10.02.1977
Neðri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Páll Pétursson:

Virðulegi forseti. Ég er andvígur þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því. Ég var andvígur stækkun álversins í fyrra, flutti þá ítarlega ræðu um afstöðu mína til slíkra fyrirtækja. Ég var andvígur samningunum við Union Carbide í hittiðfyrra og gerði þá grein fyrir afstöðu minni. Þess vegna get ég verið stuttorður núna, en vísa til Alþingístíðinda og minnisgáfu þm.

Þetta frv. er lítið breytt frá 1975, en félaginn er annar. Bandaríkjamenn sáu við nánari athugun ekki þá gróðavon, sem þeir héldu að í þessu fyrirtæki væri, og greiddu okkur 850 millj. til að sleppa. Hvers vegna veittu Elkem-greifarnir þá biðlum iðnrn. viðtöku? Voru þeir vanari kísiljárnsframleiðslu en Union Carbide? Voru þeir fundvísari á auraþefinn? Eða stóðum við einungis svona vel við höggi? Þessari spurningu svaraði raunar forsvarsmaður Norræna fjárfestingarbankans þegar hann upplýsti alþjóð um að það raforkuverð, sem við vildum semja um, væri helmingi lægra en það sem Elkem hefði þurft að greiða ef það fyrirtæki hefði fært út kvíarnar í Noregi. Þeim hefur væntanlega verið vandi á höndum vel boðnu að neita.

Þessi verksmiðjubygging er landbúnaði til hnekkis í nágrenni sínu. Jafnvel nú þegar draga bændur saman seglin sunnan Skarðsheiðar. Mér var um daginn sagt látið kúnna í Stóra-Lambhaga. Raunar er þessari verksmiðju nauðgað upp á fólkið þarna upp frá. Um afstöðu flestallra bænda hefur aldrei verið neinn vafi. En 1975 létu ýmsir akurnesingar sjá á sér græðgisvott. Iðnaðarmenn þaðan fóru í kynnisferð til Noregs s. l. sumar og misstu lystina. Samfélög þau, sem myndast í kringum svona verksmiðjur, eru ekki samfélög heimamanna. Um það vísa ég til norskra félagsfræðikannana sem hafa verið framkvæmdar á vegum Oslóarháskóla.

Það er dýrt spaug að reisa svona verksmiðju, 19 þús. millj. Ég vek athygli á því, að þetta er talsvert hærri kostnaður en t. d. við þangverksmiðjuna á Reykhólum, sem þó var einu sinni reiknað út að væri hyggileg fjárfesting. Ég vil lesa — með leyfi forseta — úr frv. til l. um þörungavinnslu við Breiðafjörð sem lagt var fyrir Alþ. á 94. löggjafarþingi, 1973. Þar segir á bls. 4 í aths. við frv.:

„Stofnkostnaður verksmiðjunnar er nú áætlaður um 211.2 millj. kr. og er þá starfsfé ekki reiknað með. Gert er ráð fyrir niðurfellingu tolla af innfluttum vélum og tækjum, en þeir mundu nema um 15 millj. kr. við núverandi form tollskrár.

Rekstrarafkoma við full afköst mótast af sölutekjum sem áætlaðar eru nálægt 98 millj. kr., en rekstrarkostnaður er áætlaður 82 millj. kr. Rekstrarafgangur fyrir skatta yrði um 16 millj. kr., en afskriftir yrðu um 17 millj. kr.

Arðsemi fyrirtækisins verður tæplega mæld á einfaldan hátt. Átján ára rekstraráætlun gefur til kynna, að endurheimta á upprunalegri fjárfestingu verði 91/2 endurheimtutími stofnkostnaðar um 7.4 ár og innri afkastavextir fjárfestingarinnar 12%.“

Ég vil taka það fram, að ég hygg að þessi tilraun, sem gerð var á Reykhólum um nýtingu þörunga úr Breiðafirði, hafi að mörgu leyti verið eðlileg og ber að harma að útreikningar þeir, sem verksmiðjan var byggð á, og áætlanir um verksmiðjuna skyldu hafa verið svona hrapalegir.

