26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. 1. spurning hv. 1. þm. Norðurl. e. er á þessa lund: „Eru uppi ráðagerðir hjá ríkisstj. um að auka stóriðjurekstur erlendra aðila á Íslandi?“

Ríkisstj. hefur áhuga á því að auka og efla iðnað á Íslandi og nýta í því skyni orkulindir landsins.

Varðandi stóriðju er rétt að telja, að fyrsta stóriðjufyrirtæki á Íslandi sé Áburðarverksmiðjan í Gufunesi sem byggðist á virkjun Írafoss í Sogi. Næsta stóriðjufyrirtæki var Sementsverksmiðjan á Akranesi. Hið þriðja og stærsta er álverið í Straumsvík, sem reist var í sambandi við hið mikla orkuver í Þjórsá við Búrfell.

Næsta verkefni í stóriðju er járnblendiverksmiðja í Hvalfirði. Samningar um hana eru nú komnir á lokastig og munu íslendingar eiga meiri hluta þess fyrirtækis eða 55%. há má nefna ylræktarver sem enn er á undirbúningsstigi, en í slíku fyrirtæki mundu íslendingar eiga mikinn meir hluta.

2. spurning hv. þm. er þessi: „Hefur verið gerð áætlun um það að reisa álver við Eyjafjörð?" Þrem árum eftir að samið var við svissneska álfélagið um byggingu álvers við Straumsvík mun bandarískt fyrirtæki hafa látið í ljós áhuga á því að reisa álverksmiðju á Íslandi.

30. maí 1969 var haldinn á Akureyri sameiginlegur fundur sveitarfélaga við Eyjafjörð og var þar samþykkt „að skora á stjórnvöld að kanna til hlítar möguleika á því að staðsetja álverksmiðju þá, sem ríkisstj. semur nú um við Bandaríkjastjórn, við Eyjafjörð.“ Þeir, sem áttu aðild að þessum fundi, voru bæjarstjórn Akureyrar, bæjarstjórn Ólafsfjarðar og hreppsnefndir flestra hreppa Eyjafjarðarsýslu. Þessi ályktun var tilkynnt með bréfi sýslumanns Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeta Akureyrar til Jóhanns Hafsteins iðnrh. með bréfi 2. júní 1969.

Í samningi um álverið í Straumsvík segir í 37. gr., að fari svo, að ríkisstj. hyggi á það í framíðinni að byggja álbræðslu á Norðurlandi, sé svissneska álfélagið reiðubúið að taka til vinsamlegrar athugunar þátttöku í slíku fyrirtæki í félagi við íslenska aðila, svo fremi að það sé fjárhagslega hagkvæmt.

Sumarið 1970 ákvað ríkisstj. að nota þessa heimild og var skipuð n. af hálfu iðnrn. Voru tilnefndir Árni Snævarr ráðuneytisstjóri, Lárus Jónsson framkvstj. Norðurlandsáætlunar, en af hálfu Íslenska álfélagsins Ragnar Halldórsson forstjóri og svissneskur verkfræðingur úr starfsliði Alusuisse. Könnuðu nm. ýmsa staði norðanlands. Meginniðurstöður n. voru þær, að markaðshorfur á sölu áls voru ekki það góðar að tiltækt þætti að byggja að svo stöddu annað álver hérlendis.

Meðal fyrstu verkefna viðræðunefndar um orkufrekan iðnað, sem fyrrv. iðnrh., Magnús Kjartansson, skipaði haustið 1971, voru viðræður við bandaríska fyrirtækið Union Carbide og norska fyrirtækið Norsk Hydro. Norsk Hydro lét í ljós áhuga á þátttöku í orkufrekum iðnaði á Íslandi, og veturinn 1973–1974 kannaði Norsk Hydro með samþykki n. og iðnrn. aðstæður til byggingar álvers norðanlands og austan. Fyrirtækinu var þá sérstaklega bent á Eyjafjörð, Norðausturland og Austfirði.

Í framhaldi af þessum athugunum sendi Norsk Hydro viðræðunefndinni snemma árs 1975 nokkurn samanburð á staðsetningu álvers við Eyjafjörð, Húsavík og Reyðarfjörð og fól sú grg. í sér það álit að aðstæður væru hagstæðastar við Eyjafjörð.

Haustið 1975 fól viðræðunefndin með samþykki iðnrn. tveim fulltrúum að gera ásamt fulltrúum frá Norsk Hydro ýmsar athuganir og afla upplýsinga sem nauðsynlegar eru áður en afstaða verði tekin til þess, hvort hefja skuli samningaviðræðna við Norsk Hydro um byggingu álbræðslu á Norðurlandi.

Rétt er að taka fram að þessir fulltrúar viðræðunefndar hafa ekkert umboð til samninga og í vinnu þeirra felast engar skuldbindingar fyrir íslendinga.

3. spurning: „Eru hafnar náttúrufræðilegar rannsóknir í sambandi við slíka áætlun? Ef svo er, hver kostar áætlanirnar?“

Engar náttúrufræðilegar rannsóknir eru hafnar. Hins vegar vinna þeir fulltrúar, sem áður er getið, að gerð till. um hvernig rétt væri að haga umhverfisrannsóknum, bæði félagslegum og náttúrufræðilegum, sem framkvæma þyrfti áður en hægt væri að taka afstöðu til staðarvals fyrir hugsanlega stóriðju.

4. spurning: „Hverjir eiga sæti í viðræðunefnd um orkufrekan iðnað?“

Með bréfi, dags. 28. sept. 1971, skipaði Magnús Kjartansson iðnrh. eftirtalda menn í viðræðunefnd um orkufrekan iðnað: dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóra, formann, Inga R. Helgason hrl., Ragnar Ólafsson hrl. og Steingrím Hermannsson alþm. Allir þessir menn hafa átt sæti í n. síðan og eiga enn. 14. okt. 1974 skipaði núv. iðnrh. Ingólf Jónsson alþm. og 16. des. 1974 Sigurþór Jóhannesson ráðgjafaverkfræðing í n. Starfsmaður n. frá upphafi hefur verið Garðar Ingvarsson hagfræðingur.

5. spurning: „Í hvers umboði starfar n., hvert er verksvið hennar, umboðstími og fjárráð?“ Samkv. bréfi iðnrh. frá 28. sept. 1971 skal n. vera til ráðuneytis um viðræður við erlenda aðila sem áhuga hafa á þátttöku í orkufrekum iðnaði ásamt íslendingum. N. annast viðræður við slíka aðila í samráði við iðnrn. Umboðstími er ekki tilgreindur í skipunarbréfinu. N. hefur frá upphafi notið sérstakrar fjárveitingar í fjárl. á árinu 1976 voru veittar 8 millj. 550 þús kr. í þessu skyni, en í fjárlagatill fyrir árið 1977 10 millj. kr.