14.02.1977
Neðri deild: 49. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið til umr. á meðal almennings um tæplega tveggja mánaða skeið. Í allri þessari umr., sem birst hefur í ýmsum fjölmiðlum, hefur mér oft dottið í hug alkunn vísa, sem er svona:

Lastaranum líkar ei neitt,

lætur hann ganga róginn.

Finni hann laufblað fölnað eitt,

þá fordæmir hann skóginn.

Mér hefur fundist umr. einkennast af þessu, að ef menn hafa fundið eitthvert eitt atriði, sem snertir viðkomandi gagnrýnendur, eitthvert eitt atriði sem ekki fellur þeim í geð í frv., þá sé frv. dæmt ómögulegt. Gagnrýnin frá talsmönnum þessara ýmsu hópa í þjóðfélaginu, gagnrýni á þá liði, sem snerta þá, hefur verið með þessu markinu brennd, og ef í frv. er einhverju hróflað sem ekki fellur viðkomandi hópi í geð, þá er sem sagt frv. dæmt óhæft og þær óskir eða kröfur settar fram að það nái alls ekki fram að ganga.

Hverjir eru það nú sem svona tala? Ég fullyrði að það eru í mörgum tilvikum þeir hinir sömu og hvað harðast hafa gagnrýnt gildandi skattalög og það í flestum tilfellum með réttu. Ég tek það þó fram, að gagnrýni frá einstökum hagsmunahópum er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þegar viðkomandi hópi þykir að sér vegið og ef gagnrýnin þá takmarkast við þau atriði frv. sem snerta viðkomandi hópa. En þegar jafnframt er kveðið á um að frv. í heild sé ótækt, þá finnst mér að þessi gagnrýni sé farin að bera nokkurn keim af lýðskrumi. Og þetta á alveg sérstaklega við um yfirlýsingar ýmissa þm. hv. Mér finnst eins og það sé einhver framboðskeimur af ýmsum þeim yfirlýsingum sem við höfum séð að undanförnu.

Mér finnst óneitanlega líka leitt til þess að vita, að umr. um svo viðamikið mál sem þetta, sem hér er á ferðinni, skuli að nokkru leyti hafa drukknað í hávaða út af einu atriði, þ. e. skattlagningu hjóna. Skattlagning hjóna er vissulega mikilvægur þáttur og viðamikill í þessu frv., en aðrir þættir kunna samt að eiga skilið jafnmiklar umr. engu að síður. Enn aðrir gagnrýnendur þessa frv. afgreiða það með því að segja að fyrst frv. feli ekki í sér almenna skattalækkun, þá beri að hafna því. Þetta sýnist mér vera fávíslegt tal, og ég nefni í því sambandi þann einfalda hlut, að tölum í þessu frv. er að sjálfsögðu hægt að breyta ef meiri hl. er fyrir því hér á hv. Alþ. En áður en við förum að tala um tölur, þá ber okkur að ræða um markmiðin, síðan um leiðirnar sem við skulum fara að þeim markmiðum.

Meginstefnuatriðum þessa frv. hefur verið lýst. Ég legg áherslu á þessi atriði:

Í fyrsta lagi er það markmið að einfalda skattalögin. Leiðir að því marki eru margar. Þessar eru m. a. valdar í frv.: Tekjuskattsgrunnur er færður í svipað horf og gildir um útsvar. Ég held að það sé vart deiluefni að þetta beri að gera. Leið að þessu marki er svo niðurfelling frádráttarliða og upptaka afsláttarkerfis. Í öðru lagi nefni ég skattlagningu hjóna. Í þriðja lagi að skattmeðferð þeirra, sem fást við atvinnurekstur, er breytt. Í fjórða lagi nefni ég einföldun fyrningarreglna. Í fimmta lagi breyttar reglur um skattlagningu söluhagnaðar. Í sjötta lagi nefni ég framkvæmdakaflann, sem er ekki hvað minnst mikilvægur. Og í sjöunda lagi nefni ég svo það, að með frv. er gerð tilraun til þess að ná meira réttlæti í skattlagningunni heldur en hægt er að ná við núgildandi lög.