En hér er um stærri tölur að gera við járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Þetta félag nýtur að vísu skattfríðinda og þarf líklega á því að halda. Það nýtur tolla- og söluskattsfríðinda og þarf líklega á því að halda líka. Það nýtur lækkunar á þinglýsingar- og stimpilgjöldum og ekki veitir því af. Þá verður að reisa félaginu höfn, – félaginu einu — því að öll önnur hafnarstarfsemi er betur komin úti á Akranesi. Það tekur engu tali að ætla þessari Grundartangahöfn að sitja við sömu kosti og aðrar hafnir á landinu og skerða með því hlut þeirra. Höfnin á að kosta á 9. hundrað millj. kr. og það er hér um bil jafnhá upphæð og verja á til allra fiskihafna á landinu á einu ári, eins og glögglega hefur komið fram hér í umr.

Tækniaðstoð og tækniþekking er hátt metin. Tækniþróunin er 612 millj. En búvit og rökhugsun er náttúrlega kaupandi dýru verði.

Um náttúruverndarþáttinn mætti tala langt mál, en ég ætla að geyma mér hann til síðari tíma. Nú er þó annað og raunsærra hljóð í strokknum en þegar samningurinn við Union Carbide var á döfinni. Hæstv. iðnrh. upplýsti í gær að tilraunir með endurnotkun ryks hefðu ekki gefið góða raun og verksmiðjan verði að fá leyfi til þess að losa sig við ryk. Þarna kemur haugur sem vex með tímanum og hraðar en þær dysjar sem ferðamenn kasta steinum í. Ekki vildi ég eiga þar minnisvarða.

Þá er eftir raforkusalan og um hana vil ég fara nokkrum orðum.

Ég leyfi mér að vitna til till. til þál., sem við hv. þm. Ingvar Gíslason höfum flutt. Ég harma það að hv. þm. Benedikt Gröndal hefur misskilíð till. okkar og ekki lesið grg. hennar nógu nákvæmlega. Raunar er ekki úr vegi að Alþ. varist að gera vitleysur, og mér þætti tímabært að þingflokkur Alþfl. tæki ákvörðun um að reyna nú að verjast því eftir fremsta megni að gera vitleysur. (Gripið fram í.) Já, það er ykkar mál. En í till. okkar hv. 1. þm. Norðurl. e., segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að eftirleiðis sé óheimilt að gera samninga um raforkusölu til orkufreks iðnaðar nema þeir séu þannig úr garði gerðir að tryggt sé að ætíð sé greitt meðalframleiðslukostnaðarverð fyrir heildarframleiðslu raforku í landinu, þannig að öruggt sé að íslendingar þurfi aldrei að greiða niður orkuverð til orkufreks iðnaðar.

Þessi trygging sé þannig úr garði gerð að verðlag raforku sé endurskoðað árlega og samninga sé óheimilt að gera til mjög langs tíma.

Í grg. segjum við:

„Dapurleg reynsla af samningum þeim, sem íslendingar hafa gert um sölu á raforku til orkufreks iðnaðar, gerir það brýna nauðsyn að Alþ. taki af skarið um það að þannig sé óheimilt að leggja drög að samningum. Það hefur verið leiðarljós íslenskra samningamanna að reikna út af mikilli bjartsýni orkuverð frá hverju orkuveri, sem í byggingu hefur verið, fyrir sig og gera síðan samninga til mjög langs tíma um sölu á mestallri orkunni á því verði sem þeir vonuðu að hægt yrði að framleiða hana í orkuverinu og verðjafna við eldri virkjanir sem afskrifaðar voru. Að sjálfsögðu hafa orkuverin sífellt orðið dýrari, orka frá Sigölduvirkjun dýrari en frá Búrfellsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun verður dýrari en Sigölduvirkjun og orka frá Kröfluvirkjun kann að verða nokkru dýrari í framleiðslu en ráðh. spáði þegar hafist var handa um framkvæmdir við Kröflu. Þessari þróun valda ýmsar ástæður. Verðbólga hefur verið í veröldinni, vaxtakjör sífellt óhagstæðari, hagkvæmustu virkjunarvalkostirnir væntanlega teknir fyrst, ófyrirsjáanleg atvik geta hent í náttúrunni, þannig að næsta virkjun verður dýrari þeirri seinustu.

