15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

98. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að koma aðeins í ræðustól og þakka hv. 9. landsk. þm. fyrir að hafa hreyft þessu máli hér. Ég verð að segja það í sambandi við þessar umr., enda þótt fyrirspurnatími eigi ekki að vera umr. um slík mál, að ég vil sérstaklega taka undir með hv. 9. landsk. þm., að hér er um að ræða mál þar sem er verið að auka möguleika á samgöngum, tryggja samgöngur við Ísafjörð, vegna þess að þar mun ekki koma næturlýsing á flugvelli.

Ég vil aðeins segja það, að í Holti er 800 m löng flugbraut, þannig að til þess að leysa þetta mál þyrfti 500 m, skilst mér, í viðbót svo að áætlunarvélar Flugfélags Íslands gætu lent þar. En þetta mál er aðeins einn angi af samgöngumálum okkar í heild.

Ég veit af eigin raun að í fjölmörg skipti, þegar vegna vindstöðu er ekki hægt að lenda á Ísafjarðarflugvelli, væri hægt að lenda í Holti. Ég veit að það væri mikil bót að því, þó ekki væri um annað að ræða en nýta þessa aðstöðu þann tíma ársins sem vegur er opinn yfir Breiðadalsheiði. En með vetrarvegi yfir Breiðadalsheiði mundi flugvöllurinn nýtast betur allt árið. Og það vill nú svo til að einmitt á þessum fundi er önnur fyrirspurn sem lýtur að því. Ég tel að þarna sé um að ræða þátt í miklu stærra máli, þ. e. varðandi samgöngur innbyrðis, tengingu Ísafjarðar við Vestur-Ísafjarðarsýslu og svo byggðarveginn í Önundarfirði sjálfum, — þetta séu allt þættir — og á það vildi ég leggja áherslu — sem eru orðnir í dag mjög aðkallandi að ákvarðanir verði teknar um.