Um þessi atriði ber að ræða hér á hv. Alþ. í stað einhvers slagorðaglamurs sem allt of mikið hefur borið á. Við eigum fyrst að ræða það og kanna hvort samstaða náist um meginmarkmiðin, síðan hvort frv., eins og það er lagt fyrir, varði veginn að þessum markmiðum. Ef það gerir það ekki, þá er því aðeins tækifæri til að ná settu marki að þm. leggi þá vinnu fram sem þarf til þess að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á frv. Það er verkefni þn. og síðan þingsins í heild. Leiðin er ekki sú að hafna frv. vegna einhverra einstakra vankanta sem á því kunna að vera, eins og óskir hafa komið fram um, jafnvel frá sumum hv. þm. Það er ekki rétta leiðin að gefast upp vegna gagnrýni, sem fram hefur komið, og segjast ætla að taka þráðinn upp aftur á næsta þingi.

Parkinson segir einhvers staðar í lögmáli sinu að málin leysist á þeim tíma sem er til umráða. Tíminn, sem við höfum til umráða, er til vorsins, og sá tími er nægur til þess að frv. fái vandlega meðferð og þennan tíma eigum við að nota vel.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson spurði hér í umr. í fyrri viku hvort ríkisstj. styddi yfirleitt þetta frv., jafnvel hvort hæstv. fjmrh. styddi eigið frv. Auðvitað svara ráðh. fyrir sig. En ég verð að segja að engum ætti að vera það kunnara en hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, að stjfrv. geta tekið breytingum, jafnvel og ekki síður þótt þau séu lögð fram án undangenginnar atkvgr. í ríkisstj., sem mér skilst að stundum hafi komið fyrir í þeirri ríkisstj. sem hann átti sæti í. Og ráðh. geta áreiðanlega greitt atkv. með slíkum breytingum án þess að missa andlitið.

Ég vek athygli á því með hvaða hætti þetta frv. er lagt fram. Það er lagt fram hér skömmu fyrir þinghlé, fyrir síðustu jól. Það er lagt fram án þess að það sé búið að binda einn eða neinn af stuðningsmönnum stjórnarinnar. Það er lagt fram með lýðræðislegum hætti. Hverjum þm. er gefið tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri við meðferð málsins á þingi. Þetta er sú eðlilega aðferð sem á að viðhafa, ekki síst um svo viðamikil mál sem skattamálin eru. Of oft held ég að það hafi komið fyrir að frv. eru raunverulega afgreidd í þingflokkunum og þá náttúrlega sérstaklega í stjórnarflokkunum. Síðan koma þau fyrir þingið og eftir það er ekki við neinn að tala, frv. skuli svona fram. Þetta er ekki aðferðin sem beitt er við þetta frv.

Ég hefði gjarnan viljað fara nokkrum orðum um ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar. Því miður er hann ekki staddur hér í þingsalnum, ég skal þá takmarka mig við nokkur atriði sem hann nefndi. Annars var alveg ótrúleg teygja í þessari ræðu, og satt að segja var ég jafnnær, eftir að hann flutti hana. hver væri afstaða hans til frv. Þegar hann hafði rætt eða talið upp aðalatriði frv., eins og frá þeim er sagt í grg., þá segir hann að þetta sé fjarri því að vera nægilegt, önnur og stærri atriði komi til greina sem ekki sé fjallað um að neinu leyti. En ég komst ekki að því hvaða atriði þetta voru. Þau voru ekki nefnd í ræðu hv. þm.