Samningar þeir, sem gerðir hafa verið — meira að segja við fyrirtæki í eigu útlendinga, hafa verið á þá lund að raforkunotendur hafa fyrr en varir verið farnir að greiða niður raforkuverðið til stóriðjunnar. Svo er nú komið, að orkuverð til stóriðju er hér verulega lægra en í nálægum löndum, t. d. helmingi lægra en í Noregi.

Norðmenn hafa í undirbúningi löggjöf um orkusölu Statskraftverkene til orkufreks iðnaðar, og gera þeir ráð fyrir ákveðnu lágmarksverði (áætlað 6 aurar 1. 1. 1976 við stöðvarvegg) og breytist það síðan árlega samkv. kostnaðarbreytingum. (Sjá St. proposal nr. 81 1975–1976 Om pris og andre vilkår for Statskraftverkenes leveringer av kraft til kraftkrevende industri. Tilrådning fra Industridepartmentet av 9. jan. 1976, godkjent ved kongelig resolution samme dag. (Foredraget av statsråd Ingvald Ulveseth). Enn fremur

Indstilling til Stortinget nr. 211. Indstilling fra industrikomitéen fra 11. mars 1976).

Þrátt fyrir það að norðmenn ákveði lágmarksverð á stóriðjuraforku svo miklu hærra en íslendingar gera samninga um, þá er raforkuverð í Noregi samkv. upplýsingum Sambands ísl. rafveitna 11. 1. 1976 til heimilisnotkunar 5.29 kr. kwst., en á Íslandi (meðaltal á landinu) 12.54 kr. kwst. og heildsöluverð í júní 1976 miðað við 100 gwst. og 4500 stunda nýtingartíma í Noregi 1.89 kr. á móti 3.28 á Íslandi.

Flm. telja að þetta ástand sé óviðunandi og óhjákvæmilegt sé að Alþ. setji reglur sem tryggi að aldrei geti komið til þess að almennir notendur greiði niður raforkuverð til orkufreks iðnaðar og glati þannig því hagræði sem við ættum að geta haft af okkar dýrmætu orkulindum.“

Og nú hef ég lesið þessa grg. vandlega fyrir hv. þm. Benedikt Gröndal.

Í frv. á bls. 13 er vitnað til samanburðar í reglur norsku ríkisrafveitnanna frá 1962–1972 og getið um orkuverð sem ætti að taka gildi 1. júlí 1977 samkv. þeim reglum. Þær reglur eru að falla úr gildi. Kötturinn hefur verið keyptur í sekknum. Samningamennirnir virðast ekki hafa fylgst með því hvað er að gerast í Noregi. Hér er vitnað í úreltar reglur og þarna hefði mátt kaupa búvit og þekkingu.

Nú veit ég að einhver spyr um afgangsorku sem næstum er gefin. En samkv. upplýsingum orkumálastjóra er alls ekki um neina afgangsorku að ræða vegna hinna ströngu afhendingarskilyrða og nýtingartíma, heldur það sem í Noregi á að borga með 75% af forgangsorkuverði, hér 10 aura íslenska. Þá er þess að geta, að norski taxtinn er um orku við stöðvarvegg, en hér á landi er um að ræða orku sem við framleiðum við Sigöldu fyrir 2–3 kr. kwst., flytjum með ærnum kostnaði alla leið á Grundartanga og seljum á 112 aura. Það er ekki við öðru að búast en reiknimeisturum okkar verði vel til viðskiptavina úti í hinum stóra orkusveltandi heimi. Það er ekki óeðlilegt að gráðug sé sókn erlendra stórfyrirtækja í rafmagn sem selt er langt undir framleiðslukostnaðarverði. Á þetta atriði benti ég í hittiðfyrra, og augu manna eru nú óðum að opnast fyrir þessum staðreyndum. Ég nefni einungis ágæta útreikninga Gísla Jónssonar prófessors máli mínu til sönnunar.

