10.02.1977
Neðri deild: 47. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Margt af því, sem hefur komið fram í þessum umr. verður tekið til athugunar og meðferðar í hv. iðnn. sem fær málið væntanlega til meðferðar. Varðandi t. d. ummæli og fullyrðingar sumra hv. þm. um orkuverð, bæði að því er snertir álverið og hina væntanlegu járnblendiverksmiðju, hefur Landsvirkjun verið beðin um grg. um þau mál sem mun verða tilbúin næstu daga og lögð fyrir iðnn. og svo að sjálfsögðu gerð heyrinkunn hér í þinginu.

Hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, síðasti ræðumaður, sagði okkur sögu af manni sem hefði drukkið heitt vatn og hefði af þrákelkni tekið meira af heita vatninu, og hann líkti mér við mann sem hefði tekið og vildi nú taka gúlsopa af heitu vatni. Það er nokkuð til í þessu, að ég hef áhuga á heitu vatni og hef haft það síðan ég bæði tók við þessu embætti og raunar löngu áður. Ég hef reynt að beita mér fyrir því að hagnýta þetta heita vatn í okkar landi í stærri stíl en áður. Ég held að á síðustu tveimur árum hafi orðið töluvert ágengt í því. Með nýjum vinnubrögðum, stórauknum rannsóknum, jarðhitaleit og með öflun stórvirkra nýrra tækja, afkastameiri en til höfðu verið áður hér á landi, hefur tekist að fá fram verulega breytingu í þessum efnum, og þær framkvæmdir, sem ýmist eru í gangi eða fyrirhugaðar til nýtingar þessa heita vatns til húshitunar, eru í rauninni miklu stærri en flest þau virkjunarmál sem mönnum verður nú tíðræddast um.

Ef við t. d. tökum Hitaveitu Suðurnesja sem ég flutti frv. um haustið 1974, var lögfest þá þegar og nú er að nokkru tekin til starfa, þá nemur afl hennar, þegar hún er fullgerð, hvorki meira né minna en 96 mw. Ef þannig er litið á málin er Hitaveita Suðurnesja um það bil jafnmikil orkustöð og Búrfellsvirkjun var í fyrsta áfanga. Ef við lítum t. d. á Hitaveitu Akureyrar, sem nú er í góðum undirbúningi og verður væntanlega framkvæmd á allra næstu árum, þá mun hún samsvara u. þ. b. 43 mw. Þannig mætti lengi telja. Þau miklu átök, sem nú eru gerð í nýtingu heita vatnsins hér á landi, eru vissulega meðal mikilvægustu framkvæmda sem íslenska þjóðin hefur með höndum.

Hv. 5. þm. Vesturl. fagnaði því mjög að eyfirðingar hefðu risið upp gegn byggingu álvers eða stóriðju þar nyrðra og síðan sagði hann: það dugði, stjórnvöld sáu að sér. — Hvaða stjórnvöld voru það sem sáu að sér eða gáfust upp á einhverjum áformum? Ekki ég. Ég hef aldrei látið í ljós neinar sérstakar óskir eða áform um að reist yrði álver í Eyjafirði. Ég hef þvert á móti, þegar farið var að ræða um þetta nýlega opinberlega, lýst því yfir að það yrði ekki, meðan ég sæti í þessu embætti, byggt álver þar gegn vilja heimamanna. Hvað á hv. þm. við? Hann veit ósköp vel að upptökin að þessu máli um álver í Eyjafirði eru frá tíð vinstri stjórnarinnar, þegar Magnús Kjartansson var iðnrh. Þá óskaði Norsk Hydro eftir að byggja álver hér á landi og var vísað á að rannsaka möguleikana á Austurlandi og Norðurlandi og var sérstaklega bent á Eyjafjörð. Þetta mál er þannig til komið, og þær athuganir, sem Norsk Hydro hefur látið fram fara, eru því eftir ábendingu iðnrh. Alþb. Ef hv. þm. þarf að vera með einhverjar sneiðar til einhverra, þá held ég að hann ætti að höggva sér nær.

