16.02.1977
Neðri deild: 50. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

159. mál, siglingalög

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) :

Herra forseti. Við þrír þm. í þessari hv. d., auk mín þeir hv. þm. Garðar Sigurðsson og Karvel Pálmason, höfum leyft okkur að flytja á þskj. 308 frv. til l. um breyt. á siglingalögum, nr. 66 frá 1963.

Meginefni þessara breytinga er að lögleiða það ákvæði, sem fram kemur í 3. mgr. frv. eins og það kemur á þessu þskj., að reyna að tryggja bætur, sem sjómenn fá, dánarbætur og örorkubætur, nokkru betur en verið hefur, þ. e. a. s. á sama hátt og aðrar bætur eru verðtryggðar, eins og fyrir er mælt í lögum um almannatryggingar.

Haustið 1972 var lagt fram hér á Alþ. stjórnarfrv. um breytingu á siglingalögum þess efnis að samræma ákvæði þeirra laga fyrirhuguðum breytingum á almannatryggingalögum. Við meðferð málsins í Nd. Alþ. lögðu 5 alþm., þeir Sverrir Hermannsson, Karvel Pálmason, Jón Skaftason, Garðar Sigurðsson og Pétur Sigurðsson, fram brtt. við frv. þar sem m. a. var lagt til að við siglingalögin yrði bætt nýju ákvæði, bráðabirgða ákvæði, þar sem tiltekið væri hvaða tryggingar útgerðarmaður þyrfti að kaupa fyrir skipverja til þess að teljast laus undan frekari ábyrgð samkv. 1. gr. þessa frv. Tillaga þm. var á þá lund, að bráðabirgðaákvæði þetta hljóði sem hér segir:

Nú hefur útgerðarmaður keypt sér tryggingu, sem miðast við eftirfarandi bætur, og ber hann þá ekki frekari ábyrgð samkvæmt 1. gr. laga þessara.

1. Dánarbætur:

a) 1 millj. kr. við dauða, er greiðast nánustu vandamönnum (erfingjum) hins látna.

b) Mánaðarlegar bætur til ekkju eða ekkils í 8 ár ber að greiða á hverjum tíma samkv. a-lið 1. mgr. 35. gr. almannatryggingalaga.

c) Mánaðarlegar bætur til barna að 17 ára aldri, þó aldrei lengur en í 8 ár, ber að greiða á hverjum tíma samkvæmt c-lið 1. mgr. sömu gr.

2. Slysadagpeningar og örorkubætur:

a) Dagpeningar, sem greiðast eftir sömu reglum og dagpeningar samkvæmt 33. gr. og nema 3/4 hluta þeirrar fjárhæðar. Heildarupphæð dagpeninga skal þó aldrei nema meiru en þeim launum, er hinn slasaði hafði fyrir slysið.

b) Ef slys veldur varanlegri örorku, skal greiða örorkubætur, 3 millj. kr. við algera varanlega örorku, en hlutfallslega við minni örorku.“

Þannig hljóðaði sú brtt. sem þessir hv. þm. lögðu fram á Alþ. haustið 1972 við frv. til l. um breyt. á siglingalögum.

Þessi brtt. hafði átt sér nokkra forsögu, en þessu máli hafði áður verið hreyft m. a. af hv. alþm. Pétri Sigurðssyni, m. a. vegna eindreginna óska frá sjómönnum og samtökum þeirra.

Þessi brtt. var síðan samþykkt og frv. ásamt þeirri breytingu samþ. sem lög frá Alþ. 21. des. 1972 og ákvæði um tryggingabætur sjómanna því komið sem bráðabirgðaákvæði inn í siglingalögin. Þó mun það hafa verið tilgangur flm. að það skyldi ekki vera sem bráðabirgðaákvæði í þeim lögum nema um skamma hríð, en ætti að færast inn í aðra lagasetningu þar sem þessi ákvæði kynnu að eiga betur við.

