15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

252. mál, samanburður á vöruverði

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið. Ég hef ekki beitt og mun ekki beita neinum ásökunum gegn honum um það, að langur tími hefur liðið frá fsp. til svarsins. Ég efast ekki um að hann hafi verið tilbúinn fyrir löngu að svara fsp. Hins vegar mætti gjarnan taka það mál almennt til athugunar, að svör við fsp. koma býsna seint og að fyrirspurnatíminn er aftur að leka niður í ekki neitt. Ef við viljum nota hann eins og þinglegt og eðlilegt er verða svör að berast fljótlega við þeim fsp. sem fram koma.

Um efnið í svari hæstv. ráðh. vil ég einnig fara þakkarorðum, því að mér fannst andinn í því vera sá, að hann væri hliðhollur grundvallarhugsun þessa máls og vildi finna á því úrlausn.

Ég fagna því, að það skuli hafa verið samið frv. sem muni ganga í þá átt sem hér um ræðir. Mér er ljóst að það eru vissir erfiðleikar á að tengja tryggingar beint við vísitölu. En engu að síður verður að finna einhverja leið til þess að takmarkaðir hópar fólks, sem verður fyrir óviðráðanlegum áföllum sitji ekki eftir þannig að fjölskyldur geti varla bjargað sér, en í þeim hópi gætu hæglega orðið ekkjur sjómanna eða fjölskyldur manna sem slasast við störf við sjómennsku.

Ég lýsi þeirri von að þetta mál fái framgang, að frv., sem hæstv. ráðh. nefndi, verði sem fyrst flutt og afgr. og þingið sameinist um að búa svo um hnúta sem best er hægt fyrir það fólk sem hér á hlut að máli.