15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

103. mál, brúargerð yfir Eyjafjarðará

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Fyrirspurnin er á þskj. 115, og svar það, sem ég kem hér með, er samið af Vegagerð ríkisins og er svo hljóðandi:

Í grg., sem fylgdi ofangreindri till., var bent á nokkur atriði sem til álita kæmu um mat á hagkvæmni umræddra framkvæmda. Meðal þeirra atriða er bætt nýting húsnæðis og starfsliðs skólanna á Hrafnagili og Laugalandi og enn fremur sá möguleiki að væntanleg hitaveita frá Laugalandi til Akureyrar færi yfir Eyjafjarðará á þessum stað.

Í umsögn um till. frá vegamálastjóra var á það bent, að ef raunveruleg könnun ætti að fara fram þyrfti til þess fjárveitingu, annaðhvort á fjárlögum eða vegáætlun, þar sem könnunin þyrfti að taka til margra þátta og aðrir aðilar en Vegagerð ríkisins kæmu inn í þá mynd. Engin fjárveiting hefur verið fyrir hendi og því hefur ekki orðið af könnuninni.

Vegagerð ríkisins hefur þó haft samband við verkfræðifyrirtæki þau er annast hönnun aðfærsluæðar Hitaveitu Akureyrar. Í þeim viðræðum hefur komið fram að á þessu stigi er ekki talið hagkvæmt að fara með aðfærsluæð þessa leið, heldur er fyrirhugað að fara frá Laugalandi austan ár og yfir Eyjafjarðará á móts við Ytra-Gil, en sú leið er bæði styttri og liggur um betra land en ef fara ætti yfir ána hjá Hrafnagili. Hitaveitulögn frá Laugalandi til Akureyrar virðist því ekki hafa áhrif á hagkvæmni áðurnefndrar framkvæmdar.

Vegagerð ríkisins gerði fyrir allmörgum árum mjög lauslega athugun á kostnaði við lagningu vegar og brúar á þessum stað. Séu þær tölur færðar til verðlags í dag ætti kostnaðurinn að vera um 150 millj. kr. Leggja ber þó áherslu á að hér er um tölu að ræða sem einungis sýnir grófa stærð kostnaðar. Ef gera á raunverulega könnun þyrfti að rannsaka bæði vegar- og brúarstæði til þess að fá raunhæfan kostnað. Enn fremur þyrfti að athuga og meta hvern hagnað má fá með bættri nýtingu skólaaðstöðunnar. Þá þyrfti að taka til skoðunar hugsanlega hitaveitu frá Laugalandi að Hrafnagili og/eða samtengingu hitaveitna á Hrafnagili og Laugalandi, ef til kæmi að aflað yrði vatns á báðum þessum stöðum.

Loks má benda á að umferð um þessa leið færi mjög eftir þeirri uppbyggingu sem á sér stað í framtíðinni á Hrafnagili og Laugalandi.

Af þessari upptalningu má ljóst vera að raunhæf könnun mun snerta marga aðila. Má þar nefna skólayfirvöld, skipulagsstjórn, auk Vegagerðar ríkisins og þeirra byggðarlaga sem tengja á saman. Mundi það því taka töluverðan tíma og kosta umtalsvert fjármagn og þyrfti þar að koma til sérstök fjárveiting, eins og áður hefur verið bent á.

Frekara svar hef ég ekki við fyrirspurn þessari.