Frv. tekur raunverulega á öllum meginþáttunum, þeim sem ég nefndi hér áður og hv. þm. reyndar rakti líka. Hann kvaðst sammála sumum þeirra, aðrir væru vafasamir. En hann nefndi ekki þau atriði sem frv. fjallar ekki um og honum sýnast svo mikilvæg. Að vísu sagði þm. að fyrst og fremst hefði átt að glíma við að breyta lögunum þannig að þeir, sem ekki greiða nú tekjuskatt, gerðu það, og nefndi til eitthvað um 500 fyrirtæki í Reykjavík sem engan tekjuskatt borgi. Þetta virtist mér vera meginmarkmið hjá hv. þm., að koma fyrirtækjunum endanlega á hausinn með enn meiri skattpíningu, í stað þess að búa þannig að atvinnurekstrinum í landinu að hann geti greitt skatta, þ. e. hafi hagnað, sem skattur greiðist af, og veiti þar með þegnunum örugga vinnu. Þetta virðist mér vera ríkara áhugamál hv. þm. en að færa skattbyrðina milli einstaklinganna í réttara horf.

Mér finnst raunverulega ólíkt hv. þm. Lúðvík Jósepssyni að tala svona. Hann er eini þm. Alþb. sem eitthvað þekkir til atvinnurekstrarins, og við önnur tækifæri hefur hann talað allt öðruvísi. Reyndar gerði hann það síðar í ræðunni, og ég kem kannske að því síðar. (Gripið fram í: Er þetta ekki vafasöm fullyrðing?) Hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni? (Gripið fram í: Hjá þér?) Ég var að taka hér upp orð hv. þm., þannig að það er enginn vafi á því að það var rétt eftir haft. Annars er ekki ætlun mín að fara að rekja í smáatriðum hvað hv. þm. sagði. Ég virði hann fyrir það sem hann sagði sem þm. stjórnarandstöðu, að hann sá þó einhverja glætu í frv. Það er meira en ýmsir aðrir hafa séð.

T. d. lýsti hann sig samþykkan þeirri viðleitni að samræma álagningarstofn tekjuskatts og útsvars og vildi reyndar ganga lengra en gert er í frv., og undir það get ég tekið. Ég teldi mjög æskilegt ef hægt væri að gera þessa álagningarstofna að einum stofni fyrir hvort tveggja.

Hann er einnig samþykkur því stefnumarki frv. að breyta skattmeðferð einstaklinga í atvinnurekstri. Ég er einnig sammála því stefnumiði frv. Þetta er hins vegar það atriði sem hvað mestri gagnrýni hefur valdið, og þetta er það atriði í gildandi skattalögum sem hvað mestri óánægju hefur valdið og hefur valdið misskiptingu skattbyrða milli einstaklinga. Ef þessi leið, sem frv. gerir ráð fyrir, verður valin, þá legg ég áherslu á að það þarf að liggja fyrir vissa um hvernig þessi atriði verði framkvæmd. Með þessu er mikið vald fært í hendur skattstofanna í landinu, og það er ekki hver sem er fær um að fara með þetta vald. Þess vegna legg ég áherslu á það, að áður en þetta atriði frv. verður samþ., liggi ljóst fyrir hvernig framkvæmdin verður.

Ef menn hins vegar fallast ekki á þessa leið, þá verða menn að hafa á takteinum aðrar till. Þær hafa ekki komið fram til þessa, ekki heldur hjá þeim sem gagnrýnt hafa þetta atriði frv. Kannske er til sú leið að rýmka heimildir skattalaga í þá átt að áætla mönnum tekjur, og kannske er svo sú leið að gefast einfaldlega upp og viðurkenna að við búum við harla góðar reglur í þessum efnum. Ég vona að þingið gefist ekki upp við þetta verkefni, þótt erfitt sé, og tek þar undir með hv. þm. Lúðvík Jósepssyni.

Þm. taldi einnig réttmætt að fara þá leið varðandi skattlagningu á söluhagnaði af lóðum og löndum sem frv. gerir ráð fyrir, en bætti svo við — hann var einnig að ræða um fyrningarnar, — að með varúð þyrfti að fara í skattlagningu í sambandi við atvinnureksturinn. Þarna kom sem sagt svolítið annað upp á teninginn heldur en þegar hann var að tala um fyrirtækin 500 í Reykjavík sem engan tekjuskatt greiddu. Ég leyfi mér að ætla að þetta hafi þm. meint, en ekki hið fyrra sem hann sagði um þetta.

