10.02.1977
Neðri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Sigurður Magnússon:

Hæstv. forseti. Nú þegar þetta frv. um járnblendiverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði liggur hér fyrir d. tel ég rétt að nota tækifærið og ræða almennt um þá valkosti sem þjóðin stendur frammi fyrir í þróun atvinnumála með hliðsjón af nýtingu orkuauðlinda landsins, ræða almennt um iðnþróun og stóriðjustefnu og afleiðingar slíkrar stefnu á þjóðfélag okkar, nú þegar rætt er um að ráðstafa stórum hluta af raforkunni frá Sigöldu á verði sem rétt lafir í því að vera framleiðslukostnaðarverð raforkunnar, eins og orkumálastjóri ríkisins hefur orðað þetta á fundi í iðnn. Nd. Þótt það sé í eðli sínu nokkur munur á þeim samningum um járnblendiverksmiðju á Grundartanga, sem ríkisstj. hyggst nú gera við erlent auðfyrirtæki, og þeim samningum, er áður hafa verið gerðir við einokunarhringinn í Straumsvík, svissneska hringinn þar, um álbræðslu, þá stendur valið eigi að síður á milli íslenskrar, þjóðlegrar iðnþróunar og verksmiðjurekstrar með útlendingum, — verksmiðjurekstrar þar sem byggt er á aðfluttum hráefnum. Það er rétt að ræða þessi mál hér og nú almennt, þar sem komið hefur fram og einkum af hálfu iðnrh. að hann hefur á prjónunum margvísleg áform um erlenda stóriðju í landinu, m. a. stækkun álversins í Straumsvík og uppsetningu nýrra stóriðjuvera undir bandleiðslu útlendinga, og horfir jafnvel til samvinnu við þá um byggingu og rekstur orkuvera, og nú síðast hefur frést af því að hann eða fulltrúar hans séu á förum til Sviss að ræða þessi mál við fulltrúa svissneska álhringsins. Á sama tíma mótar aðgerðaleysið allar athafnir stjórnvalda um innlenda orkunýtingu í landinu. Ég þarf ekki að fjölyrða um það, að slík áform hljóta að stefna sjálfstæði þjóðarinnar í mikinn voða. Slík áform hljóta að knýja okkur til að meta áhrif slíkrar samvinnu við erlend fyrirtæki á efnahagslegt vald okkar.

Í þessu sambandi vil ég í upphafi undirstrika rækilega þá staðreynd að milli efnahagslegs og stjórnarfarslegs sjálfstæðis þjóðar liggja engin skýr mörk. Án efnahagslegrar sjálfstjórnar verður aldrei um stjórnarfarslegt fullveldi að ræða. Þessi sannindi ættu að vera okkur íslendingum augljós, svo mjög sem þjóðfrelsisbarátta okkar áður varpar skýru ljósi á þau, því að um aldir var frelsi þjóðar okkar njörvað niður með fjötrum erlendrar einokunar á verslun og siglingum og í atvinnumálum yfirleitt. Það var fyrst með vaxandi yfirráðum þjóðarinnar í upphafi þessarar aldar á atvinnutækjum sínum sem vonir hennar um endurheimt sjálfstæðis fengu raunsætt pólitískt gildi. Og alveg eins og sú barátta var hörð og torsótt mun það verða sífelld barátta okkar fámennu þjóðar að varðveita fengið þjóðfrelsi, — barátta sem í heimi harðnandi tækni og auðvaldsþróunar verður e.t.v. stöðugt torsóttari.

Ég ætla ekki að lýsa því, hvernig hið erlenda vald hélt frelsi og hamingju íslensku þjóðarinnar í dróma um langar dimmar aldir. En það er hollt fyrir okkur íslendinga að minnast þess og þá einkum á stundum þegar við ræðum framtíðarmarkmið okkar í atvinnu- og efnahagsmálum og samskiptareglur okkar við erlenda aðila. Ég get þó ekki stillt mig um að vitna í lítinn bókarkafla sem ég hef nýlega lesið úr æviminningum Tryggva Emilssonar verkamanns, þar sem hann lýsir vel þeirri kúgun sem þjóð okkar mátti búa við í þessum efnum fyrr á árum, en þar segir Tryggvi frá Akureyri aldamótaáranna, svo að ég vitni til orða hans, með leyfi yðar, forseti:

„Lengi höfðu danskir kaupmenn ráðið lögum og lofum í bæjarfélaginn á Akureyri, þar sem fátækir og ríkir skiptu afla úr hendi þeirra ríku, þar sem kaupmennirnir verðlögðu allt, sem selt var og keypt, og höfðu lífsafkomu fólksins til sjávarins og sveitanna í kring í hendi sinni. Segja má með fullum sanni að hvert fiskiskip, smátt og stórt, og auk þess vinnslustöðvarnar væru þeirra eign. Allur fiskur gekk á einhvern hátt þeim um greipar og föng áttu þeir í hverjum heybagga fjörð um kring og fram til dala, og haustlömbin voru þeim pantsett. Þessir dönsku kaupmenn áttu að sönnu þau erindi ein til Íslands að versla við landsfólkið, græða á viðskiptunum og flytja gróðann úr landi.“

Lýk ég þá tilvitnun í orð Tryggva Emilssonar og ég vil ekki við þau bæta neinu, en það aldarfar, sem þau lýsa, er hollt að hafa í minni. En það fóru vakningartímar í hönd á Íslandi og hin erlenda valdastétt varð að láta undan síga. Fólkið hafði skynjað mátt samstöðunnar og félagshyggjunnar, alþýða Íslands til sjávar og sveita bast böndum í samvinnufélögum og verkalýðssamtökum, og fyrir forustu hinna ýmsu félagasamtaka hennar var hafin sókn til framfara í atvinnu- og efnahagsmálum. Áhrifa þeirrar forustu og þess frumkvæðis, sem hinar miklu félagsmálahreyfingar alþýðunnar áttu í þessum efnum, hefur gætt allt fram á þennan dag í atvinnuþróun á Íslandi. Hlutur félagasamtaka og síðar ríkis og sveitarfélaga í atvinnumálum er stærri á Íslandi en í flestum öðrum þjóðfélögum sem búa við líkt hagkerfi og við. Og hlutur einkafjárfestingar hefur að sama skapi verið lítill, þótt vafalítið hafi hallað á hina opinberu og félagslegu fjárfestingu hin síðari ár og þó einkum á valdaskeiði viðreisnarstjórnarinnar á áratugnum milli 1960 og 1970, enda beinlínis stefnt að slíku af hálfu stjórnvalda. En þessi sérkenni íslenska efnahagslífsins hafa um leið verið sérkenni þess kapítalíska þjóðfélags sem við búum við, og þetta sérkenni hefur mótað skoðanir þeirra pólitísku afla sem einkafjármagnið á Íslandi styður sig við. Vanmáttur þess og hin litla hlutdeild í fjárfestingu á landinu hefur gert það ósjálfstætt og um leið óþjóðlegt. Þannig hefur það löngum reynt að sækja þann styrk, sem það hefur ekki getað sótt til þjóðarinnar, út fyrir landsteinana. Um þetta mætti nefna mörg dæmi.