Það er kominn tími til að stinga við fótum. Þessi þróun stuðlar ekki að æskilegri þjóðfélagsuppbyggingu. Fjárhag þjóðarinnar er illa komið og þar er glannaleg stefna í raforkumálum meginbölvaldurinn. Við rjúkum til og virkjum, ráðgerum meira að segja að reisa orkuver sem hafa óbætanleg náttúruspjöll í för með sér, við virkjum of stórt í einu og það er farið eftir röngum forsendum. Það er reiknað út að kwst. sé ódýrari úr stórum virkjunaráfanga en litlum, en orkuskammtarnir verða of stórir í einu. Þá eru gerðir samningar eins og þessi um sölu á mestum hluta orkunnar á of lágu verði. Síðan verður að okra á þeim hluta sem íslendingar kaupa. Við eigum að snúa við á þessari braut, virkja þar sem óbætanleg spjöll á landinu eru ekki unnin, virkja í hóflegum áföngum, virkja fyrir okkur sjálfa, okkur eina, leggja megináherslu á samtengingu dreifikerfisins og styrkingu þess þannig að við getum notað orkulindirnar sjálfar og dreift orkunni um landið.

Hugsjón um 20 álver í eigu útlendinga er að mínum dómi lítilmótleg. Hún er full vantrúar á landið og þjóðina. Við eigum gott land og erum nógu duglegir til þess að geta búið hér einir. Vantrúin á landið, vantrúin á sjálfan sig, kjarkleysið er hættulegra en allt annað. Rigningin hefur þvegið kjarkinn af einhverjum á óþurrkasvæðunum svo illilega að þeir ljá máls á því að grípa til örþrifaráða til þess að afla sér viðurværis eða eignast höfn. Ég treysti því nú að þurrkurinn sé kominn. Við eigum þetta góða land og við eigum að halda áfram að eiga það einir. Það er hættulegt að glata umráðarétti yfir því og fela gildustu efnahagsþættina í hendur erlendra stórfyrirtækja. Við bárum gæfu til þess að hleypa útlendingum ekki varanlega í fiskvinnslu okkar eða útgerð héðan. Þykir ykkur sennilegt að okkur hefði nú auðnast að ná fullum yfirráðum yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu ef útibúin frá breskum auðfyrirtækjum hefðu verið umsvifamikil í fiskveiðum okkar og fiskiðnaði? Ég held ekki.

Fyrir 60–70 árum var braskhneigt skáld sem ól með sér drauma um stóratvinnurekstur útlendinga á Íslandi. Hann gekk erinda þeirra við þjóð sína og náði undir þá mjög mikilvægum vatnsréttindum. Gifta okkar var slík að þessi spilaborg hrundi. Þau risaskref, sem skáldið vildi stíga í virkjunarmálum og stóriðju, voru ekki stigin. Hugleiðið það með mér litla stund, hvort sennilegt sé að hér væri betra mannlíf í dag fyrir þessa þjóð ef áform Einars Benediktssonar hefðu náð fram að ganga. Ég er þess fullviss að þá væri hér skuggalegra um að litast, þá værum við ekki sjálfstæð þjóð og þetta mönnuð. Þá væri þetta land ekki svona gott. Ég treysti því, að jafnvel þótt stóriðjuórar hafi gripið einhverja í svo ríkum mæli að jafnvel lítillega hafi verið spjallað við erlend auðfélög sem áhuga hafa á nýjum umsvifum hér, vatnsréttindum, virkjunarmöguleikum og álframleiðslu, svo sem Integral-áætlunin og Hydro-pukrið bera vott um, þá verði gifta okkar slík að þeir nái áttunum aftur. Ég óttast að þessi samningur verði samþykktur hér á Alþ., en ég heiti á hv. þm. að láta þennan stóriðjusamning verða þann seinasta af þessu tagi og fallast á sjónarmið okkar Ingvars Gíslasonar, vegna þess að svona samningar eru ekki til þess fallnir að stuðla að uppbyggingu þess þjóðfélags sem við viljum lifa í og skilja eftir handa afkomendum okkar þegar við erum dauðir.