Varðandi viðhorf mín til stóriðju þá hef ég nýlega gert nokkra grein fyrir þeim. Ég tel rétt — með leyfi hæstv. forseta — að rifja hér upp nokkur orð sem ég sagði 3. jan. í sambandi við undirritun lánssamnings milli Járnblendifélagsins og Norræna fjárfestingarbankans. Þar komst ég m. a. svo að orði:

„Þegar um stóriðju á Íslandi er að ræða eigum við að fara fram með gát og varfærni. Með jafnfámennri þjóð býr nokkur uggur í sambandi við erlent fjármagn og erlend áhrif sem því kunna að fylgja. Í annan stað þarf að gæta þess að stóriðja raski ekki byggð og byggðajafnvægi né dragi um of vinnuafl frá öðrum atvinnugreinum. Í þriðja lagi verður að hafa í huga að íslendingar hafa jafnan búið við hið tæra loft og hið langdræga útsýni og eru næmir fyrir öllu því er valda kann mengun lofts, láðs og lagar. Því verður að gera strangar kröfur um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að því er stefnt að þessara sjónarmiða verði gætt við þá verksmiðju sem nú er fyrirhugað að reisa.“

Ég rifja þetta upp vegna ummæla hv. 5. þm. Vesturl. sem voru gjörsamlega tilefnislaus og órökstudd í minn garð. Um leið og ég undirstrika þessi þrjú meginsjónarmið, sem ég setti hér fram, tel ég hins vegar að við eigum jafnan að skoða það vandlega í hvert sinn hvort það þjónar íslenskum hagsmunum að ráðast í stóriðju. Ég held að nú sé varla um það deilt að það hafi verið rétt spor að ráðast í þá stóriðju, sem áburðarverksmiðjan var á sínum tíma, og einnig sementsverksmiðjan. Ég held að það hafi verið rétt spor þegar samið var við svissneska álfélagið um byggingu álvers og að við þá tilraun hafi verið eðlileg og hyggileg sjónarmið að íslendingar ættu ekki þá verksmiðju að neinu leyti og tækju ekki áhættuna af þessari stóru fyrstu tilraun. Ef við lítum á álverið, þá skal ég ekki ræða orkuverðið sem þá var um samið. Eins og ég gat um verður því svarað og gerð grein fyrir því máli af hálfu Landsvirkjunar innan skamms. Hins vegar verðum við í sambandi við nýtingu okkar orkulinda og okkar efnahagskerfi í heild að meta hverju sinni hvort stóriðja, annaðhvort á vegum íslendinga eingöngu eða í samstarfi við erlenda aðila, er okkur til hags eða ekki.

Hér kemur til greina í fyrsta lagi, þar sem gjaldeyrisskortur hefur verið lengst af einn okkar helsti vandi í efnahagsmálum, að það verður að meta hvort þessi stóriðja sé líkleg til að verða okkur að gagni gjaldeyrislega. Ef við lítum yfir þau ár, sem álverið hefur starfað, verður því ekki neitað að töluverður gjaldeyrishagnaður hefur verið af því fyrir íslensku þjóðina. Frá upphafi og til ársins í ár eru það hvorki meira né minna en 24 þús. millj. miðað við núv. gengi — 24 milljarðar kr. í erlendum gjaldeyri sem við höfum haft frá þessu álveri. Þetta er eitt atriðið sem vissulega er mjög mikilvægt.

Annað atriðið er svo það, hvort stóriðja getur gert mögulegt að framkvæma stórar, hagkvæmar, ódýrar virkjanir. Það var mat manna, þegar ákveðið var að ráðast í Búrfellsvirkjun, að virkjun af þeirri stærð væri ekki möguleg nema stór notandi kæmi til, vegna þess að ella yrði ónotuð orka svo mikil að útilokað væri að slík virkjun gæti borið sig í náinni framtíð. Í þetta var ráðist vegna þess að með þessum hætti var hægt að ráðast í mjög hagkvæma virkjun sem leiddi það af sér að rafmagn til almenningsnota og þar með til innlendra atvinnuvega varð ódýrari heldur en ef þyrfti að ráðast í smærri virkjun.

Þá er vinnuaflið mál sem jafnan þarf að athuga, hvort stóriðja sé líkleg til að auka hér atvinnu. Rúmlega 600 manns hafa atvinnu við álverið.

Við þurfum að athuga að sjálfsögðu áhrif á byggð og það sjónarmið að stóriðja raski ekki byggðajafnvægi. Ég hef ekki heyrt að talíð sé að álverið hafi raskað byggð eða byggðajafnvægi í Hafnarfirði eða nágrenni. Það hefur þá farið mjög hljótt ef einhverjir hafa þær skoðanir.