Kunn eru tengsl ýmissa fésýsluafla við erlent herlið í landinu bæði fyrr og síðar. Það fór ekki heldur leynt að þeir voru ýmsir sem höfðu áhuga á inngöngu Íslands í Efnahagsbandalag Evrópu á árunum eftir 1960, þótt vitað sé að innganga okkar í Efnahagsbandalag Evrópu sé í raun afsal okkar á stjórn eigin fjárfestingar. Ákvæði Rómarsáttmálans gera ráð fyrir því að allar hindranir í löggjöf aðildarlandanna á gagnkvæmum rétti ríkja til atvinnurekstrar og fjárfestingar séu felldar niður, allar slíkar hindranir, og ákvæði um starfsemi banka í sambandi við tilflutning auðmagns milli landa numin úr gildi. En nær í tímanum eru e. t. v. stóriðjudraumar viðreisnarstjórnarinnar um miðjan áratuginn 1960–1970 þegar tímabundnir erfiðleikar í sjávarútvegi okkar, sem einkum stöfuðu af áralöngu sinnuleysi stjórnvalda til endurnýjunar fiskiskipastól landsins, gáfu slíkum draumum byr undir vængi. Slíkt kappsmál var þá stóriðjustefnan stjórnvöldum að þau auglýstu jafnvel í erlendum fjármálatímaritum að á Íslandi væri föl ódýr orka og ódýrt vinnuafl. Það var á þessum árum sem Sjálfstfl. vildi reisa 21 álbræðslu í landinu. Þá voru álbræðslurnar lausnarorðið við efnahagsvanda þjóðarinnar.

Til gæfu fyrir íslensku þjóðina urðu þessir stóriðjudraumar aldrei að veruleika og einungis ein álverksmiðja var reist, — verksmiðja sem alla tíð hefur notið sérstakra fríðinda umfram annan atvinnurekstur í landinu í skatta- og tollamálum og auk þess notið þeirra einstöku hlunninda að fá íslenska orku keypta undir framleiðsluverði og með sérstökum afhendingarskilmálum. Arðinn af þessum verksmiðjurekstri hefur hið erlenda auðfélag flutt óskiptan úr landi, líkt og dönsku kaupmennirnir gerðu áður fyrr á Akureyri.

Það var fyrst og fremst fyrir harða baráttu Alþb. gegn stóriðjuáformum viðreisnarstjórnarinnar og framhaldi slíkra samninga við erlend auðfélög á borð við samninginn við svissneska auðhringinn sem tókst að stöðva þessa þróun. Undir forustu Alþb. var trú fólksins í landinu á eigin möguleika til fjölbreytts atvinnurekstrar og trú á möguleika sjávarútvegs og þjóðlegs iðnaðar endurvakin. Í kosningunum 1971 er ekki hvað síst tekist á um þessi grundvallarsjónarmið íslenskra stjórnmála með þeim árangri að fyrri stjórnarherrar urðu að víkja úr sessi. Og undir forustu Alþb. í vinstri stjórninni á árunum 1971–1974 er hafin endurreisn íslensks sjávarútvegs, endurnýjun fiskiskipastólsins og fiskvinnslustöðvanna og verndun fiskstofnanna með útfærslunni í 50 mílur. Á sviði iðnaðarmála voru gerðar margvíslegar ráðstafanir til að efla starfsemi hans með breyttum lögum um lánamöguleika hans og rannsóknar- og tækniaðstoð. En því miður tókst ekki að leiða öll þau framfæramál til lykta fyrir stjórnarskiptin. Miklar athuganir fóru þá fram á möguleikum til fjölbreytts nýiðnaðar í landinu sem var byggður á íslenskum hráefnum og orku til framleiðslu sinnar. Sum þessara áforma tókst að leiða til lykta, en önnur hafa um sinn verið lögð á hilluna eða þeim hefur verið drepið á dreif með tilkomu nýrrar ríkisstj. Stefnan í raforkumálum landsins var einnig tekin til endurmats og sett fram það markmið að samtengja raforkukerfi landsmanna, sem er grundvallarforsenda þess að hægt sé að virkja orku landsins hagkvæmlega og reka raforkuverin á hinn hagkvæmasta hátt. Og síðast, en ekki síst var hafist handa um áætlanagerð og framkvæmdir við húshitun með innlendri orku og stefnt þannig að stórkostlegum sparnaði olíukaupa sem með hækkuðu olíuverði eru að verða einn stærsti kostnaðarbaggi á þjóðinni.

Þannig var hinni íslensku stefnu rudd braut og að sinni hafnað stefnu viðreisnarstjórnarinnar í atvinnumálum sem boðaði hömlulausan innflutning erlendrar fjárfestingar í landið í samvinnu við erlenda einokunarauðhringi. Hinn pólitíski sigur vinstri aflanna í landinu í kosningunum 1971 með myndun vinstri stjórnarinnar að þeim loknum markaði því afdráttarlaus tímamót í atvinnumálum þjóðarinnar, og óvíst er hvernig farið hefði um efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar ef fram hefði haldið sem horfði.

Fram til þessa hefur okkur íslendingum tekist að forðast mjög náið samneyti við erlenda einokunarauðhringi, og enn er hlutur þeirra í íslensku efnahagslífi ekki svo stór að veruleg hætta stafi af. En svo er ekki um allar þjóðir. Margar þeirra og þó einkum þær, sem teljast með hinum svonefndu þróunarlöndum, hafa ekki farið varhluta af starfsemi þeirra, og nú er svo komið að þær telja það eitt helsta verkefni sitt að losa um þessi tengsl við hin erlendu einokunarfyrirtæki og endurheimta efnahagslegt frelsi sitt. En jafnvel nágrannaþjóðir okkar, eins og norðmenn, þekkja þennan vanda í upphafi aldarinnar, og fram eftir öldinni gerðu norsk stjórnvöld margs konar samninga við erlenda fjárfestingaraðila um verksmiðjurekstur í Noregi, svo sem álbræðslur, jafnvel samninga til 100 ára, án þess að norðmenn ættu þar nokkurn hlut að máli hvað varðar eignarrétt eða önnur yfirráð. Nú er þetta liðin tíð í þessu landi og þessir frændur okkar telja það eitt helsta verkefni sitt að afnema slíka samninga og ná yfirráðum yfir fjárfestingu í landi sínu. Þótt varkárni og aðgæsla sé alltaf nauðsynleg í samskiptum við erlenda aðila eða erlent fjárfestingarfé, gildir það sér í lagi um samskipti við erlenda einokunarhringi eða fjölþjóðaauðhringi, sem þeir gjarnan eru nefndir vegna þess eðlis þeirra að þeir starfa í hinum ýmsu löndum og ráða yfir öllum stigum þeirrar framleiðslu er þeir vinna að. Og áður en lengra er haldið vil ég gjarnan vekja athygli þm. á vexti og viðgangi hinna fjölmörgu fjölþjóðlegu auðhringa sem þenja starfsemi sína stöðugt út til fleiri landa, en segja má að starfsemi þeirra sé nýtt stig þess kapítalíska þjóðfélagskerfis sem hinn vestræni heimur býr við. Hlutverk þeirra er líkt og nýlenduveldanna forðum, og helst er hægt að segja að þeir séu framhald hinnar gömlu nýlendustefnu.

Í efnahagsumróti áranna eftir síðustu heimsstyrjöld notuðu ýmsar þjóðir tækifærið til þess að hrista af sér klafa kúgunar og sóttu fram til frelsis meðan hin gömlu nýlenduveldi Evrópu vora í sárum eftir átök styrjaldarinnar. Um þetta leyti má segja að vöxtur og uppgangur fjölþjóðaauðhringanna hefjist. Einkum vorn það stærstu og auðugustu fyrirtæki Bandaríkjanna sem riðu á vaðið, og enn eru þau fjölmennust í þessum hópi með um 80% þeirrar fjárfestingar sem fjölþjóðahringir hafa í heiminum.

Hin nýfrjálsu ríki áttu við margvíslegan efnahagsvanda að stríða, vanþróað, tæknisnautt atvinnulíf, enda höfðu þau um aldir einungis verið hráefnanámur nýlenduveldanna sem héldu niðri allri þekkingarleit og viðleitni heimafólksins til sjálfsbjargar. Þetta ástand kunnu fjölþjóðahringarnir að notfæra sér, enda víða og þá einkum í Bandaríkjunum farið að þrengja að starfsemi þeirra af ýmsum ástæðum. Hráefni, orka og ódýrt vinnuafl nýfrjálsu landanna gerðu þau girnileg í augum hringanna, og stjórnmálaástandið heima fyrir í nýfrjálsu löndunum gerði þau ginnkeypt fyrir margvíslegri samvinnu við þá. Enda þótt þeir hafi síðar fært starfsemi sína út, einnig í sjálfum iðnríkjunum, hafa þróunarlöndin svonefndu einkum verið vettvangur þeirra til arðráns og gróðasöfnunar, en 2/3 hlutar alls fjárfestingarfjármagns hringanna eru enn í þessum löndum.

