15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

258. mál, vetrarvegur um Breiðadalsheiði

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Eftir þeim liggur ljóst fyrir að það er hægt að taka ákvarðanir um hvað gera skuli. Samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf, er ljóst að fyrsta lausnin, sem menn höfðu í huga, þ. e. klauf í gegnum fjallið, er langdýrust eða upp á um 800 millj. kr., vegsvalir eru á bilinu frá 450–560 millj. kr., en jarðgöng eru áætluð á 580 millj. kr.

Ég hef verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar enn, að í þessum efnum séu allar aðrar framkvæmdir en jarðgöng hreint kák. Ég held að það sé ekkert vít í því að vera að einblína á aðrar hugsanlegar lausnir heldur en jarðgöng. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar enn.

Í sambandi við svar ráðh. kom fram, að mér skildist, að þeir vegagerðarmenn telja að hægt sé að halda veginum opnum til jafns við það sem er um aðra hluta þessarar leiðar, hafi ég skilið þetta rétt. Mér virðist því á öllu, sem fram kemur í svari hæstv. ráðh., sem er frá Vegagerðinni, að menn hafi staðnæmst í bili og ætli sér að halda áfram tilraunastarfsemi á þessum kafla þessarar leiðar í nokkurn tíma enn. Þá kom einnig fram, að það væri álit Vegagerðarinnar að hægt væri að gera þennan kafla jafngóðan öðrum hlutum þessarar leiðar. Í því sambandi kom fram í svarinu hjá hæstv. ráðh. að upp hefðu verið settir snjóskermar í hlíðina eða upp undir fjallsbrúnum og það væri talið gefa góða raun. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé ekki um nema kák eitt að ræða, það sé algert kák að vera með hugleiðingar eða áform um að það sé hægt að leysa þennan þröskuld í samgöngunum með því að vera að þreifa sig áfram í þessum tilraunum. Ég held, eins og ég sagði áður, það er mín skoðun, að nú sé tímabært orðið samkv. þessum niðurstöðum af þeim könnunum, sem fram hafa farið, og athugunum að slá því föstu hvað beri að gera. Og ég tel að það eigi tvímælalaust að taka um það ákvörðun nú við afgreiðslu vegáætlunar fyrir næstu 4 ár, að það verði ráðist í gerð jarðganga í gegnum Breiðadalsheiði, það sé hin eina rétta lausn og sú eina sem verði til þess að bæta úr því ástandi sem þarna hefur verið.

Mér er það ljóst að mörgum hverjum mun þykja það há upphæð að tala um 580–600 millj. í framkvæmd af þessu tagi. En það er svona 1/4 til 1/5 hluti af framkvæmd sem nú er í gangi, stórframkvæmd eins og Borgarfjarðarbrúnni. Það verður lítill hluti af framkvæmd sem búið er að setja stefnuna á, brú yfir Ölfusárós. Ég held því að það sé ástæðulaust að láta það hræða sig frá því að fara í þessa framkvæmd vegna þess, eins og margoft hefur verið bent á og ég þarf ekki að ítreka, að hér er um svo brýnt hagsmunamál að ræða fyrir þessa staði, sem þessa yrðu aðnjótandi, að það verður ekki komist hjá því að ráðast í framkvæmdir. Ég vænti þess að ég og hæstv. samgrh. getum nú tekið upp gott og ánægjulegt samstarf, eins og var í tíð fyrrv. ríkisstj., til þess að hrinda í framkvæmd þessu nauðsynjamáli og að hann verði ekki einungis stuðningsmaður minn í því, heldur miklu frekar að hann hafi forustuna í því sem æðsti maður samgöngumála í landinu, að nú verði tekin um það ákvörðun við afgreiðslu vegáætlunar fyrir næstu 4 ár að gerð skuli jarðgöng í gegnum Breiðadalsheiði til þess að hrinda úr vegi þessum þröskuldi sem verið hefur og verður áfram ef ekki verður ráðist í þessa framkvæmd.