14.02.1977
Neðri deild: 49. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ummælum hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, 5. landsk. þm., um skattamál hjóna og þá sérstaklega um þá till. sem ég boðaði fyrir hönd okkar þm. Alþfl. í þessari hv. d. Hún hefur greinlega misskilið hvert efni till. er, og hefur hún þessu til afsökunar að till. hefur ekki verið prentuð enn þá og henni því ekki gefist kostur á að lesa hana. En þeim mun meir ber að harma það að hv. síðasti ræðumaður skyldi hafa tekið undir ummæli hv. þm. Svövu Jakobsdóttur sem voru augljóslega á misskilningi byggð.

Við Svava Jakobsdóttir erum sammála um það að vera andvíg ákvæðum núv. stjfrv. um áframhaldandi samsköttun hjóna og almenn helmingaskipti á tekjum hjóna. Hins vegar lýsti hún sig fylgjandi sérsköttun, þ. e. a. s. að allir aðilar, bæði karlar og konur, án tillits til hjúskaparstéttar skyldu greiða tekjur af eigin aflafé og séreign. Um þetta erum við sammála. Hins vegar gat ég ekki heyrt að hún segði neitt um það, hvernig fara ætti með tekjur þess maka sem ynni á heimili og hefði ekki sjálfstæðar tekjur.

till., sem hún minnti á að við þm. Alþfl. hefðum flutt 1971, var auðvitað miðuð við þágildandi skattalög. Þá var hugtakið neikvæður tekjuskattur ekki til. Það er til núna. Þess vegna var sú aðferð okkar til að leiðrétta það ranglæti, sem hjón, þar sem aðeins annað aflaði teknanna, en hitt ynni heima, yrðu fyrir, sú að ætla þeim makanum, sem heima ynni, hluta af tekjum mannsins og lækka þannig skattbyrði hjónanna. Þetta var eina leiðin sem á grundvelli þágildandi skattalaga var fær til þess að lækka skattgreiðslu hjóna þar sem annað aflar teknanna, en hitt vinnur heima.

Síðan 1971 hefur sú grundvallarbreyting orðið á skattalögum að inn í þau er nú komið hugtakið neikvæður tekjuskattur. Þess vegna leggjum við nú til að ná þessu markmiði, að lækka skattbyrðina á hjónum þar sem annað aflar teknanna, en hitt hjónanna vinnur heima, með þeim hætti að veita þeim aðilanum, sem heima vinnur, rétt á persónuafslætti með sama hætti og hverjum öðrum einstaklingi og láta afleiðinguna geta orðið neikvæðan tekjuskatt, þ. e. a. s. frádrátt frá útsvarinu, þannig að heildarskattgreiðslur heimilisins lækki. Við gerum ráð fyrir að nákvæmlega sama regla komi til með að gilda um það hjóna, sem heima vinnur, eins og gildir um einstakling sem hliðstæðar tekjur hefur eða engar tekjur hefur.

Ég tel að orðið sérsköttun geti átt við um báðar þessar till., báðar þessar leiðir, bæði till. okkar núna og þá till. sem við fluttum miðað við þágildandi skattalög árið 1971. Orðið sérsköttun getur átt við báðar aðferðirnar sem eiga að leiða að hliðstæðu marki, vegna þess að í báðum till., báðum hugmyndunum felst það, að allir einstaklingar verði sjálfstæðir skattgreiðendur, líka það hjóna sem aflar ekki sjálfstæðra tekna, heldur vinnur heima. Í báðum tilfellunum er markmiðið að létta skattbyrði slíks heimilis frá því sem er í gildandi skattalögum og alla tíð hefur verið í skattalögum frá því að þau voru lögleidd fyrst hér 1921. Það var einungis önnur aðferð, sem við höfðum áður, vegna þess að við önnur skattalög var miðað. Nú eru komin skattalög með hugtakinu neikvæður tekjuskattur, og þess vegna breytum við tæknilegri framkvæmd þess að ná sama marki, að létta skattbyrði hjóna þar sem annað aflar teknanna, en hitt vinnur heima.