15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

156. mál, jöfnun símgjalda

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins til upplýsingar geta þess að ég mun, sennilega í næstu viku, leggja fram frv. að nýjum lögum um Póst og síma, en heildarlög um þessa stofnun hafa ekki verið endurnýjuð síðan 1935, og þar er staðfest sú skipulagsbreyting sem hefur verið unnið að. Það er tvennt sem á að vinnast með henni: Í fyrsta lagi að fækka störfum, og ég held að það sé nokkurn veginn öruggt að ég megi segja að það muni verða fækkað hér um nokkra tugi starfsmanna. Það eru viss störf sem hafa verið að ganga út, við höfum ekki auglýst og munum ekki auglýsa, heldur láta falla inn í þetta nýja kerfi, og það gætu orðið 50–60 störf. Þá mun einnig verða stefnan úti á landsbyggðinni að reyna að fækka stöðvum og um leið að lengja notendatímann fyrir notendur með því að tengja þá stærri stöðvunum sem hafa lengri tíma opið, og þá sérstaklega t. d. að reyna að tengja þá kauptúnunum sem sveitirnar hafa viðskipti við. Það er þegar farið að vinna að þessu, og hinir nýju umdæmisstjórar, sem hafa verið settir, vinna nú óðfluga að því að skipuleggja og undirbúa þetta. En það er ekki von að það sé nema að litlu leyti komið til framkvæmda, vegna þess að það var frá 1. júlí sem reglugerðin tók gildi. En þegar ég geri grein fyrir þessu máli hér mun ég reyna að gera grein fyrir þessum atriðum líka.