Valda- og forréttindastétt auðvaldslandanna hefur með fjölþjóðaauðhringunum fundið sér nýjan farveg til arðráns og auðsöfnunar til viðhalds sínum drottnunarmætti. Efnahagslega pólitísk völd fjölþjóðahringanna eru mikil og geigvænleg vegna þess eðlis þeirra og uppbyggingar sem ég gat um áðan, — þeirrar uppbyggingar sem gerði þeim kleift að sniðganga allt vald þjóðríkjanna. Með auði sínum og yfirráðum yfir hinni háþróuðustu tækni og vísindakunnáttu geta þeir iðulega virt að vettugi vilja og stefnu kjörinna stjórnvalda. Uppgangur þeirra hlýtur því að vera mikið áhyggjuefni öllum lýðræðissinnum.

Ég læt hér fylgja nokkrar upplýsingar um framleiðslumagn og umsvif fjölþjóðahringa sem varpa skýru ljósi á veldi þeirra. Upplýsingarnar eru m. a. fengnar úr skýrslu sænska alþýðusambandsins sem eins og mörg önnur verkalýðssamtök í heiminum hefur stórar áhyggjur af þróun þessara hringa, en skýrsla þessi er frá árinu 1975. Í henni segir m. a. að framleiðsla fjölbjóðahringa vaxi um þessar mundir tvöfalt hraðar en efnahagsstarfsemi heimsins í heild. Árleg aukning heimsframleiðslunnar er talin vera um 5% að meðaltali á ári, en aukning á framleiðslu hringanna um 10%. 1971 var öll framleiðsla hringanna um 450 milliarða dollara til samanburðar við samanlagða þjóðarframleiðslu í öllum löndum sem var þá um 3000 milljarða dollara. Og hvað varðar sérstaklega iðnaðarframleiðslu í heiminum er því spáð að 1985 muni um 300 fjölbjóðaauðhringir ráða yfir um 50% af allri iðnframleiðslu heimsins og 1995 um 70% af þessari framleiðslu.

Margir einstakir fjölþjóðahringar velta árlega þúsundum milliarða dollara. Ef við tökum svissneska álhringinn, Alusuisse, móðurfyrirtæki ÍSALs, sem dæmi, þótt hann teljist ekki í hópi hinna stærri fjölþjóðahringa, þá var ársvelta hans 1973 um 727 millj. dollara, en það ár mun þjóðarframleiðsla íslendinga hafa verið um 1 milliarð dollara. Ég vil skjóta því hér að, þegar Benedikt Gröndal gengur í salinn, hann talaði um í ræðu sinni áðan að þetta væri lítill auðhringur, og það kann vel að vera að hann sé lítill í augum Benedikts Gröndals, en hann veltir þó fjármagni, sem er líkt og öll þjóðarframleiðsla íslendinga.

Ef við hins vegar berum saman framleiðslu erlendra útíbúa fjölþjóðahringa, þá er hún u. þ. b. 20 milljörðum dollara meiri að verðmætamati en útflutningsframleiðsla allra landa heims. Nákvæmar tölur 1971: útflutningsverðmæti í heiminum 310 milljarðar dollara og framleiðsla erlendra útibúa fjölþjóðahringa 330 milljarðar dollara eða ívið meiri.

Þessar upplýsingar eða tölur má skoða frá ýmsum sjónarhornum. Ef við skoðum þetta með hliðsjón af einstökum löndum, þá er t. d. framleiðsla bandarískra fjölþjóðahringa á erlendri grund fjórum sinnum meiri 1971 en öll útflutningsframleiðsla Bandaríkjanna unnin í heimalandinu sjálfu. Sambærilegar tölur frá Sviss og Bretlandi eru tvöföld framleiðsla hringanna. Franskir og sænskir fjölþjóðahringir framleiða hins vegar jafnmikið utanlands og nemur útflutningsframleiðslu þessara landa.

Þessar upplýsingar um framleiðslumagn fjölþjóðaauðhringa segja nokkuð um veldi þeirra og hver þróunin er í þessum efnum. Áhrifa þeirra gætir nú í auknum mæli hvarvetna í heiminum þannig að allar fyrri hugmyndir manna um vald og ríkisvald hljóta að endurmetast. Sérlega er vert fyrir verkalýð heimsins að gera sér grein fyrir áhrífum fjölþjóðahringa á verkalýðsbaráttu og launabaráttu alla. Vegna viðleitni hringanna að leita alltaf að hámarksgróða án tillits til þarfa og hagsmuna verkafólks í hverju einstöku landi og vegna þeirrar staðreyndar, að auðveldara er að flytja á milli landa fjármagn en vinnuafl, mun starfsemi fjölþjóðaauðhringa aldrei veita verkafólki það atvinnuöryggi sem þjóðlegir atvinnuvegir geta veitt. Með hótunum um stöðvun framleiðslu eða flutning hennar á milli landa geta hringarnir ógnað og kúgað verkafólk undir vilja sinn og dregið úr því að krefjast aukinnar hlutdeildar í arði framleiðslunnar hverju sinni. Þannig geta fjölþjóðahringar miklu frekar en þjóðleg fyrirtæki komist hjá því að viðurkenna hefðbundinn rétt verkafólks og verkalýðssamtaka. Einnig er rétt að gefa því gaum í allri umræðu verkafólks um atvinnulýðræði, að framleiðsluskipan fjölþjóðahringa er í fullri mótsögn við hugmyndir verkalýðssamtaka og verkafólks um aukin áhrif á vinnuna, fyrirkomulag hennar og skiptingu arðs. Yfirstjórn og miðstýring fjölþjóðahringa á útibúum sínum í einstökum löndum er slík að þau hafa ekki olnbogarými til sjálfstæðrar ákvarðanatöku nema að mjög litlu leyti. En þessi miðstýring fjölþjóðahringa er ein forsenda þess að þeir geti tryggt sér hámarksgróða hverju sinni, því að með slíkri stýringu velur hringurinn í hvert skipti hvar í framleiðsluferlinum, í hvaða landi gróðinn er látinn koma fram, og tekur hann svo mið af skatta- og tollakerfi einstakra landa og þeim öðrum reglum er þau setja um yfirfærslu hagnaðar úr landi, svo að eitthvað sé nefnt.

Mér hefur í ræðu minni orðið tíðrætt um þá ógnarhættu sem sjálfstæði okkar kann að stafa í framtíðinni af samneyti við hina fjölþjóðlegu auðhringl. Ég hef talið rétt að nota það tækifæri, sem hér gefst, til að vara við hættunni af þessum erlendu félögum, sérstaklega af því að við vitum um áform og áhuga vissra aðila í núv. ríkisstj. um enn frekari samvinnu við útlendinga um stóriðjurekstur, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar. En slíkt gengur þvert á vilja þeirra sem vilja auka efnahagsleg lýðréttindi fólksins í landinu og skiptir sköpum um það hver þróunin verður í atvinnumálum þjóðarinnar. Undan þessum staðreyndum getur enginn þm. vikið sér.

