15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég furða mig ekkert á ummælum hv. síðasta ræðumanns þegar hér er búið að reka ofan í hann hvað eftir annað vinnubrögð hans eigin flokks með hans eigin samþykki í sambandi við sölu varnarliðseigna um áratugi og þá sérstaklega þegar stefnan um meðferð sölu varnarliðseigna var sett. Ég vísa á bug öllu því, sem hann vitnaði til sem hræsni sem marklausum orðum sem ekkert er bak við, enda get ég ekki séð í hvaða samhengi þau voru sögð hér.

Í sambandi við veitingu læknisembættis, sem hann vitnaði til, og þær umr. hafa farið fram hér, þá hélt ég fram þeirri niðurstöðu sem var niðurstaða sérfræðinga, erlendra sérfræðinga, þar sem innlendir sérfræðingar í að meta umsækjendur voru ekki fyrir hendi. Það voru ekki til menn sem höfðu sérfræðiþekkingu á því sem dæma þurfti, og dómnefndin var sett á laggirnar að ósk læknadeildar, þó læknadeildin snerist gegn niðurstöðu n. á lokastigi, það er allt annað mál.

Ég skammast mín ekkert fyrir að vera tengdur Gaulle-istum í tali. Ég held að De Gaulle hafi verið einn af mestu ræðusnillingum sem a. m. k. frakkar hafa átt, viðurkenndur sem slíkur, og ég þakka fyrir það lof, þó ég vilji nú ekki eigna mér það sjálfur.

Í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Austf. sagði, veit ég ekki hvað hann var að fara þegar hann talaði um óeðlilega embættisveitingu hér. Hann er sjálfur í embætti sem ekki var auglýst. Ég hefði talið eðlilegt að það hefði verið auglýst. Það var engin samkeppni, það var bara skipað í það. Hann óskaði eftir því og fékk það. (Gripið fram í.) Já, það má segja að þm. beri alltaf af þegar hann er eini umsækjandinn, það fer ekki á milli mála. Annað starfið var veitt fyrir, það voru tveir sem komu til greina, þannig að það var ekki nema einn umsækjandi um það sem laust var.

Hitt er svo annað mál, dæmisagan um Al Capone, ég hef aldrei heyrt það áður. En mér kæmi ekki á óvart, þegar synir Al Capones komu svo til Íslands og ætluðu sér þetta starf hjá sölunefndinni, að þeir hafi hætt við það vegna þess að þeir fréttu um Framkvæmdastofnunina.