15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

252. mál, samanburður á vöruverði

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins þakka hæstv. ráðh. hlý orð í minn garð og annarra vestfirðinga út af því, að okkur skuli hafa hugkvæmst á nokkrum dögum að leggja til þá lausn sem hæstv. ráðh. og allt samgrn. hefur verið nokkuð á annað ár að koma sér niður á hvernig fara eigi með. Ég vil aðeins taka það fram til þess að upplýsa hv. þm. og hæstv, ráðh. um hvernig að þessu frv. um tryggingamál sjómanna var staðið af hálfu okkar þriggja flm., þ. e. a. s. mín, hv. þm. Karvels Pálmasonar og hv. þm. Garðars Sigurðssonar, að við báðum tvo stjórnarsinna, öllu heldur þrjá, að gerast meðflm. að þessu frv. Þessir þrír stjórnarsinnar höfðu frv. til athugunar nokkuð í á þriðju viku, en þegar þeir skiluðu því til okkar aftur með frásögn um það, að þeir mundu ekki gerast flm. að því með okkur, þá tóku þeir ekki fram að þeim væri kunnugt um að hæstv. ráðh. hefði látið semja áþekkt frv. í sínu ráðuneyti. Það er því vart hægt að búast við að við stjórnarandstæðingar vitum um hugsanir ráðh., þegar stjórnarþm. vita það ekki heldur. En ég vil sem sé þakka hæstv. ráðh. fyrir mjög hlý orð og frómar óskir í minn garð og annarra þm. af Vestfjörðum og raunar einnig hv. þm. Garðars Sigurðssonar sem ég vona að hæstv. ráðh. vilji virða jafnvel og okkur hv. þm. Karvel Pálmason.