Þessar staðreyndir um eðli hins alþjóðlega fjármagns voru okkur alþb.-mönnum efstar í huga þegar við börðumst á sínum tíma gegn hinum erlendu stóriðjuáformum viðreisnarstjórnarinnar. Það markaði því tímamót í allri umræðu um samstarf við erlenda aðila í fjárfestingarmálum þegar fyrir forgöngu fyrrv. iðnrh. voru settar fram ákveðnar lágmarksreglur sem fylgja skyldi í slíkum viðræðum. Að þessum lágmarksskilyrðum stóð öll vinstri stjórnin á sínum tíma og þá um leið annar stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar, Framsfl. Þessi lágmarksskilyrði voru efnislega þessi:

1. Að hlutafjármeirihluti væri alltaf í eigu íslenska ríkisins og fyrirtækið væri skrásett sem íslenskt fyrirtæki.

2. Að fyrirtækið þyrfti að lúta íslenskum lögum og lögsögu í einu og öllu.

3. Að raforkuverð yrði að vera þannig að viðunandi væri fyrir rekstur orkuveranna í landinu. Einnig var um sama leyti komið á samstarfsnefnd milli iðnrn. og Náttúruverndarráðs um orkumál.

Með þeirri forskrift, sem hér var ákveðin, var hafnað í raun þeirri stefnu, sem áður hafði verið fylgt undir sömu kringumstæðum, og lagt fram verðugt innlegg í framtíðarstefnumörkun þjóðarinnar í þessum efnum. Á grundvelli þessara skilyrða heimilaði fyrrv. ríkisstj. viðræðunefndinni um orkufrekan iðnað að undirbúa drög að samningi um kísiljárnverksmiðju, og skilaði n, niðurstöðum sínum til ríkisstj. í upphafi ársins 1974. Þessi drög voru hins vegar aldrei tekin til frekari meðferðar, hvorki af þingflokkum ríkisstj. né af sjálfu Alþ., enda voru þá komin upp gerbreytt viðhorf í orkumálum vegna olíuverðhækkana.

Þótt Alþb. sé ekki alfarið andsnúið aðild erlendra fyrirtækja eða félagasamtaka að fjármögnun stóriðjufyrirtækja sem geta á eðlilegan hátt samrýmst þjóðlegu atvinnulífi landsmanna og raska ekki æskilegri atvinnu- og byggðaþróun og uppfylla önnur þau skilyrði er fullnægja hagsæld landsmanna, þá setur það mikinn vara við slíku samstarfi. Okkur alþb.-mönnum er jafnframt ljós nauðsyn þess að mynda meðal þjóðarinnar pólitískan meiri hluta um þessar hugmyndir okkar og síðan mótun stefnu í þessum málum sem fylgi skynsamlegri auðlindanýtingu og æskilegri þróun atvinnuvega og byggðar í landinu. Það er álit mitt að þau lágmarksskilyrði, sem fyrrv. iðnrh. setti viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, séu spor í þessa átt og ótvíræður sigur þeirra sem varað höfðu við hugmyndum um erlenda stóriðju á Íslandi. En þótt þessi skilyrði hafi þótt röng og óraunsæ, er þau voru sett fram, af ýmsum þeim sem hvað áhugasamastir eru um samstarf við erlenda aðila í atvinnumálum, hafa þau hlotið þann hljómgrunn meðal fólks að núv. ríkisstj. hefur ekki talið sig geta hunsað þau. Með viðurkenningu þessara skilyrða erum við á vissan hátt að reisa skorður við flutningi erlends fjárfestingarfjármagns til landsins, skorður, sem markast af möguleikum okkar sjálfra til fjárfestingar í slíkum stóriðnaði. Hér á ég við ákvæðið um meirihlutaeign íslenska ríkisins í slíkum fyrirtækjum.

Það er kannske rétt að rifja það upp, að í tíð fyrri stjórnvalda var því haldið fram, að ekki væri kleift að ráðast í neinar stórvirkjanir á Íslandi nema orkusala væri tryggð til erlendra stóriðju, og því haldið fram, að erlendar lánastofnanir m. a. mundu ekki veita íslendingum fjárfestingarlán nema slíkur markaður væri tryggður. Þessar kenningar voru í raun afsannaðar í tíð vinstri stjórnarinnar því að lán til virkjunar Sigöldu voru tryggð án neinna slíkra skilyrða, þannig að viðræður um kísiljárnverksmiðju voru aðeins fyrst og fremst könnunarviðræður og upplýsingaöflun um þá möguleika sem voru á nýtingu orkunnar frá Sigöldu. Við ákvörðun um þessar virkjunarframkvæmdir höfðu stjórnvöld algerlega frjálsar hendur um að velja á milli þessara kosta síðar.

En þó að ég telji það á vissan hátt tímamót að nást skyldi sá pólitíski meiri hluti fyrir þessum skilyrðum sem ég gat um áðan, er viðræðunefndin um orkufrekan iðnað fékk sem veganesti á sínum tíma, er ljóst að þau ein út af fyrir sig geta aldrei ákvarðað hvort til samvinnu sé gengið við erlenda aðila um atvinnurekstur eða ekki. Hvert slíkt tilfelli, sem upp kemur, þarf að skoða, og kynna þarf sér alla starfsemi mótaðilans, eðli hráefnamarkaða og sölumarkaða og áhrif á náttúru og umhverfi og annan atvinnurekstur og byggð í landinu. Umfram allt þarf að forðast að slík samvinna geti sett til hliðar aðra og heppilegri valkosti í atvinnuþróun landsins og orkunýtingu.

Ég hef nú vikið hér nokkuð almennt að þeim skoðunum sem ég hef á stóriðjumálum, og jafnframt að þeim hættum, sem alltaf eru því samfara að veita erlendu fjárfestingarfé til landsins. Ég vil þá víkja sérstaklega að því frv. um járnblendiverksmiðju á Grundartanga er hér liggur fyrir.

Af aðstandendum þessa frv. er því haldið fram að það tryggi hagkvæma orkunýtingu landsins og hafi jákvæð áhrif á þjóðarbúskap íslendinga, og það skulum við skoða svolítið nánar.

Þegar hafist var handa um virkjun Sigöldu voru samhliða af hálfu fyrrv. ríkisstj. og iðnrh. settar í gang margvíslegar athuganir á nýtingu þeirrar orku. Hafin var rannsókn á möguleikum margbreytilegs nýiðnaðar sem ynni úr íslenskum hráefnum. En þar sem ljóst var að í þessum efnum var víða um byrjunarrannsóknir að ræða vegna þess að fyrri stjórnvöld höfðu vanrækt öll iðnþróunaráform voru einnig kannaðir möguleikar á kísiljárnverksmiðju sem tæki til starfa um sama leyti og aflið frá Sigöldu yrði tiltækt. Frá þessum hugmyndum um kísiljárnverksmiðju var síðan horfið, eins og ég gat um áðan, þegar ný viðhorf komu upp í orkumálum með þeim miklu hækkunum sem urðu á olíuverði í heiminum. Í stað þess ákvað fyrrv. iðnrh að hraða áformum um notkun raforku til húshitunar, en sá orkumarkaður var og er enn ekki nema að nokkru nýttur. Það alvarlega hefur skeð að núv. iðnrh. hefur ekki sinnt þessum verkefnum og sýnt áformunum um raforkuhitun áhugaleysi og ekki fylgt eftir af neinum krafti heldur þeim hugmyndum sem iðnþróunarnefndin benti á um margvíslegan nýiðnað í landinu. Vegna þeirrar vanrækslu skeður nú það einsdæmi í virkjunarsögu okkar, að verið er að taka stóra virkjun í gagnið án þess að orkumarkaður hafi verið tryggður. Þessa vanrækslu munu íslenskir neytendur raforku borga dýru verði í hækkuðum raforkugjöldum.

