26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska eyfirðingum til hamingju og láta í ljós aðdáun mína á því, hvernig þeir hafa brugðist við áformum um stóriðju við Eyjafjörð. Það færi betur ef slík viðbrögð hefðu orðið jafnhörð og ákveðin annars staðar.

Hæstv. iðnrh. sagði áðan að samningar um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði væru að komast á lokastig. Þetta mál á sér tvö lokastig. Það er ekki mjög langt síðan samningar um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði komust á lokastig og Alþ. samþykkti frv. um hana. Allir vita hvernig það fór. Og nú er verið að semja við annan aðila að ganga í félag við okkur íslendinga um að reisa þessa verksmiðju.

Í gildandi lögum um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í 2. gr.:

„Til samvinnu um stofnun eða starfsemi hlutafélags samkv. 1. gr. (þ.e.a.s. hlutafélags um það að reisa og reka járnblendiverksmiðju í Hvalfirði) skal ríkisstj. heimilt að kveðja hlutafélagið Union Carbide Corporation í New York, N.Y. í Bandaríkjunum, og dótturfélög þess fyrirtækis, svo og eftir atvikum aðra aðila sem áhuga hafa á málinu.“

Í lögum segir sem sé að þessi verksmiðja skuli reist fyrst og fremst í félagi við auðhringinn Union Carbide. Það eru lög fyrir því. En það eru engin lög fyrir því að reisa þessa verksmiðju í Hvalfirði fyrst og fremst í félagi við norska auðhringinn Elkem Spigerverket. Annar þessara auðhringa er bandarískur, hinn norskur. Að sjálfsögðu eru þeir þó í eðli sínu báðir alþjóðlegir.

Aðstæður allar eru gjörbreyttar. Samningar hafa enn ekki verið lagðir fyrir. Alþm. vita ekkert um þá. Þess vegna vil ég spyrja: Hvenær má vænta þess að þessir samningar verði lagðir fyrir Alþ. og nýtt frv. að lögum um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði.