15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég þakka upplýsingarnar um bygginguna. Það rifjast upp að efri hæðir hússins eru á fjárlögum til ákveðinna nota, en neðsta hæðin, allmikið mannvirki mun vera gerð af varnarsölunefndinni.

Annars vil ég láta í ljós mikla undrun yfir ræðu Alberts Guðmundssonar, sem kallar það árásir og ræðst á það með illyrðum að menn skuli gagnrýna ráðh. Ekki man ég betur en hann hafi sjálfur haldið hér uppi umr. um það, hvernig veitt voru læknisembætti við sjúkrahús eitt, og datt þá engum manni í hug að bera það á hann, að hann væri með því að gera persónulegar eða óeðlilegar árásir á viðkomandi ráðh. Hann virðist hafa býsna frumlegan skilning á því hvað lýðræði er, hvert hlutverk andstöðu er. Ég held að hann hafi aldrei gegnt því hlutverki. Og ég held að hann ætti að íhuga það betur, hverjar eru grundvallarhugmyndir manna um þjóðfélög nú, því hann talar satt að segja svona eins og Gaulle-isti eða franskur keisari.

Ég mótmæli því að hér sé um neinar árásir að ræða. Það geta flestir hér inni og b. á m. ég sagt, að þeir menn, sem er verið að gagnrýna, sérstaklega utanrrh., séu menn sem við höfum þekkt lengi og berum persónulega virðingu fyrir. En íslensk stjórnmál eru einu sinni þannig, þau eru oft sárt návígi, og hjá þessu verða menn að reyna að sneiða. Það er ekkert tilefni til þess fyrir hv. þm. að standa hér upp með aðra eins hræsnisræðu og hann flutti.