1974 var lögð fyrir Alþ. af fyrrv. iðnrh. skýrsla um nýtingu innlendrar orku í stað olíu. Er þessi skýrsla að mestu byggð á skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, og er þar gerð mjög ítarleg athugun á hagnýtingu orkunnar til húshitunar, bæði með hitaveitu og raforku. Segir m. a. í skýrslunni að um áramótin 1972–1973 hafi um 46% þjóðarinnar notað jarðvarma til húshitunar og um 7% hafi notað rafhitun Jafnframt segir í skýrslunni að ef og þegar olíu hafi verið útrýmt til húshitunar megi ætla að 66% landsmanna noti jarðvarma til húshitunar, en um 34% muni nota raforku. Mælt í orku var rafhitunin 1972 um 130 gwst., en hefði vaxið upp í einar 927 gwst. eftir að ollu hefði verið útrýmt að fullu.

Nú er þess að geta að þessi áætlun hefur nokkuð breyst vegna þess að jarðvarmi hefur fundist á svæðum, sem ekki voru talin líkleg vinnslusvæði jarðvarma 1974. Munar þar mestu um heitavatnsfund á Laugalandi í Eyjafirði. Því er líklegt að rafhitunarmarkaðurinn fullnýttur sé nú um 20% í stað 34% áður, þannig að fullnýttur sé rafhitunarmarkaðurinn nú um 500–600 gwst. miðað við mannfjölda á árunum 1980–1981. Til viðmiðunar má ætla að nú séu notaðar um 300 gwst. til rafhitunar eða um helmingur þessa markaðar. Nákvæmar tölur liggja reyndar ekki fyrir um þetta, en miðað við þær tölur, sem liggja fyrir um notkunina 1975, er þetta nærri lagi.

Ég vil koma því hér að, að sá áróður, sem hafður hefur verið uppi um að engin áhersla hafi verið lögð á rannsóknir og framkvæmdir við jarðvarmaveitur í tíð ríkisstj., er alrangur. Í tíð hennar voru gerðar vandaðar áætlanir um nýtingu jarðvarma og áætlað að ljúka framkvæmdum við hitaveitur á árinu 1976 í nágrannabyggðum Reykjavíkur, á Suðurnesjum, á Akranesi, Borgarnesi, Siglufirði, Eyrarbakka. Stokkseyri og í Þorlákshöfn. Í þeirri skýrslu iðnrh., sem ég vitnaði til áðan, segir m. a. um þetta: „Einnig má búast við að áframhaldandi rannsóknir á hitaveitu í nánd við þéttbýli leiði í ljós hagkvæmni á hitaveitu þar sem vafi leikur á um hagkvæmni nú. Mikil nauðsyn er hví á að jarðhitarannsóknir verði styrktar mjög, til þess að sem fyrst verði hægt að skera úr um það með fullri vissu hvar um nýtanlegan jarðvarma er að ræða.“

Þær hitaveituframkvæmdir. sem nú eru í gangi, eru því aðeins rétt og eðlilegt framhald þeirra rannsókna og framkvæmda, sem ákveðnar höfðu verið áður, og geta á engan þátt og mega ekki á neinn hátt koma í veg fyrir að ráðist sé af fullum krafti í rafhitun húsa. Þótt vitað sé að í framtíðinni kunni að finnast jarðvarmi til virkjunar hitaveitna víða þar sem slíkt er ekki talið líklegt nú, þarf það ekki að koma í veg fyrir framkvæmdir um raforkuhitun húsa, því að slíkri hitunaraðferð má koma fyrir með tvennu móti: annars vegar með 100% rafofnahitun þar sem litlar eða engar líkur eru taldar á hagkvæmni jarðvarmaveitu síðar, og svo hins vegar upphitun vatns með raforku á hitunarkerfi húsa þar sem líkur eru miklar á að jarðvarmi kunni að finnast síðar. Í þessum efnum er höfuðatriðið að þjóðin stefni hratt og ákveðið að útrýmingu olíunotkunar til húshitunar, eins og að var stefnt 1974.

Nauðsyn þessa sést best á því ef skoðaðar eru tölur um olíukostnað þjóðarinnar. Þannig má sjá að þrátt fyrir það að olíunotkun til húshitunar hafi minnkað úr um það bil 180 millj. lítrum 1972–1973 í um það bil 130 millj. lítra, sem áætlað er að notaðir verði á þessu ári til húshitunar, hefur innflutningsverð húshitunarolíu vaxið um helming á þessu árabili, úr rúmum einum milljarði í það sem ætla má að fari til þessa í ár, 2.4 milljarða. En á útsöluverði til íslenskra neytenda má gera ráð fyrir að þessir 230 millj. lítrar, sem verða notaðir í ár til húshitunar, muni kosta um 4 milljarða. Minnkun olíunotkunar um ca. 28% milli áranna 1972 og 1977, þótt lítil sé, nemur þó hvorki meira né minna en 11/2 milljarði á verði til neytenda.

Árið 1975 voru gerðar í Bolungarvík kannanir á kostnaðarmun rafhitunar húsa og kostnaðar með olíukyndingu. Voru valin til þessarar könnunar 20 sambærileg hús, 10 sem voru hituð upp með raforku og önnur 10 sem voru hituð upp með olíukyndingu. Kom fram í könnun þessari að kostnaður á ári við upphitun með olíu var um 204 þús. á hús, en kostnaður við raforkuhitun um 101 þús. kr. á hús. Á þessu ári, sem um ræðir, var olíustyrkur til meðalfjölskyldu um 30 þús. kr., og þótt hann sé reiknaður með í dæminu er samt olíuhitunin um 40% dýrari fyrir húseigandann heldur en upphitun með rafmagni. Í þessum útreikningum er aðeins verið að kanna beinan rekstur, en ekki stofnkostnað og viðhald hitakerfis, en fullvíst er að rafhitun er miklu hagkvæmari hvað því viðkemur heldur en olíukyndingarkerfið.

Þótt þannig sé ljóst að þjóðin geti sparað umtalsverðar fjárhæðir með betri nýtingu innlendra orkugjafa til húshitunar, eru þar með ekki taldir allir möguleikar þessara orkugjafa okkar til hitunar. Þannig er það verðugt víðfangsefni að útrýma olíunotkun við fiskmjölsþurrkun og kanna möguleika á notkun jarðvarma og raforku til heyþurrkunar. Vitað er að ýmis tæknileg vandamál þarf að leysa svo að þetta sé mögulegt. Þannig er það ákveðnum erfiðleikum bundið að nota þessa orku við fiskmjölsþurrkun vegna erfiðleika á því að ná upp sama þurrkhita með jarðvarma og raforku og kleift er að ná með olíubrennslu. En full ástæða er til að kanna þessa möguleika mjög nákvæmlega því að hér er mikið í húfi.

