15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

253. mál, sparnaður í rekstri Ríkisútvarpsins

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Það er rétt, sem kom fram í svari hans, að það hefði kannske verið hægt að orða fsp. um tillögugerðina örlítið nákvæmlegar, þ. e. a. s. það var n., sem vann þessar till., en skýrslan var gefin út á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar, svo að það eru kannske blæbrigði á því, hvernig þetta ber að orða.

Það kom fram í svari hæstv. ráðh. að nokkuð hefur verið framkvæmt af till. þessarar n. En ég minni á að það eru tvö ár liðin síðan hún skilaði áliti og að þær till., sem mestu máli skipta um sparnað í rekstri þessarar ríkisstofnunar, hafa ekki enn verið framkvæmdar.

Það má auðvitað lengi um það deila hvernig haga á innheimtu gjalda til stofnunar sem Ríkisútvarpsins, en ég held samt sem áður að við getum orðið ásáttir um að það hljóti að vera hægt að finna leið til þess að innheimta þessi gjöld með ódýrari hætti en þau hafa verið innheimt fram að þessu, með öllu því starfsliði sem sérstaklega þarf til þess að innheimta þessi gjöld. Við höfum stígið nokkur skref í þá átt að hagræða innheimtu opinberra gjalda, t. d. með stofnun Gjaldheimtunnar hér í Reykjavík, og ég held að það hljóti að vera hægt að finna á því flöt að laga þetta.

Við vitum að það er margs konar tvíverknaður enn í rekstri Ríkisútvarpsins, hljóðvarpsins annars vegar og sjónvarpsins hins vegar, og skal ég ekki fara nánar út í þá sálma.

Ég ítreka svo að þetta er ekki einsdæmi um þessa ríkisstofnun. Það mun vera á mörgum öðrum sviðum sem liggja fyrir till. um sparnað og hagræðingu í rekstri ríkisstofnana, og ég vil beina þeirri áskorun til rn. allra að reka tryppin betur í þessum efnum.