Varðandi svo mengun og mengunarvarnir þá er þar um að ræða mjög alvarlegt mál. Það er ljóst að flúormengun frá álverinu er nú komin að því marki að ekki verður við unað. Í samningunum var lögð sú skylda á félagið að setja upp hreinsitæki. Það hefur dregist allt of lengi, og ekki bólaði neitt á því í tíð iðnrh. Alþb. að nein breyting yrði þar á. Á síðasta fundi, einum hinna reglubundnu funda íslendinga og fulltrúa svissneska álfélagsins, sem jafnan hafa verið haldnir frá því að álverið tók til starfa, — á síðasta slíkum fundi, sem haldinn var hér í Reykjavík í nóvembermánuði, lagði ég fyrst og fremst áherslu á eitt mál, að álfélagið gerði gangskör að því að koma upp fullnægjandi hreinsitækjum, Er ákveðið að á næstu slíkum reglulegum fundi, sem haldinn verður í næstu viku í Sviss, þá leggi félagið fram ákveðnar áætlanir með tímasetningu hvenær hafist verður handa og hvenær lokið verði uppsetningu slíkra hreinsitækja.

Þessi sjónarmið öll þurfum við að sjálfsögðu að hafa í huga, þegar, við erum að meta hvort við eigum að ráðast í stóriðju eða ekki.

Þegar nú þm. Alþb. rísa hér upp hver eftir annan og gagnrýna stofnun járnblendifélags í samráði við norðmenn, þá er því ekki að neita að þessi andstaða og gagnrýni Alþb. missir nokkuð marks þegar menn renna augum til forsögu þessa máls, og öll hneykslunaryrði þeirra út af stóriðju verða náttúrlega markleysa ein þegar athugað er hvernig þeir hafa sjálfir staðið að þessum málum.

Skömmu eftir að vinstri stjórnin var mynduð og Alþb. fékk iðnrh. haustið 1971 skipaði ráðh. nefnd til þess að eiga viðræður við erlenda aðila sem kynnu að hafa áhuga á orkufrekum iðnaði hér á landi í samvinnu við íslendinga. Það liðu ekki margir mánuðir þangað til ráðh. Alþb. þótti nauðsynlegt að setja á stofn sérstaka n. til að eiga viðræður við þessa erlendu aðila, alþjóðlegu auðhringi, eins og hv. þm. Sigurður Magnússon orðaði það áðan. Þeir áttu sem sagt að kanna hverjir hefðu áhuga á þessum málum. Ef Alþb. hefði verið því andvígt að ráðast í nokkurs konar stóriðju með útlendingum hefði aldrei komið til mála að þessi n. hefði verið sett á laggirnar með þeirra samþykki.

Síðan gerist það að þessar athuganir standa yfir í þrjú ár, viðræður við einn og sama aðila. Það var hjá hv. þm„ staðgengli Magnúsar Kjartanssonar hér, Sigurði Magnússyni, ákaflega fróðleg lýsing á hinum fjölþjóðlegu auðhringum, og ekki var nú friður flokkurinn eftir þeirri lýsingu. En það var einmitt einn þessara fjölþjóðlegu auðhringa sem ráðh. Alþb. valdi sér til samstarfs og var á sífelldum fundum með og samstarfi í þrjú ár. Allan þann tíma, sem vinstri stjórnin sat að völdum, voru viðræður milli Magnúsar Kjartanssonar iðnrh. í umboði stjórnarinnar við þennan auðhring, Union Carbide. N. sú, sem hann kom á laggirnar, viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, hafði þær viðræður að verulegu leyti með höndum, en gaf honum að sjálfsögðu jafnan skýrslu um framgang mála og fékk samþykki hans varðandi það, hvernig að málum var staðið.

Nú segir hv. þm. Sigurður Magnússon, að drög að samningi um járnblendiverksmiðju við Union Carbide hafi verið undirbúin, þau hafa legið fyrir í ársbyrjun 1974, en þessi drög voru þó aldrei tekin til frekari meðferðar. Sem sagt, eftir ársbyrjun 1974 voru þessi drög lögð til hliðar, aldrei tekin til frekari meðferðar, og rökin fyrir því voru þau, að þá hafi verið komið gjörbreytt viðhorf vegna olíukreppunnar.