Rétt er að taka það fram, að alger forsenda þess að hægt sé að auka að nokkru marki raforkunotkun landsmanna. hvort heldur er til húshitunar eða annarra þarfa, svo sem í iðnaði, er samtenging landshlutanna í eitt orkuveitusvæði eða línukerfi og breytingar og styrkingar á því dreifikerfi sem fyrir er. Þessar framkvæmdir eru vitaskuld kostnaðarsamar. En hafa ber hugfast að þær eru, burt séð frá aukinni raforkusölu, mjög brýnt þjóðhagslegt verkefni því að það öryggisleysi, sem margir landshlutar búa við í dag í þessum efnum vegna lélegs og úr sér gengins dreifikerfis, er óþolandi og kostar þjóðina að auki ótaldar fjárhæðir í framleiðslutjóni. Dæmigert er t. d. ástandið á Vestfjörðum. Það kom fram í fréttaauka Ríkisútvarpsins s. l. fimmtudag í viðtölum fréttamanns við forráðamenn rafmagnsmála þar að vestfirðingar hafa þungar áhyggjur af ástandi raforkumála sinna. Kom þar fram að raforkuskortur er mikill á Vestfjörðum, þannig að aðeins væri tryggð orka til fiskvinnslustöðva, en hins vegar væri engin orka til iðnaðar, sem mikil nauðsyn væri að koma upp, né til hitunar húsnæðis sem mikil og aukin ásókn væri í, sérstaklega eftir að tilraunaboranir eftir heitu vatni hefðu skilað litlum eða engum árangri. Kom fram í þessum fréttapistli að engar fjárveitingar væru fyrirhugaðar á þessu ári til stofnlínuframkvæmda fyrir vestfirðinga, en slík lausn væri eina varanlega lausn þeirra mála eins og nú stæðu sakir. Koma þyrfti stofnlinu úr Hrútafirði í Búðardal og þaðan í Króksfjarðarnes og um Barðastrandarsýslu til Mjólkárvirkjunar. Línustæði þetta hefur þegar verið mælt út og framkvæmdaáætlun gerð, en einungis fjármagnið vantar. Nú væri ástandið þannig að keyrðar væru dísilvélar til að bæta úr brýnustu þörfinni, og miðað við að aukning raforku yrði sú sama í ár og á síðasta ári yrði olíukostnaður einn af þessum sökum um hálfan milljarð. Það má geta þess að kostnaðaráætlun um þessa linu hljóðar upp á 11/2 milljarð. Þannig er nú ástandið í þessum landshluta. Og ekki er ástandið betra víða annars staðar á landinu, svo sem á Norðurlandi og á Austfjörðum. Ég furðaði mig því mikið, þegar maður hefur allar þessar staðreyndir í huga, á orðum Benedikts Gröndals í umr. áðan, þar sem hann afgreiddi húshitunarmarkaðinn með raforku í einni setningu með þeim orðum að það væri ekki hægt að koma slíkri rafhitun á strax, auk þess sem það kostaði ótaldar fjárhæðir í styrkingu dreifikerfisins. Ég vil minna þennan hv. þm. á að þessi járnblendiverksmiðja, sem hann ber fyrir brjósti, kemur ekki heldur í gagnið strax, og ég vil minna á það, sem ég þef sagt í ræðu minni, að styrkingu dreifikerfisins um landið þarf að framkvæma hvort eð er. En þessi orð lýsa vel því skilningsleysi sem þetta mál hefur hjá ýmsum þm. og stjórnvöldum. Og það er eftir öðru í stjórn raforkumála að þessum þætti þeirra hefur verið lítill gaumur gefinn. Áhugaleysið um stofnlínuframkvæmdir og endurbætur á dreifiveitunum er e. t. v. besta sönnun þess að núverandi yfirmaður raforkumála hyggur ekki á neitt stórátak í nýtingu raforkunnar til innlendra nota. Grunninum, sem þarf að byggja á, er ekki sinnt.

Grunninum, sem þarf að byggja á, er ekki sinnt. Þennan grunn þarf nú að leggja og hefjast samhliða handa um gerð iðnþróunaráætlunar sem rennir traustari stoðum undir þjóðlega íslenska atvinnuvegi er byggi á orkuauðlindum landsins. Efla þarf og styrkja framleiðslu úr sérstæðum íslenskum hráefnum, svo sem skinnum og ull, fiski og fiskúrgangi, sjávarefnum og jarðefnum, jafnframt því sem komið verði upp iðnaði er framleiði tæki og vélar fyrir grundvallaratvinnuvegi okkar, svo sem sjávarútveginn, — iðnaði er byggi á sérþekkingu okkar, tækniþekkingu okkar og reynslu sem fiskveiðiþjóðar.

Þegar er mikill iðnaður í landinu sem vinnur úr afurðum landbúnaðarins, svo sem ull og skinnavöru, en þó eru þessir möguleikar ekki nema að litlu nýttir vegna skipulagsleysis, bæði í fjárfestingarmálum og í framleiðslu- og markaðsmálum. Úrvinnslu úr íslenskum fiskafurðum þarf að stórefla, en með aukinni vinnslu fisksins má margfalda útflutningsverðmæti þessa helsta hráefnis þjóðarinnar. Veita þarf skipulega auknu fé til þessa iðnaðar og tæknivæða hann enn frekar. Fiskúrgang þarf að nýta betur, svo sem til lífefnavinnslu, en hún er nú vaxandi atvinnugrein víða um lönd og þá sérstaklega til lyfjagerðar. Sem dæmi um iðnað úr sjávarefnum mætti nefna saltverksmiðju og síðan ýmsan annan iðnað í framhaldi af saltvinnslunni. Árið 1974 lágu þegar fyrir nákvæmar rannsóknir á möguleikum saltverksmiðju á Reykjanesi. Nú fyrst 1977 er verið að hrinda þessum áformum af stað.

Jarðefnaiðnaður á mikla möguleika hér í landi og vaxandi vegna þeirrar hækkunar sem orðið hefur í heiminum á byggingarefnum eins og plasti og trjávörum. Víðtækar rannsóknir voru gerðar á möguleikum jarðefnaiðnaðar í tíð fyrri ríkisstj., svo sem vinnslu á perlusteini, vikri og gjalli, en land okkar er mjög auðugt af slíkum efnum. Úr þessum efnum má vinna hvers konar þilplötur til byggingariðnaðar og einangrunarefni og steypa úr basalti hellur og flísar. Það má gjarnan geta þess, að til landsins eru nú flutt plastefni til einangrunar svo að skiptir hundruðum millj., því mætti vitaskuld hætta ef við framleiddum efni í landinu sjálfu sem gætu komið okkur að notum í stað þessara efna. Í skýrslu iðnþróunarnefndarinnar, er fyrrv. iðnrh. skipaði, segir m.a. um iðnað af þessu tagi:

„Starf gosefnanefndar iðnrn. hefur leitt í ljós, að nokkur verkefni gætu leitt til nýrrar framleiðslu innan tiltölulega skamms tíma, önnur verkefni þarf að kanna nánar, og rétt er að halda við undirstöðurannsóknum með langtímamarkmið fyrir augum, jafnframt því sem reynt verði að hrinda skammtímaverkefnum í framkvæmd. Það er ekki síst áhugavert við þetta svið, að gosefnaiðnaður getur skapað mörg tækifæri til framleiðslu í smærri fyrirtækjum með tiltölulega lítilli fjárfestingu í byrjun.“

Þessar rannsóknir, sem ég gat um, hafa nú þegar leitt til þess að hafin er vinnsla á perlusteini, en önnur verkefni á þessu sviði bíða framkvæmdanna. Tækja- og vélaiðnað fyrir undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar má byggja upp með ýmsum hætti, svo sem nýsmiði í járniðnaði fyrir skip og fiskvinnsluver, raftækjaiðnað fyrir orkuver og dreifikerfi rafmagns og rafeindaiðnað þar sem lögð yrði áhersla á smíði hvers kyns mælitækja. Þá má ekki gleyma því heldur að fyrir er í landinu stóriðja eins og áburðarverksmiðja og sementsverksmiðja, en þessa starfsemi mætti mjög auka. T. d. mætti nefna að þrátt fyrir mikla framleiðslu á sementi hér í landinu eru samt flutt inn til landsins um 40 þús. tonn af sementsgjalli á hverju ári, og skiptir sá innflutningur vafalaust hundruðum millj. kr. Margt fleira mætti nefna um þá möguleika sem þjóð okkar býr við á sviði iðnþróunar og flestir eru vannýttir. Þessa möguleika þarf að nýta og þróun atvinnumála þarf fyrst og fremst að taka mið af þessum staðreyndum, og innan þess ramma, sem ég hef hér lauslega dregið upp, má víða þróa orkufrekan stóriðnað sem byggi á íslenskum hráefnum og íslenskri tækniþekkingu.