Ég er fylgjandi því að teknar verði upp reglur um skattlagningu söluhagnaðar af lóðum og löndum. Þær reglur, sem við búum við, eru algerlega óhæfar, þ. e. a. s. að hafa þarna fullt skattfrelsi á. En ég get ekki látið vera að tjá skoðun mína um það, að mér þykir vafasamt að ríkið sé að ásælast þarna nýja tegund skattstofns. Ég teldi miklu eðlilegra að þessi skattur rynni til sveitarfélaganna. Hjá ýmsum þjóðum er sérstök löggjöf um þetta, hinn svokallaða „eapital-gain“-skatt, og ég tel mjög æskilegt, að þetta atriði verði sérstaklega kannað.

Um sérsköttun hjóna hafa orðið miklar deilur, og ég skal ekki fara um þann þátt mörgum orðum. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði að breyting sú, sem frv. gerir ráð fyrir, væri nánast hlægileg og þá væri vægt til orða tekið. Mér hafa satt að segja ekki þótt viðbrögð manna vera í þá áttina, að þetta væri hlægilegt, þvert á móti væri hér um mjög alvarlegt mál að ræða og engum væri raunverulega hlátur í huga. Ég vil aðeins um þetta segja, að ég hef tekið það svo að alger sérsköttun væri nánast ómöguleg nema þá að skatturinn væri flatur skattur með engum eða útborganlegum afslætti. Raunverulega er það ekki heldur það sem um hefur verið beðið af hálfu þeirra sem vilja sérsköttun, heldur er talað um sérsköttun með millifærslu ónýtts persónuafsláttar, sem mér sýnist vera aðeins annað form á samsköttun, sem hins vegar er ekki mjög vinsælt orð nú um stundir. En með reglu frv. næst niðurstaða sem kveður á um meira jafnræði milli heimila, án tillits til þess hvernig teknanna er aflað. Þetta sýnist vera hlutlaus aðferð.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason gerði hér grein fyrir till. sem þm. Alþfl. munu flytja nú við 1. umr., og að sjálfsögðu verður þessi till. könnuð í n., sem fær frv. til meðferðar, eins og málið í heild. Hv. þm. Svava Jakobsdóttir benti hins vegar á fyrri till. Alþfl. um þetta efni og fór þá mesti glansinn af stefnu flokksins við þá uppljóstrun. En engu að síður verður till. að sjálfsögðu athuguð í n. Og mér finnst eðlilegt að n. kanni sérstaklega viðhorf hinna ýmsu samtaka kvenna sem láta þetta mál alveg sérstaklega til sín taka. Satt að segja líst mér ekkert á það ef Alþ. með sinn mikla meiri hluta karlmanna ætlar að fara að setja reglur í lög sem eru í andstöðu við vilja allrar kvenþjóðarinnar. Ég held að við hljótum að verða að athuga þetta af mikilli alvöru.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði um þetta, að hún teldi að það yrði erfitt að komast út úr þessari reglu, sem frv. gerir ráð fyrir, ef hún yrði sett á, og vill þess vegna ekki neina valkosti, sem ég hef að vísu ekki heyrt sérstaklega nefnda. En ég held að það sé varla erfitt að komast út úr slíkri reglu ef hún er svo slæm sem látið er í veðri vaka. Og mér sýnist satt að segja líka að það ætli að verða erfitt að koma reglunni inn, þannig að við þurfum kannske ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu. En varðandi það, sem hv. þm. sagði um útreikninga á þeim kostum, sem eru kannske í boði varðandi skattlagningu hjóna, þeirra útreikninga verður að sjálfsögðu aflað í n. og þm. geta fengið þá í hendur.

