15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

98. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt svör frá hæstv. ráðh., má segja, jafnsnilldarlega úr garði gerð og nú hjá hæstv. samgrh., þ. e. a. s. að tala með þeim hætti í svarinu að það var hvergi raunverulega neitað, hvergi játað, en allt hans mál í sambandi við svar við fyrirspurninni var á þann veg, að það hafði ekkert verið gert. Það er auðvitað grundvöllurinn í þessu, það er staðreynd um svar hæstv. ráðh., þó að hann svaraði engu af spurningum hv. þm. raunverulega, þá er það eigi að síður ljóst að í þessu máli hefur ekkert verið gert, og það sem verra er, mér sýnist af tali hæstv. ráðh. að það eigi ekkert að gera.

Það er ljóst, eins og kom fram hjá hv. 9. landsk., að Vestfirðir eru á allan hátt hvað verst settir varðandi samgöngur stóran hluta úr árinu. Það er ekki bara varðandi flugsamgöngur, það er líka varðandi samgöngur á landi og svo er einnig varðandi samgöngur á sjó, þannig að allt þetta þrennt hjálpast að í því að gera Vestfirði samgöngulausa stóran hluta úr árinu. Það er því full ástæða til að undirstrika það sérstaklega, ekki síst í sambandi við flugið, að það séu gerðar raunverulegar athuganir á því og því sé hraðað, með hvaða hætti er hægt að leysa þetta stórkostlega vandamál að því er varðar flugsamgöngur við Vestfirði. Ég tel, að sjálfsögðu sem leikmaður, að það komi fyllilega til greina að gera þær lagfæringar á flugbrautinni í Holti í Önundarfirði að þar sé hægt að lenda í miklu fleiri tilvikum en nú er í sambandi við Ísafjörð. Það er öllum kunnugt, sem þekkja til staðhátta, að misvindi er mikið varðandi aðflug á Ísafjörð, en með lagfæringum á flugbraut í Holti í Önundarfirði er að minni hyggju enginn vafi á því að hægt er að auka stórkostlega flugsamgöngur við Vestfirði að vetrinum. Á þessu þarf auðvitað að gera sérstakar athuganir og á fleiri stöðum í sambandi við að koma betra skipulagi á flugsamgöngur við Vestfirði .

Ég vil taka undir það með hv. 9. landsk. þm., að það er full ástæða til þess að undirstrika það alveg sérstaklega, að þetta verkefni verði tekið út úr og athugað sérstaklega og gaumgæfilega, þannig að það verði unnið skipulega að því að koma þessum málum í betra horf. Það er enginn vafi á því, ef menn vilja líta hlutlaust á þetta, að Vestfirðir eru langverst settir að því er varðar flugsamgöngur og auk þess bæði samgöngur á sjó og á landi stóran hluta ársins.