Stóriðnaður, sem byggir á erlendum aðföngum, eins og sú járnblendiverksmiðja sem hér er til umr., getur aldrei komið til greina ef valið stendur á milli hans og þeirra íslensku iðnþróunarverkefna, er ég hef hér talið upp. Með þeim rökum fyrst og fremst hafna ég þeim samningi, er hér liggur nú fyrir um byggingu kísiljárnverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði. Valið stendur á milli íslenskrar iðnþróunar og verksmiðjurekstrar er byggir á aðfluttum aðföngum og erlendri tæknikunnáttu og fjármagni. Þegar ég segi, að valið standi á milli þessa, horfi ég á þá staðreynd að orkusala til slíkrar verksmiðju 1979 þýðir í raun orkusvelti til innlendra þarfa allt fram til þess árs er Hrauneyjafossvirkjun fer að framleiða raforku. En vegna þessa samnings hefur framkvæmdum við þá virkjun verið flýtt um tæp þrjú ár, en fyrirhugað er nú að Hrauneyjafossvirkjun taki til starfa 1981–1982. Af reynslunni þekkjum við íslendingar hins vegar að slíkar áætlanir geta gjarnan raskast og vilja gera það, sbr. t. d. framkvæmdirnar við Sigöldu sem nú þegar eru orðnar á eftir þeim áætlunum sem gerðar voru, þannig að allt eins má ætla að gangsetning Hrauneyjafossvirkjunar verði 1982–1983. Þessa fullyrðingu mína um, að samningurinn leiði til orkusveltis, byggi ég á nýlegum orkuútreikningum sem Verkfræðistofan Hönnun hefur gert eftir orkuspám Landsvirkjunar, þar sem fram kemur að aflskortur er þegar orðinn í raforkukerfinu 1980–1981 og orkuskortur strax á árinu 1982. Þessi orkuspá miðast við að landið allt sé samtengt í eitt veitusvæði og gert ráð fyrir því varaafli í kerfinu sem nauðsynlegt er til að tryggja raforkunotendum öryggi þrátt fyrir ófyrirséðar bilanir og aðrar slíkar aðstæður.

Við þessa orkuspá er gert ráð fyrir því að Kröfluvirkjun komi inn á fyrrum áætluðum tíma með sin 70 mw. eða 110–115 gwst. Nú er hins vegar ljóst að mikil óvissa er um hvenær vænta megi raforkuframleiðslu frá Kröfluvirkjun. Einkum hljóta menn að setja mikinn vara við því að hún komi inn í kerfið með fullum afköstum næstu árin. Ljóst er því að þessi orkuspá er frekar bjartsýnisspá en hitt og aflskortur getur því alveg eins verið orðinn alvarlegur fyrr en þarna er gert ráð fyrir eða jafnvel strax á árinu 1979, ef af þessum samningi verður um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Þannig er ljóst að jafnvel þó að hæstv. iðnrh. vildi nú taka sig á og auka framkvæmdir við stofnlinur og dreifikerfi landsins, t. d. ef hann vildi taka sig á og byggja línuna fyrir vestfirðinga, þá er ekki víst að hann hafi neina raforku til að flytja eftir þeim línum þegar að því kæmi.

Ég hef nú gert grein fyrir því sem ég tel vera meginatriði þessa máls, og vil þá víkja aðeins að nokkrum einstökum greinum þess frv. sem hér liggur fyrir, þótt væntanlega gefist síðar tækifæri og betra tækifæri til að athuga þær í iðnn. Nd. Lúðvík Jósepsson hefur þegar gert hér að umtalsefni orkuútreikningana í samningnum við Elkem um járnblendiverksmiðjuna og bent á, að raforkuverðið sé undir framleiðsluverði raforku á landsvirkjunarsvæðinu og reyndar á Íslandi, og jafnframt að það séu helmingi lægra en í Noregi til sambærilegra fyrirtækja. Ég ætla því ekki að eyða löngu máli í þetta orkuverð, en ég tel þó rétt að undirstrika alveg sérstaklega þann skrípaleik sem hafður er í frammi um þá skilgreiningu á forgangsorku og afgangsorku sem er í frv.

Afgangsorku höfum við hingað til skilgreint orku sem afhent er kaupanda án neinna trygginga um afhendingu og án allra skilyrða, og ég tel að með þeirri skilgreiningu, sem frv. gerir ráð fyrir, sé farið inn á mjög hættulega og vítaverða braut. Einnig má segja það um þetta hugtak, afgangsorku, að í sjálfu sér getum við aldrei fyrir fram ákveðið hvað raforkukerfið hefur af slíkri orku, því að aðstæður, sem við sjáum ekki fyrir hverju sinni, geta alltaf breytt þessari stærð. Þarna kemur m. a. til að þetta hlýtur að fara eftir gerð þeirra virkjana sem um er að ræða. Ef um er að ræða rennslisvirkjun, þar sem vatnið rennur ónýtt fram hjá, en vélarnar geta framleitt meiri orku, þá er um hreina afgangsorku að ræða sem ekki er nýtt. Séum við hins vegar með orkuver sem geta með stíflumannvirkjum geymt sér vatnið á þeim tímum, sem ekki þarf að nota það, til tíma þegar álagið er mest, þá framleiðir slíkt vatn ekki afgangsorku. Við vitum það aldrei fyrr en að liðnum vetri, e. t. v. að vori, hvað við höfum í raun og veru átt af afgangsorku.

En það er einnig furðulegur samningamáti í þessu sambandi, sem ég hef aldrei þekkt áður, að annar samningsaðilinn skuli vera bundinn ströngum skilyrðum um afhendingu vöru án þess að um neinar gagnkvæmar skuldbindingar sé að ræða af hálfu hins samningsaðilans. Það er ekkert í frv. sem tryggir Landsvirkjun skaðabætur þótt verksmiðjan af einhverjum ástæðum ákveði að kaupa minna af raforku en ráð er fyrir gert, miðað við fullan rekstur. Í þessu sambandi vil ég vitna til orða í frv. sjálfu, en þar segir að kísiljárnsverksmiðjur séu nú mjög háðar orkumarkaði og háðari en áður og búast megi við að framleiðsluaukning verði fyrst og fremst í löndum þar sem hægt sé að tryggja hagkvæma samninga um kaup á raforku. Hér er beinlínis slegið fram að helsta forsendan fyrir hagkvæmum rekstri þessarar verksmiðju sé ódýr raforka, þannig að það fer ekki á milli mála og um það geta menn ekki deilt. Arðsemisútreikningar hafa verið gerðir á verksmiðjunni, en litlar upplýsingar eru um þær forsendur er reiknimeistararnir gefa sér. Þó sýnist mér að miðað sé við söluverð á framleiðslu verksmiðjunnar við tiltölulega hagstæð markaðsskilyrði. Vitað er hins vegar að miklar verðsveiflur eru á sölu kísiljárns sem er aðallega notað til framleiðslu stáls og járnsteypu. Um þetta segir orðrétt í frv.:

„Mikill samdráttur varð á stálmarkaði á árinu 1975 og var hann í lágmarki í ágúst og september það ár. Síðan hefur orðið verulegur hati, þó enn vanti talsvert á að framleiðslan hafi náð sama magni og 1974. Á síðustu mánuðum hefur aftur gætt samdráttar á stálmarkaðinum. Verð á kísiljárni hefur fylgt þessari þróun.“

Síðan kemur og fram í grg. með frv. að gert sé ráð fyrir að þessi bati verði hægur og hikandi. Ég get ímyndað mér að það verði nokkurt hik á sumum þm. þegar að því kæmi hér á hv. Alþ. að það þyrfti e. t. v. að fara að útdeila rekstrarstyrkjum til járnbræðslu eins og hér um ræðir. Menn sjá alls ekki fyrir, held ég, hver afrakstur verður af þessari verksmiðju, og til þessa gæti vel komið.

