15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

252. mál, samanburður á vöruverði

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að hann leitaði til þm. úr stjórnarliðinu vegna þess frv. sem hér hefur verið flutt í sambandi við þá fsp., sem hér er verið að ræða — og hlaut að sjálfsögðu að koma fram. En hv. 1. flm. þessa frv. gat ekki um það, af hverju þeir stjórnarsinnar, sem hann talaði við, tóku þá afstöðu að lokum að vera ekki meðflm. að þessu frv. Það var einfaldlega vegna þess, að nú þegar er í lögum meginhluti þeirra ákvæða sem þessir þrír þm. leggja til, en þau er að finna í brbl. sem gefin voru út á s.l. ári í sambandi við kaup og kjör fiskimanna. Hitt er svo annað mál, sem ekki er ástæða til að ræða hér, að það, sem þarna bætist við í tillöguformi frá þeim félögum, er full ástæða til að taka alvarlega til athugunar af þinginu. Ég vil samt sem áður benda á það, sem á undan er farið. Ég flutti þessa till. í byrjun, brtt. við siglingalögin, og það var ekki í samráði við sjómannasamtökin. Í grg. frv. er getið um 5 flm. að þessari brtt., en það var mikið á undan skeð og sú brtt., sem við fluttum, var til þess að ná fram samkomulagi þannig að þetta þýðingarmikla mál fyrir sjómenn næðist heilt í höfn. En hvað um það, mér finnst það, sem kemur fram í frv., athyglisvert. Ég fagna líka því sem kom fram frá ráðh., en endurtek það, sem ég var kominn að að segja, að hér er náttúrlega líka um þýðingarmikið samningamál að ræða á milli sjómanna og útgerðarmanna. Hér erum við að fara að nokkru leyti nýja leið ef við ætlum að ákveða þetta í siglingalögum, vegna þess að þetta mun þá taka líka til farmannanna, en þeir eru einmitt að hefja viðræður um þetta og annað í sambandi við kaup og kjör. Hitt er annað mál, að ég álít að bæði slíkur tillöguflutningur og umr. hér á þingi geti einmitt stuðlað að því að reka á eftir því að góðri niðurstöðu verði náð fyrir þessa aðila.