15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að bera hér fram nokkrar fyrirspurnir utan dagskrár til hæstv. utanrrh. vegna frétta í fjölmiðlum í dag þess efnis, að einn af borgarfulltrúum Framsfl. hafi verið settur í stöðu nýs framkvæmdastjóra hjá Sölunefnd varnarliðseigna. Meðferð hæstv. utanrrh. á þessu máli er fyrir margra hluta sakir nokkuð óvenjuleg, að ekki sé meira sagt, og þarfnast því skýringa.

Þegar starf framkvæmdastjóra Sölunefndar varnarliðseigna var auglýst laust til umsóknar kom í ljós, að hér var um sérstaklega eftirsótt starf að ræða. Eftir að umsóknarfrestur um stöðuna rann út 30. des. s.l. reyndust umsækjendur vera 34. Upplýst hefur verið að sá, sem stöðuna hlaut, Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi, hafi ekki verið þar á meðal. Þetta er upplýst af Páli Ásgeiri Tryggvasyni í viðtali við Morgunblaðið í morgun. Nú er hins vegar komið fram, eins og ég sagði, að staðan hefur verið veitt þessum sama manni sem virðist hafa sótt um hana beint til flokksbróður síns, hæstv. utanrrh., eftir að tilskilinn frestur rann út.

Því skal hér ekki haldið fram að hæstv. utanrrh. hafi með þessu brotið lög. Hann hefur sennilega lagalegan rétt til þess að fara svo að. En engu að síður eru þessi vinnubrögð mjög óvenjuleg og óviðkunnanleg og þarfnast skýringa. Eina skýringin, sem hægt er að gefa í tilfelli sem þessu til varnar slíkum vinnubrögðum, er að enginn annar hæfur umsækjandi hafi sótt um starfið. Það væru rök sem lítandi væri á.

En hér erum við einmitt komin að öðru aðalatriði þessa máls. Hæstv. utanrrh, hefur frá öndverðu neitað að gefa upp hverjir þessir 34 umsækjendur hafi verið, og hann neitar enn samkv. nýjustu fréttum fjölmiðla í dag að veita þessar sjálfsögðu upplýsingar. Þetta er augljóslega algjört brot á þeim venjum, sem ríkt hafa um veitingu opinberra starfa. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh.: Hver er skýringin á þessum furðulegu vinnubrögðum? Hverju er hann að leyna?

Í 5. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er kveðið á um það, að lausar stöður skuli auglýstar, og hvernig það skuli gert, og þar segir að ákvæðið eigi ekki við um störf í þágu utanríkisþjónustunnar. Þar er að sjálfsögðu átt við hvers konar sendimenn utanrrn.: sendiherra, sendifulltrúa og aðra diplómata sendiráða eða rn., en að sjálfsögðu alls ekki starfsemi innlendrar stofnunar þótt hún heyri að vísu undir utanrrn. að forminu til.

Raunar tel ég að það breyti litlu í sjálfu sér hvort þessi lagagrein á við eða ekki. Vinnubrögðin og þá alveg sérstaklega sú furðulega leynd hvað umsækjendur snertir er forkastanleg og þarfnast frekari skýringa, ekki síst þar sem umrædd stofnun, Sölunefnd varnarliðseigna, er harla óvenjulegt fyrirbrigði í íslenskri stjórnsýslu. Mér er ekki kunnugt um að nokkur lög gildi um starfsemi þessarar stofnunar. Í viðbæti við varnarsamninginn frá 1951 um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og um eignir þeirra er beinlínis tekið fram í 8. gr., að vörur, sem Bandaríkjaher eða starfsmenn hans hafa flutt til landsins tollfrjálst, skuli, eins og segir í samningnum sem hefur lagagildi, með leyfi forseta: „eigi látnar af hendi á Íslandi, hvorki með sölu, að gjöf né í skiptum. Þó má, ef sérstaklega stendur á, veita heimild til slíkrar afhendingar með þeim skilyrðum er tollyfirvöld setja“. Önnur lagaákvæði munu ekki gilda um þessa starfsemi. Gömlu lögin um setuliðseignir eiga hér augljóslega ekki við. Ég vildi því biðja hæstv. utanrrh. að upplýsa í leiðinni eftir hvaða lögum þessi starfsemi fer fram. Velta af sölu nefndarinnar mun hafa numið um 210 millj. kr. á s. l. ári. N. sjálf, Sölunefndin, er ekki til. Hún var lögð niður af hæstv. utanrrh. fyrir nokkru. Síðan eru allar ákvarðanir um sölu varnarliðseigna teknar af einum manni, framkvæmdastjóra Sölunefndar. Samkvæmt upplýsingum, sem ég aflaði mér í morgun, eru eignir þessar yfirleitt ekki seldar á opinberu uppboði til hæstbjóðanda. Ákvarðanir um sölu eru teknar af margnefndum framkvæmdastjóra eftir að aflað hefur verið tilboða í hverja sölueign, og í því sambandi er sérstaklega eftirtektarvert, að framkvæmdastjóranum mun ekki vera skylt að taka hæsta tilboði. Það er hans að vega og meta tilboðin með hliðsjón af aðstæðum og persónulegum högum umsækjenda og semja síðan við væntanlegan kaupanda. Einmitt á þennan hátt voru rúmlega 200 bifreiðar seldar á s.l. ári. Framkvæmdastjóri þessarar stofnunar hefur því bersýnilega mikið fjármálavald sem hann getur beitt að eigin mati án afskipta eða eftirlits af hálfu nokkurs annars aðila, hvorki opinbers aðila né einkaaðila.

Í þetta starf er valinn pólitískur starfsmaður úr flokki hæstv. utanrrh., borgarfulltrúi Framsfl., sem reyndar mun ekki sérhæfður í fjármálum flokksins, heldur í ýmiss konar pólitískum erindrekstri og blaðamennsku. Að öðru leyti ræði ég ekki um persónulega hæfileika þessa manns. En eins og ég hef þegar gert grein fyrir er hér bersýnilega um að ræða starf sem starfsmenn stjórnmálaflokka ættu að halda sig sem lengst frá.

Ég vil því að lokum leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvort fyrir liggi við ráðningu Alfreðs Þorsteinssonar í þetta nýja starf hjá Sölunefnd varnarliðseigna að hann verði áfram í störfum fyrir Framsfl.