15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

258. mál, vetrarvegur um Breiðadalsheiði

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Á þskj. 303 hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. samgrh.:

„1. Er lokið þeirri athugun, sem gera átti um gerð varanlegs vetrarvegar yfir Breiðadalsheiði, svo og kostnaðaráætlun því að lútandi?

2. Ef svo er, hverjar eru þá niðurstöður þeirrar athugunar?

3. Hvenær má búast við að framkvæmdir geti hafist?“

Hinn 18. mars 1975 var hér í Sþ. til umr. fsp. varðandi þetta mál, og í svörum hæstv. ráðh. þá kom fram að það þyrfti að athuga fleiri leiðir til þess að fá úr því skorið með hvaða hætti væri hagkvæmast og ódýrast að gera vetrarveg yfir Breiðadalsheiði. Þar kæmi í fyrsta lagi til athugunar að sprengja klauf í fjallið, í öðru lagi bygging vegsvala og í þriðja lagi jarðgöng og þá mun ofar en gerð var tilraun með boranir á sínum tíma.

Í Vestfjarðaáætlun frá 1965–1968 var gert ráð fyrir að gerð yrðu 500 m löng jarðgöng gegnum Breiðadalsheiði. Það var borað til tilrauna þarna á sínum tíma, og samkv. niðurstöðum, sem út úr því fengust, var talið óhagkvæmt að framkvæma jarðgangagerð á þessu svæði vegna þess hversu laus berglög væru. Hæstv. samgrh. gat þess í svari sínu 1975, að unnið yrði að þessum athugunum og að því stefnt að niðurstöður lægju fyrir við endurskoðun vegáætlunar fyrir árið 1976. Nú hittist svo á að við erum hér á næstunni að fara að ræða vegáætlun næstu fjögurra ára, þannig að mér þótti tímabært að bera fram fsp. vegna þessa.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að þröskuldur í samgöngum milli byggða norðan Breiðadalsheiðar og sunnan er Breiðadalsheiðin sjálf. Það var síðast undirstrikað hér í umr. í dag hversu brýn nauðsyn væri á því að á þessu fyndist lausn, þannig að um eðlilegar samgöngur gæti verið að ræða á þessu svæði.

Ég hef áður vikið að því hér, að þetta er eitt með brýnni verkefnum sem þarf að vinna í samgöngumálum á Vestfjörðum, þó að vissulega séu mörg fleiri sem knýja á um lausn. Ég vænti þess að nú liggi þessar niðurstöður fyrir, þannig að hægt sé að taka ákvarðanir um það með hvaða hætti skuli úr leyst.