Nú vill svo til að það gerist 21. maí — ekki í ársbyrjun, heldur 21. maí 1974, að iðnrh. Alþb. Magnús Kjartansson, ritar J. C. Malone varaforseta Union Carbide bréf þar sem hann segir m. a.:

Ríkisstj. Íslands hefur nú um nokkurt skeið haft til meðferðar drög að samningi milli ríkisstj. Íslands og Union Carbide um sameignarfyrirtæki til að reisa og reka kísiljárnbræðslu á Íslandi. Þessar till. hafa verið ræddar ítarlega undanfarna mánuði í stjórnarflokkunum.“

Alþb. var með. Hann skýrir frá því, að forsrh. og hann hafi „notið þeirrar ánægju að hitta fulltrúa yðar og ræða við hann um framgang þessa sameiginlega fyrirtækis okkar“. Hann segir, að hin óvissa stjórnmálastaða á Alþ. undanfarnar vikur hafi valdið því, að honum hafi þótt „óráðlegt að leggja fyrir Alþ. frv. um járnblendiverksmiðjuna á þeim tíma sem við höfðum upphaflega áformað“. Eins og menn muna komu stjórnmálaerfiðleikar upp sem urðu þess valdandi að þing var rofið 8. maí.

Það, sem hv. þm. sagði, er því algjörlega rangt. Mér þykir ákaflega leitt að þessi ungi þm., Sigurður Magnússon, skuli hafa látið Magnús Kjartansson, hv. þm., nota sig til þess að flytja mál sitt eins og hann gerði hér, því að það er ekki aðeins í þessu efni, heldur mörgum öðrum þar sem var um algjörlega rangar staðhæfingar og upplýsingar að ræða.

Staðgengill Magnúsar Kjartanssonar segir að þessi drög hafi verið lögð til hliðar í ársbyrjun 1974, ekki rædd frekar. 21. maí skrifar Magnús Kjartansson þetta bréf, þar sem hann segir að málin hafi verið til umr. í stjórnarflokkunum þá undanfarna mánuði. Síðan segist hann, þar sem þing hafi nú verið rofið og hann gat ekki lagt fram frv. eins og hafði verið áformað í viðræðum hans við Union Carbide, vilja „fullvissa yður um, að ríkisstj. og ég sjálfur erum þeirrar skoðunar að ákvæði og skilmálar, sem rætt hefur verið um við yður, eru aðgengileg í öllum meginatriðum og að við höfðum og höfum enn sterkan og áframhaldandi áhuga á framkvæmd þessara áforma sem allra fyrst“. Hann segist harma það að þessi dráttur skuli verða, en hann lætur í ljós þá von að málið verði tekið upp eins fljótt og unnt sé eftir komandi kosningar.

Ég skal taka það fram, að hér hefur því verið yfirlýst af formanni Alþb. áður, að Alþb. hafi aldrei samþ. járnblendiverksmiðjuna, og ég reyni það ekki. Ég dreg ekki í efa að ekki hafi verið gerðar formlegar samþykktir. En ætli þm. Alþb. hafi verið ókunnugt um það í þrjú ár að iðnrh. bandalagsins hafði haustið 1971 skipað n. til þess að eiga viðræður við erlenda aðila sem kynnu að hafa áhuga á stóriðju hér á landi? Skyldi Alþb. hafa verið ókunnugt um það, að í 3 ár hafi Magnús Kjartansson ásamt n. sinni staðið í beinum samningum við Union Carbide um að koma hér upp járnblendiverksmiðju? Það má vel vera að það sé rétt og ég rengi það ekki, að engin formleg samþykkt um stuðning við málið hafi verið samþ. í Alþb., en eitthvað hlýtur þeim að hafa verið kunnugt um þetta mál. Ég trúi því ekki að slíkt sambandsleysi hafi verið við ráðh., sem var einn áhrifamesti talsmaður bandalagsins, öll þessi ár á þingi eins og þetta gæti gefið til kynna.

