15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og hefur komið fram, þá er hér um að ræða að a. m. k. mér og ýmsum fleirum virðist vera alleinkennilega að máli staðíð, ekki í sambandi við það að þessi tiltekni einstaklingur, sem hér um ræðir og hnossið hlaut, skyldi verða í það settur, heldur málsmeðferðin. Það er greinilegt á þeim tíma sem það hefur tekið hæstv. utanrrh. að finna út þann einstakling af þessum 34 sem um starfið sóttu, að það hefur verið allerfitt að gera upp á milli þessara einstaklinga, og það er skiljanlegt þegar slíkur fjöldi sem hér um ræðir eða 34 sækja um þessa tilteknu stöðu. Ég veit ekki hvort önnur dæmi eru til um slíkar vinsældir, eftir umsóknum um starf að dæma, nema þá í sambandi við flugfreyjustörfin, en þau munu vera mjög vinsæl nú orðið, þannig að það er kannske helsta viðmiðunin sem hægt er að fá í sambandi við þá miklu ásókn sem um ræðir í starf þetta. (Gripið fram í: Hann hefur ekki sótt um flugfreyjustarf.) Nei, vonandi hefur hann ekki sótt um það, sá sem hnossið hlaut. En allur þessi tími hlýtur að hafa verkað á almenning sem svo, að hér hlyti að vera úrvalslið úr að moða, 34 einstaklingar, og að það gæti verið ýmsum erfiðleikum háð að gera upp á milli þessara aðila. Það er því engin furða, að loksins þegar búið er að kveða upp úrskurðinn í þessum efnum, þá vilji almenningur fá að vita hverjir það voru í rann og veru sem um starfið sóttu. Auðvitað er kjarninn í þessu máli sú leynd sem hvílir yfir því, hvaða einstaklinga hér er um að ræða, sem sóttu um starfið. Og ég skil það ekki, mér er ómögulegt að skilja það, að hæstv. utanrrh. skuli velja þann kostinn að gefa ekki upp öll nöfn umsækjenda um starfið.

Ég ætla á engan hátt að ræða hér að einu eða neinu leyti um hæfileika þess einstaklings sem starfið hlaut. Það að neita að birta hin nöfnin veldur auðvitað því, að bæði ég og aðrir eigum erfitt með að gera það upp við okkur eða meta það og vega hver í raun og veru af þessum 34 hefði mesta hæfileika til að bera til þess að hljóta starfið. Og þessi málsmeðferð af hendi hæstv. utanrrh. veldur því óneitanlega að alls konar getgátur verða á ferðinni um pólitíska þægni og þar fram eftir götunum, sem ég held að hæstv. ráðh. hefði átt mjög auðvelt með að komast hjá með því bara að birta nöfnin, en ekki neita því fram í rauðan dauðann að gefa almenningi í landinu kost á því að fá að líta yfir þann fríða lista sem hugsanlega er um að ræða í sambandi við þá einstaklinga sem sóttu um þessa stöðu.

Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að þetta er mjög óæskileg þróun mála, óæskileg meðferð á málum. Það á ekki að vera með neitt leyndarpukur yfir þessu. Almenningur í landinu heimtar að fá vitneskju um það sem hér er um að ræða, umsóknir um — ja, sumir segja starf í þágu utanríkisþjónustunnar, sumir segja það, aðrir ekki. En hér er alla vega um að ræða starf sem auglýst er laust til umsóknar af opinberum aðilum, sem er utanrrn., og almenningur í landinu hlýtur að krefjast þess að fá að vita hverjir það voru sem um það sóttu, ekki síst þegar úr slíkum fjölda er að moða eins og hér um ræðir, 34 umsóknum um eitt starf. Ég vil því leyfa mér að taka undir það, sem hér hefur komið fram, þær áskoranir á hæstv. utanrrh. að hann falli frá þessari leynd og geri alþjóð kunnugt um það, hverjir einstaklingar sóttu um þetta starf, þannig að fólk geti vegið og metið víðkomandi og síðan hver fyrir sig fellt dóm eftir því sem hann telur sig vita best. Meðan það er ekki gert er ómögulegt að segja til um hvort þessi eini af 34 var hinn sanni og rétti.