Um frádráttarliðina, sem nú er breytt í afsláttarkerfi, hefur ýmislegt verið rætt og ég skal ekki fara mjög mörgum orðum um þá. Ég fullyrði aðeins að frádráttarliðir samkv. gildandi skattalögum valda misræmi og óréttlæti. Það er hægt að nefna dæmi um hjón sem hafa 2–2.2 millj. kr. í tekjur og þessi hjón geta haft í tekjuskatt á bilinu frá 0 og upp í 380 þús. kr., allt eftir því hvernig frádráttarliðirnir nýtast. Afslættir, eins og gert er ráð fyrir í frv., nýtast hins vegar öllum jafnt sem á annað borð ná reiknuðum skatti, en frádrættir nýtast þeim mun betur þeim sem eru í hærri skattþrepum. Þannig er hægt að fullyrða að afsláttarkerfið, sem gert er ráð fyrir að taka upp, sé réttarbót fyrir láglaunafólk fyrst og fremst.

Það hefur reyndar verið gagnrýnt sérstaklega að fella niður sem frádráttarliði suma þessara liða og þá kannske fyrst og fremst sjómannafrádráttinn sem er í gildandi lögum. Ég held satt að segja að það sé of mikið gert úr þessu og menn athugi ekki hvaða upphæðir er um að ræða. Sjómannaafslættinum samkv. 5. tölul. 64. gr. frv. er ekki mjög mikið breytt, eftir því sem útreikningar sýna. Aftur á móti 6. tölul., sem fjallar um fiskimannafsláttinn og er gert ráð fyrir að verði 3% af beinum tekjum, þýðir nokkra skerðingu frá því sem er. Nú eru 10% dregin frá tekjum. Ef við tökum lítið dæmi sjáum við betur um hverjar tölur er að ræða. Tökum dæmi um sjómann sem hefur 3 millj. kr. í tekjur. Það er kannske lágt, ég treysti mér ekki til að meta það. Sumum finnst nokkuð gott að hafa 3 millj. kr. í tekjur. Ég veit að þm. þætti það, ef þeir hefðu það, en það er önnur saga. Samkv. gildandi lögum fær sjómaðurinn 300 þús. kr., 10%, frádrátt frá þessum tekjum sínum, og hann er í 40% skattstiga sem þýðir 120 þús. kr. lækkun á skatti vegna fiskimannafrádráttarins. Þessi 3%, sem frv. gerir aftur ráð fyrir, þýða 90 þús. kr. Sem sagt, þetta hagræði sjómannsins skerðist um 30 þús. kr. Þetta er vissulega skerðing. En tölurnar eru þessar, og ég hygg að það sé gagnlegt fyrir menn að gera sér grein fyrir því líka. En þessa tölu má að sjálfsögðu lagfæra ef mönnum sýnist svo, að í stað 3% komi þá 4%. Það mundi þýða óbreytta reglu frá því sem er. Þetta þarf að sjálfsögðu að kanna í nefnd.

Ég held að ég fari ekki frekar út í umr. um þetta frádráttar- og afsláttarkerfi, það fer of mikill tími í það. En aðeins langar mig til að koma hér að atriði sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson nefndi í ræðu sinni. Hann rakti hér mjög skilmerkilega, hverjar breytingar hefðu orðið á tekjuöflun ríkisins síðustu árin. Þar kom greinilega fram að hlutur tekjuskatta í tekjuöfluninni hefur minnkað til mikilla muna, en hlutfall óbeinna skatta vaxið að sama skapi. Þetta er sú stefna sem fylgt hefur verið að undanförnu, og þess vegna er óþarfi fyrir hv. þm. Lúðvík Jósepsson að hafa mörg orð um það, að okkur skorti stefnumörkun í skattamálum.