Það er e. t. v. rétt að rifja hér einnig upp annað. Það var í janúarmánuði 1974, þegar umr. voru hér á Alþ. um frv. sem ríkisstj. flutti um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall, að þá spurði einn þm. þáv. iðnrh. að því, hvort það væri stefna ríkisstj. að ekki skyldi rísa stóriðnaður á Norðurlandi. Því svaraði Magnús Kjartansson, ráðh.: „Hv. þm. minntist á hvort það væri stefna ríkisstj. að ekki skyldi rísa upp stóriðnaður á Norðurlandi, ekki orkufrekur iðnaður.“ (Gripið fram í: Hvenær var það?) Þetta er 30. jan. 1974. (Gripið fram í: Hvaða þm. var það?) Ég veit það ekki. Ég hef það ekki í þessu plaggi. Mér finnst að það skipti ekki máli hvaða þm. það var. Það, sem skiptir máli, er svar ráðh. Hann segir: „Því fer mjög fjarri“ — að það sé stefna stjórnarinnar að ekki risi upp orkufrekur iðnaður á Norðurlandi. „Ég tel það vera ákaflega mikilvægt atriði að meiri háttar fyrirtæki af slíku tagi rísi ekki aðeins hér á Suðvesturlandi, heldur einnig á Norðurlandi og Austfjörðum þar sem aðstæður eru hentugar til þess. Og þær aðstæður eru vissulega hentugar bæði á Norðurlandi og á Austfjörðum.“ Síðan talar hann um virkjunarmöguleika í þessum landshlutum, nefnir Dettifossvirkjun og segir að það sé að henni komið, — „þá virkjun yrði greinilega að tengja við einhvern orkufrekan iðnað sem mundi þá að eðlilegu rísa á Norðurlandi.“

Þegar maður athugar þessa sögu, þá verður manni auðvitað spurn: Hvernig stendur á þessum látum í hv. þm. Alþb. út af járnblendiverksmiðjunni, þar sem þeir voru í þrjú ár að sjálfsögðu með Magnúsi Kjartanssyni að fjalla um þetta mál? (Gripið fram í.) Alltaf á móti. Var allur flokkurinn á móti því? (Gripið fram í: Eins og hann lagði sig.) Allur flokkurinn var á móti, segir hv. þm. Garðar Sigurðsson, en vissi þó um það að ráðh. hans var í þrjú ár að berjast fyrir málinu. Ég fæ þetta dæmi ekki til að ganga upp. Þeir verða auðvitað að gera það upp við sjálfa sig. En að sjálfsögðu er nánast brosleg þessi andstaða, þessar hrókaræður hv. þm., hneykslun þeirra á stóriðjuhugmyndum, hneykslun þeirra á járnblendiverksmiðju sem ráðh. þeirra hafði lengi undirbúið og var búinn að samþ. og lýsti yfir harmi sínum yfir því, að vegna þess að þing var rofið skyldi hann ekki geta lagt frv. fyrir þingið.

Hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, sem flutti hér í gær mjög ítarlega ræðu, varði miklu af sínum ræðutíma til að ræða um orkuverðið. Út í það ætla ég ekki að fara hér. Við skulum bíða með þær umr. þangað til svör og skýrslur Landsvirkjunar liggja fyrir um það mál. En hv. þm. sagði að ég væri afskaplega glaður virkjunarmaður, eins og hann komst að orði, og ég skal viðurkenna að ég hef áhuga á virkjunum. Þegar hv. þm. heldur svo áfram, þá fer hann að gagnrýna virkjunarleyfi fyrir Hrauneyjafossi. Hann sagði að það væri þvert ofan í yfirlýsingar fyrir jól. Ég kannast ekki við þær yfirlýsingar, a. m. k. hef ég ekki gefið neinar yfirlýsingar neitt í þá átt. Mér er ekki kunnugt hvað hv. þm. á við. En hann telur að virkjunarleyfi fyrir Hrauneyjafossi hafi verið gefið vegna fyrirætlana um stóriðju, virkjunin sé tengd stóriðju. Í annan stað taldi hann að hún væri allt of stór. Nú er það dálítið einkennilegt, að í rauninni svaraði hv. þm. Sigurður Magnússon þessu, því hann benti á að eftir orkuspám yrði hér aflskortur 1980–1981, taldi jafnvel að það gæti orðið fyrr eða 1979, og mér skildist á honum að ég hefði verið helst til seinn að veita þetta virkjunarleyfi. Það er nú ágætt að þeir eigist við um þetta, flokksbræðurnir. Aðalatriði málsins er að það var óhjákvæmilegt að veita nú leyfi til þess að hefja undirbúning útboðs fyrir Hrauneyjafossvirkjun. Svo er nefnilega mál með vexti, eins og Sigurður Magnússon sagði, að orkuspár benda til þess að hér verði aflskortur í síðasta lagi árið 1981. Þá er Sigölduvirkjun að fullu notuð. Til þess að ekki lendi í hreinum vandræðum og orkusvelti verður auðvitað nú þegar að hefjast handa.

Hrauneyjafossvirkjun er nauðsynleg vegna almenningsnotkunar. Þó að engin stóriðja kæmi til á næstu árum var engu að síður óhjákvæmilegt að veita leyfi fyrir Hrauneyjafossvirkjun nú eins og gert var.

