15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

252. mál, samanburður á vöruverði

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Orð mín voru ekki sögð í ásökunartón til forseta eða eins eða neins einstaklings, heldur sem ábending fyrir þingið allt. Það er hverju orði sannara, sem hæstv. forseti segir um þessi mál. Það hafa orðið árekstrar í störfum þingsins á milli umr. utan dagskrár og fsp., og við verðum að finna einhverja lausn á þessu, því að hvort tveggja á töluverðan rétt á sér, hvort tveggja þurfum við að geta gert, að taka mál upp sem ekki þola neina bið og fá svör tiltölulega fljótt við einföldum spurningum. Það á að vera hægt. Ég hygg að það hafi enginn þm. flutt eins oft frv. og till. um breyt. á þingsköpum og ég, og ég hef meira að segja gert tilraun til þess að gera drög um lausn á þessum vanda, svo að ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja til þess að frv., sem liggja fyrir þinginu nú um breyt. á þingsköpum, verði ekki látin grotna niður í n., heldur verði tekið á þessu máli.