Alþfl. hefur gert um það till. að tekjuskatturinn verði felldur niður. Þær till. hafa að vísu nokkuð breyst hjá Alþfl. Fyrir tiltölulega skömmu var Alþfl. með till. um að tekjuskatturinn yrði algerlega lagður niður. Það þykir ekki góð latína í dag, og nú er talað um að leggja tekjuskattinn niður á öllum lægri tekjum, en halda honum hjá hátekjumönnum. Þetta er nokkur breyting frá því sem var. En ég bendi á það, að tekjuskatturinn er eini skatturinn sem við nú höfum og er „prógressívur“. Það má segja að við höfum áður haft annan, meðan við bjuggum við aðra tollalöggjöf og miklu hærri tolla. Þá má segja að þar hafi að nokkru leyti verið um „prógressívan“ skatt að ræða líka. En svo er ekki lengur.

Þarna kemur fram nokkur ágreiningur á milli stjórnarandstöðuflokkanna. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði beint í sinni ræðu að hann teldi varhugavert að fella tekjuskattinn niður, og reyndar sagði hann að hann vildi að ríkið tæki meira í tekjuskatti heldur en það gerði. Þetta er í algerri andstöðu við það sem Alþfl. vill. En látum það vera.

Ég vil aðeins í sambandi við þessar umr. um tekjuskattinn og mikilvægi hans nefna hér örfáar tölur sem sýna hver skattlagningin raunverulega er.

Við höfðum á síðasta ári rúmlega 106 þús. framteljendur. Þar af voru skattlausir 55 500 eða meira en helmingur. En af 51 300 greiðendum eru 15 550 með innan við 5% í tekjuskatt af brúttótekjum sínum, en tæplega 42 400 greiða innan við 15% af brúttótekjum sínum. Tæplega 9000 gjaldendur greiða aftur meira en 15%, og þeir hafa tekjur á bilinu frá 1 millj. og yfir 6 millj. Þetta eru staðreyndir sem óþarfi er að deila um og liggja fyrir.

Aftur á móti ber að fagna því að Alþfl. vill veita atbeina sinn til þess að lækka ríkisútgjöldin. Stundum hefur hann verið kenndur við annað og viljað meiri ríkisumsvif en aðrir flokkar. E n þessu ber að fagna. Hins vegar er tekið skýrt fram að það komi ekki til mála að spara á þeim liðum þar sem varið er fé til félags-, heilbrigðisog menntamála. Ýmsir mætir hagfræðingar hafa bent á að þessir liðir séu einhver mesti verðbólguhvatinn sem þekkist. En þarna má sem sagt ekkert spara.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessi orð mín miklu fleiri. Ég legg áherslu á að þm. fordæmi ekki frv. þótt gagnrýnisraddir heyrist. Ég vil spá því að þær umsagnir, sem munu berast til þn. um frv., verði neikvæðar. Þessar umsagnir koma frá hinum ýmsu samtökum í þjóðfélaginu sem hafa vissulega hagsmuna að gæta. Hagsmunir þeirra eru í sumum tilfellum þeir, að engu verði breytt að því er þeim viðkemur vegna þess að þau hafa gegnum árin náð því að fá sérreglur inn í skattalögin, — sérreglur sem eru viðkomandi hópum til hagsbóta. Ef þm. ætla að taka tillít til allra þessara umsagna í þeim tilgangi að styggja engan af kjósendum sínum, þá eru þeir þm. auðvitað á móti þessu frv. Ef þm. með þetta hugarfar eru í meiri hl. hér á hv. Alþ., þá verður auðvitað engu breytt. En menn verða að athuga það, að um leið er verið að segja að við búum við harla góða skattalöggjöf, sem ekki sé nein ástæða til að hrófla við, og að sú gagnrýni, sem uppi hefur verið höfð á skattalöggjöfina, sé nánast vitleysa eða byggð á misskilningi. Ég held að það verði ekki Alþ. til álitsauka ef þm. koma sér þannig hjá því að glíma við erfitt mál.

Ég tek að lokum undir þau orð hæstv. fjmrh., að meðferð þessa máls verður nokkur prófsteinn á getu Alþ. til þess að ráða fram úr vandasömu löggjafaratriði sem snertir hagsmuni flestra landsmanna.