Í þessu sambandi öllu, þegar maður hugsar um arðsemi verksmiðjunnar, er full ástæða til að rifja upp ástæðurnar fyrir því að Union Carbide óskaði eftir því að hætta þátttöku í þessum rekstri, en ríkisstj. hafði áður, sem kunnugt er, gert samning við þetta bandaríska fyrirtæki um byggingu verksmiðjunnar. Í frv. er þessi þáttur nokkuð rakinn þar sem rætt er um aðdraganda málsins. Þar segir að á árinu 1975 hafi orðið verulegur samdráttur á markaði fyrir kísiljárn, og töldu þá fulltrúar Union Carbide hugsanlegt að vöxtur og eftirspurn yrðu hægari en fyrr hafði verið áætlað, jafnframt því sem fjölgun og endurnýjun til kísiljárnsverksmiðja gæti orðið meiri næstu árin en fyrri kannanir hefðu bent til. Einnig töldu þeir líkur á hækkandi byggingarkostnaði. Með hliðsjón af þessu var tekinn um það sameiginleg ákvörðun á stjórnarfundi í járnblendifélaginn í nóv. 1975 að takmarka frekari fjárskuldbindingar félagsins þar til búið væri að endurskoða áætlanir um stofn- og rekstrarkostnað félagsins og gera nýja markaðsathugun. Síðar, þegar þessar niðurstöður stjórnar járnblendifélagsins lágu fyrir snemma á árinu 1976, töldu fulltrúar Union Carbide þær niðurstöður staðfesta fyrri áhyggjur sínar frekar en hitt og töldu mjög vafasamt að fara út í framkvæmdir við verksmiðjuna. Þetta leiddi síðan til þess að þeir óskuðu eftir að vera lausir allra mála og kusu að borga — ja, nefndar hafa verið 800 milljónir til þess að losna við fyrri skuldbindingar.

Nú hefur mér ekki gefist kostur á að kynna mér þessar niðurstöður stjórnar járnblendifélagsins og athugasemdir Union Carhide, en ég hef óskað eftir því, að öll gögn verði lögð fyrir iðnn. Nd. Alþ., og reyndar fengið um það dræm svör að slíkt sé hægt. Nú óska ég eftir því að iðnrh. geri þm. grein fyrir þessum niðurstöðum og þessum nýju markaðsrannsóknum sem leiddu til þess að Union Carbide óskaði eftir að ganga út úr samstarfinu. Og ég tel fullkomlega óeðlilegt að neinu sé haldið leyndu í þessum efnum.

Breytingar hafa verið gerðar nokkrar frá fyrra samningi við Union Carbide um hvernig hátta skuli yfirstjórn, hönnun og tæknilegri útfærslu verksmiðjunnar. Í fyrra samningi var gert ráð fyrir því að breskt fyrirtæki, þ. e. a. s. þriðji aðili, annaðist þetta. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að hinn norski meðeigandi íslendinga í verksmiðjunni hafi þessa yfirstjórn með höndum. Full ástæða er til að skoða gaumgæfilega hvort þessi háttur sé eðlilegur og hvort hann veiki ekki aðstöðu íslenska ríkisins til ákvarðana um fyrirkomulag byggingar og val tækja, svo sem hreinsitækja sem miklu varðar að séu valin þannig að engin mengunarhætta sé af.

6. gr. frv. þykir mér einnig óeðlileg, en þar er gert ráð fyrir að Alþ. veiti ríkisstj. heimild til lántöku umfram það sem gert er ráð fyrir í frv. sjálfu til stofukostnaðar verksmiðjunnar án þess að nokkur sérstök upphæð sé ákveðin, þannig standi þessi heimild alveg opin fyrir ríkisstj. hvað fjárhæð viðkemur. Mun þetta vera sett í frv. að kröfum Norræna fjárfestingarbankans sem gerði það að skilyrði fyrir lánveitingu sinni væntanlega vegna þess að hann hefur talið að stofnkostnaður verksmiðjunnar væri vanreiknaður og nauðsynlegt væri að hafa tryggingu Alþ. og ríkisvaldsins á Íslandi fyrir frekari fjárskuldbindingum til verksmiðjunnar ef á þyrfti að halda. Mörg fleiri atriði mætti gera hér að umtalsefni. En ég geri það ekki að þessu sinni.

Meginatriði þessa máls er það, sem ég hef sett fram fyrr í ræðu minni, að í vali á hagkvæmustu möguleikum til nýtingar hinnar auðugu orkulindar landsins, raforkunnar, vil ég frekar myndarlega uppbyggingu iðnaðar í landinu, sem byggi á íslenskum hráefnum, og nýtingu orkunnar til húshitunar heldur en verksmiðjurekstur eins og hér er boðið. Slíkur verksmiðjurekstur má ekki hindra þá nýtingu auðlindanna sem hagkvæmust er og ég hef gert hér að umtalsefni.

Reyndar finnst manni að ýmsir séu nú í vaxandi mæli orðnir gagnrýnir á þessa stóriðjustefnu með erlendri þátttöku, ekki þá síst kannske vegna raforkusölunnar. Þannig hefur t. d. nú verið dreift á borð þm. þáltill. tveggja framsóknarmanna sem er óánægjuvottur þeirra hv. þm. Páls Péturssonar og Ingvars Gíslasonar, en þar leggja þeir til að komið sé í veg fyrir að íslendingar þurfi að greiða niður orkuverð til orkufreks iðnaðar og óheimilt sé að gera samninga um raforkusölu til orkufreks iðnaðar nema þeir séu þannig úr garði gerðir að hagsmunir okkar á Íslandi séu tryggðir. Það kom reyndar einnig fram í ummælum Benedikts Gröndals fyrr í dag, að hann virðist nú vera horfinn frá fyrri skoðunum sínum og þá væntanlega þeir alþfl.-menn, að hagstætt sé að byggja upp áliðnað í landinu, en sem kunnugt er voru þeir dyggir fylgisveinar íhaldsins á viðreisnarárunum við að boða þá stefnu. Hann sagði — og það er vitaskuld alveg rétt hjá Benedikt Gröndal — í umr. í dag að álverksmiðjur væru nú orðnar skammaryrði á vörum fólksins í landinu, og það er gott. Hins vegar virtist víðsýni hans ekki vera nægjanleg, þannig að honum kom helst í hug annar stóriðnaður með þátttöku útlendinga, svo sem demantaverksmiðjur og e. t. v. eitthvað fleira sem hann nefndi, en hann lagði litla áherslu á nýtingu orkunnar til innlends iðnaðar og upphitunar húsa.

Ég tel að það, sem alþm. beri nú að gera, sé að fella þetta frv. Þeir eiga að færa ákvarðanirnar um framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun fram til fyrri dagsetningar og undirbúa betur hagnýtingu þeirrar orku sem Hrauneyjafoss kemur til með að framleiða. Það þarf að taka ákvörðun um byggingu nokkurra meðalstórra virkjana á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum svo að hægt sé að taka úr sambandi þær dísilvélar sem nú framleiða raforku með ærnum kostnaði fyrir þessa landshluta. Það þarf að hraða áformum um stofnlínuframkvæmdir til þess að samtengja allt raforkukerfi landsins og styrkja dreifikerfi rafveitnanna svo að grundvöllur skapist til aukinnar raforkunotkunar landsmannanna sjálfra. Það þarf að hraða áformum um húshitun með raforku, þar sem það telst þjóðhagslega hagkvæmt, og útrýma olíunotkun til þessara þarfa, setja upp stórhuga iðnþróunarverkefni til næstu 10 ára og veita íslenskum iðnaði aukinn stuðning með lánveitingum og tækniaðstoð. Þær fjárhæðir, sem nú á að verja til járnblendiverksmiðju, á að veita til þessara verkefna.

Í fátækt og við bjargarleysi átti þjóð okkar gæfu til þess á sínum tíma að reisa stór og mikil áform um uppbyggingu íslenskra atvinnuvega og framkvæma þau. Ég vil trúa því að enn sé með þjóðinni sá dugur að hún geti af eigin viti og afli séð sér farborða.