörkuðum fjölda kráa sem ætti að koma upp á hverju götuhorni. Ég held að hann hafi frekar slegið því fram í framhaldi af því sem hann hafði áður sagt um áfenga bjórinn sem ég ætla ekki að fara að deila við hann um. Þar segir reynsla annarra þjóða okkur allt of mikið, eins og hv. þm. Oddur Ólafsson kom nægilega vel inn á.

Ég skal líka taka undir það, þar sem hann minntist á æskuna sem vildi vera ein, vildi vera sér í hóp, að það er kannske það óheppilegasta og versta sem er að gerast í dag í okkar uppeldismálum og þjóðfélagsmálum, það er sambandsleysi okkar við þetta unga fólk, sambandsleysi, þetta margumrædda kynslóðabil sem er auðvitað fyrst og fremst okkur að kenna, en ekki því. Við höfum ekki samlagast því nægilega vel, ekki náð þeim trúnaði þess og þeirri samkennd sem þarna þarf að vera á milli, kannske einmitt af því að við höfum verið að reyna allt of mikið að losa okkur við það og hafa frið fyrir því á bernsku- og unglingsárum. Það eru þúsundir unglinga sem hvergi eiga aðgang hér í borginni, það er rétt. En ég er viss um það, ef hv. þm. Jón G. Sólnes skoðar það mál betur, þá veit hann að skemmtistaðir geta verið án þess að þar sé veitt vin og þar skemmtir fólk sér mætavel og það eru slíkir skemmtistaðir, sem varla fyrirfinnast hér í borg. Það er nefnilega töluvert mikið af hinum. Það eru skemmtistaðir án áfengis sem eru nær ófinnanlegir hér í borginni. Ef við hefðum manndóm í okkur til þess að koma þeim upp og reka þá almennilega án þess gróðasjónarmiðs, sem ræður í vinveitingahúsunum nr. 1, þar sem dansgólfið er haft sem allra minnst til þess að menn sitji sem mest og drekki sem mest, — ef við kæmum upp slíkum skemmtistöðum hér í borginni, þá yrðu ekki þúsundir ungmenna í vandræðum eins og sá hv. þm. tók réttilega fram.

Ég tek fyllilega undir orð hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar um það, að það þarf vissulega að efla þær stofnanir í landinu sem þegar fást við þessi mál. Og það er kannske, eins og hann sagði, fljótvirkasta aðferðin í þessum efnum vegna þess að þessar stofnanir hafa þegar aflað sér mikillar vitneskju um þau og hafa kynnt sér vandamálin vel og vita hvar skórinn kreppir og vinna af alúð og dugnaði að málinu. Hér hefur staðið algjörlega á fjárveitingavaldinu. Það var líka merkilegt að heyra einmitt úr sænsku skýrslunni, sem ég hafði kynnt mér allnáið, þær tölur sem hv. þm. Oddur Ólafsson las upp áðan um hvað mikil áhersla var í till. þn. sænsku lögð á auknar fjárveitingar til þessara samtaka allra.

En varðandi fræðsluþáttinn, sem báðir hv. þm., Jón G. Sólnes og Eggert G. Þorsteinsson, lögðu áherslu á hér, þá er rétt að undirstrika að við höfum lagt á hann gífurlega áherslu. Mjög fær skólamaður, Hörður Zóphaníasson, sem á sæti í áfengismálanefndinni, vann að þáltill. og grg. með henni sem hefur verið flutt í Sþ., — mjög vel upp byggð grg. um ráð til úrbóta. Við fluttum þessa till. einmitt núna á undan þessu frv. vegna áhersluaukans, vegna þess að við vildum gefa þessum þætti aukið gildi.

Ég vil svo aðeins segja það, að það má alltaf deila um hvort við grípum nægilega á meinsemdinni. En hinu neita ég alfarið, að nokkur af þeim till., sem þarna eru, skapi meiri vanda, nema sú sem er í 3. gr. frv. og ég hef vissar efasemdir óneitanlega um og þarf reglulega vel að athuga. Aukin boð og bönn, auknar hömlur er varla hægt að tala um í þessu sambandi, nema þá varðandi þá grein.

Um sektarákvæðin vil ég aðeins taka það fram, að hér eru þau aðeins framreiknuð til núverandi verðgildis, en sektarákvæðin ekkert hækkuð miðað við það þegar þessi lög voru upphaflega sett að forgöngu hæstv. þáv. dómsmrh. Bjarna heitins Benediktssonar. Þetta eru nákvæmlega sömu sektarákvæðin, aðeins framreiknuð til núgildandi verðlags.

Löggjöfin kann að vera gölluð. En við vitum öll að það er framkvæmdin, sem er enn gallaðri, og lausnina höfum við því miður ekki.

Ég held að hv. þm. Jón G. Sólnes hafi ekki átt við það áðan, að af hálfu okkar flm. væri um að ræða tilfinningasemi og ofstæki í þessum efnum. Það vona ég að ég hafi ekki mátt taka til mín í því efni. En auðvitað ber þetta mál oft þannig á góma að þessir þættir verða ríkjandi, því miður. Við höfum þess vegna kosið að fara í raun og veru aðra leið og leggja þetta mál fyrir eins hógværlega og við höfum getað.

Ég held að það sé óþarfi að fara miklu frekari orðum um þetta mál en þegar hefur verið gert. Þegar menn tala um boð og bönn í þessu sambandi, þá held ég að það sé rétt að hafa það vel í huga, að við búum við í raun og veru geysilegt frjálsræði almennt í þessum efnum — geysilegt frjálsræði, og við búum við hömlulausa drykkju, ekki síst vegna þess hvað frjálsræðið í meðferð áfengis er orðið mikið. Ég minni á það hvað viðhorfið er orðið breytt frá því t. d. ég var ungur maður. Þá komu menn til manns á samkomu og sögðu í feimnisróm: Sér nokkuð á mér? Og þeir voru hinir varkárustu ef maður sagði þeim að svo væri. Nú segja menn aftur: Mikið fjandi var ég fullur. Ég var bara alveg á skallanum. Þetta var alveg dýrlegt. — Þetta er viðhorfsbreyting, og hún hefur ekki stafað af því að á þessum tíma hafi komið einhver aukin boð eða bönn inn í þetta dæmi. Þetta er viðhorfsbreyting sem stafar fyrst og fremst af þessu mikla frjálsræði, sem er ekki fólgið í löggjöf, heldur frjálsræði og taumleysi úti í þjóðfélaginu, svo sem hv. þm. Oddur Ólafsson vék hér vel að áðan.