15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

98. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að deila um þetta, hvorki um afturfótafæðingu eða venjulega fæðingu né nauðsyn þessara mála sem hér er um að ræða. Ég hef ekki talið að þau væru ónauðsynleg, það er fjarri því. Hitt er rétt, að þau voru ekki sett fram fyrir af þessum hv. þm. í sambandi við flugmálin m.a. á Vestfjörðum, heldur var það Ísafjörður. Sú hækkun, sem hv. 5. þm. Vestf. talaði um og gerð var í fjvn., var samþ. af ríkisstj.till. samgrh., þ. e. kaup á öryggistækjum sem munu hækka fjárveitinguna um 80 millj. kr. á yfirstandandi ári og ég vona að þeir njóti, vestfjarðamenn, eins og aðrir. Hitt held ég líka, að til þessara mála sé nú meira veitt en áður hefur verið.