Þá hafa tveir þm. a. m. k. talið þau vinnubrögð ámælisverð að málíð skyldi ekki lagt að nýju fyrir Alþ. þegar ljóst var að Union Carbide mundi ganga úr skaftinu. Ég get ekki fallist á þetta sjónarmið. Ég veit ekki almennilega hvernig menn hugsa sér að málið hefði þá átt að bera að á Alþ. Áður en Union Carbide ákvað endanlega að hætta og þegar við töldum líkur til þess að þeir mundu draga sig út úr, þá töldum við sjálfsagt að hafa fyrra fallið á og kanna aðra möguleika. Mer er ekki alveg ljóst hvernig hefði átt að leggja málið fyrir Alþ. á þeim grundvelli, að líklegt væri að Union Carbide mundi hætta, og spyrja Alþ. hvort það vildi leyfa að kanna hvort einhverjir aðrir aðilar einhvers staðar í heiminum væru tilbúnir til samstarfs. Slík vinnubrögð er ekki hægt að viðhafa í þessum efnum. Í stað þess að telja þessi vinnubrögð ámælisverð, þá held ég að ætti frekar að telja þau þakkarverð, að um leið og líkur voru til að þessi aðili drægi sig til baka var gert tvennt í senn: annars vegar að krefja hann skaðabóta, þannig að íslendingar yrðu algjörlega skaðlausir af þessum skiptum, og það tókst með samningunum í júní um 850 millj. greiðslu frá þeirra hendi, og samtímis var kannað hjá þessu viðurkennda og virta norska fyrirtæki, sem áður hafði kynnt sér mál hér og óskað eftir samstarfi um að vísu aðra tegund málmvinnslu, hvort það væri til þess búið að hlaupa þarna í skarðið. Ég held að viðræður um slík mál hafi ekki verið hægt að leggja fyrir fram fyrir Alþ. til umr. og atkvgr. Mér er ekki heldur kunnugt um að þegar fyrrv. ríkisstj. og iðnrh. Alþb. voru að semja við Union Carbide hafi hann lagt það mál fyrir Alþ., hvorki í byrjun, hvort hann mætti hefja viðræður við þá, né á síðari stigum. Ég held að hann hafi aldrei lagt þau mál fyrir Alþ. eða leitað heimildar, ekki einu sinni gefið Alþ. skýrslu um, hvernig þessar viðræður stóðu, þessi þrjú ár.

Ég held að með þessum hætti, með því að kanna viðhorf Elkem-Spigerverket, kanna hvort hægt væri að ná samningum við þá aðila, ganga frá þeim samningum, auðvitað að áskildu samþykki Alþ., undirbúa eins og gert hefur verið fjáröflun til þessa fyrirtækis, hafi verið rétt að farið og séu ekki rök fyrir því að telja þau vinnubrögð ámælisverð.

Ég skal, hæstv. forseti, ekki fara frekar út í þessi mál nú. Eins og ég tók fram í upphafi máls míns verða þessi mál rædd og ýmsar skýrsíur og upplýsingar lagðar fyrir iðnn. og kemur þá að sjálfsögðu fyrir hv. deild að nýju við 2. umr. málsins. En ég vil aðeins út af ummælum hv. 5. þm. Vestf., Karvels Pálmasonar, um Orkubú Vestfjarða leiðrétta misskilning hjá honum. Hann segir að frá því að lögin voru afgreidd hér á s. l. vori um Orkubú Vestfjarða hafi verið legið á því máli og ekkert gerst né sé að gerast. Þetta er alger misskilningur. Að þessu máli hefur verið unnið og í það lögð mikil vinna. Áður en Orkubúið er formlega stofnað hefur þurft að gera margvíslegar kannanir á fjárhagsstöðu, eignum og skuldum bæði rafveitna á Vestfjörðum og Rafmagnsveitna ríkisins að því er Vestfirði varðar. Að þessu hefur verið unnið og er þetta mál að komast á lokastig. Þetta hefur kostað tíma og vinnu. Einnig hafa verið haldnir nokkrir fundir með fulltrúum vestfirðinga um þetta mál, sem ég hélt að hv. þm. hefði verið kunnugt um. Það er á misskilningi byggt að ekkert hafi verið gert í þessu máli. Það hefur verið unnið að því, og ég vonast til þess að það sé að komast á lokastig.