Þannig stóðu þessi mál þangað til hinn 6. sept. s. l., er gefin voru út brbl. um kaup og kjör sjómanna og með þeirri afgreiðslu lögfestir samningar þeir sem samninganefndir sjómanna og útvegsmanna undirrituðu 29. febr. 1976, 1. og 27. mars 1976, 14. maí 1976 og 28. júlí 1976 og prentaðir voru sem fylgiskjöl með brbl. Eitt atriði þeirra samninga, sem þannig voru lögfestir, var um tryggingamál. Ég tek sérstaklega fram að um það atriði var ekki ágreiningur innan sjómannastéttarinnar. Þessir samningar, sem voru lögfestir með brbl. frá því í sumar, voru eins og menn muna felldir af sjómönnum við allsherjaratkvæðagr., en það var ekki út af þessu ákvæði um tryggingabætur sem hér er fjallað um, heldur út af öðrum beinum kaup- og kjaraatriðum. En eitt atriði í þessum samningum, sem þannig voru lögfestir, var sameiginlegt ákvæði fyrir vertíðarsamning, síldar- og loðnusamning og flutningasamning, þess efnis, að um líf- og örorkutryggingu færi samkvæmt ákvæðum framangreinds bráðabirgðaákvæðis siglingalaganna, sem ég las upp hér áðan, en með þeirri breytingu þó, að dánarbætur voru hækkaðar úr 1 millj. kr. í 2 millj. kr. og örorkubætur úr 3 millj. kr. í 6 millj. kr.

Bráðabirgðaákvæði siglingalaganna hefur enn ekki verið breytt til samræmis við þessi ákvæði í brbl., með þeim afleiðingum að þessi hækkun á tryggingaupphæðum, þ. e. a. s. hækkun á dánarbótum úr 1 millj. kr. í 2 millj. og örorkubótum úr 3 millj. kr. í 6 millj., nær ekki til allrar sjómannastéttarinnar. Er að þessu leyti um talsverðan aðstöðumun að ræða milli þeirra sjómanna, sem annars vegar njóta þessarar hækkunar, og hinna, sem ekki hafa notið hennar enn.

Eins og fram kemur við athugun á efni bráðabirgðaákvæðisins gætir nokkurs ósamræmis milli hinna einstöku tryggingarfjárhæða sem þar eru ákveðnar. Annars vegar er um að ræða bætur, hverra bótafjárhæðir ráðast af ákvæðum almannatryggingalaganna, en það eru stafliðir b og e í tölulið 1, þ. e. a. s. mánaðarlegar bætur til ekkju eða ekkils og mánaðarlegar bætur til barna að 17 ára aldri falli fyrirvinnan (sjómaðurinn) frá, og enn fremur töluliður a í lið 2, slysadagpeningar og örorkubætur, þ. e. a. s. ákvæði um dagpeninga. Samkvæmt ákvæðum almannatryggingalaga eiga þessar bótafjárhæðir að breytast samkvæmt ákveðnum reglum til samræmis við breytingu á vikukaupi í almennri verkamannavinnu og njóta því nokkurrar verðtryggingar. Hins vegar eru svo dánarbætur samkvæmt staflið a í tölulið 1, þ. e. a. s. sem nú eru 2 millj. við dauða, og hins vegar slysabætur samkvæmt staflið b í tölulið 2, þ. e. a. s. örorkubætur. Um þessar bætur er aðeins ákveðin föst upphæð sem tiltekin er í lögunum, og sú upphæð breytist ekki nema lögunum verði breytt eða samningar takist þar um milli sjómanna og útvegsmanna. Þessi hluti trygginga sjómanna er sem sé ekki undir sömu ákvæðum og það annað sem ég las áðan og nýtur nokkurrar verðtryggingar.

Sjómenn hafa eðlilega unað þessari skipan mála illa, bæði því, að sömu reglur um breytingar skuli ekki gilda um tryggingabætur þeirra, án tillits til þess hvers eðlis þær bætur eru, og ekki siður hinu, að með ört hækkandi verðlagi og rýrnun á gildi peninga glata bótafjárhæðir, svo sem eins og dánarbætur og örorkubætur sem ákveðnar eru sem föst fjárhæð, fljótlega gildi sínu. Vísast í því sambandi m. a. til ályktunar um tryggingar- og örorkumál sem samþ. var á 10. þingi Sjómannasambands Íslands í okt. s. l , en þar er stjórn sambandsins falið að vinna að því að lögum um slysa- og örorkutryggingu sjómanna verði breytt þannig að tryggingaupphæðir haldi raungildi sinn.

Tilgangurinn með flutningi frv. þessa er tvíþættur: Annars vegar að lögfesta í bráðabirgðaákvæði siglingalaganna þá hækkun á dánarbótum og örorkubótum sem lögleitt var með brbl. frá 6. sept. s. l. að tæki til hluta sjómannastéttarinnar, þannig að sú hækkun bóta nái til allra sjómanna. Megintilgangurinn með flutningi frv. er þó annar, sem sé sá, að gengið sé til móts við óskir sjómanna um að þessar tryggingaupphæðir haldi raungildi sínu. Í því sambandi mætti ganga út frá ýmsum viðmiðunum, sem við flm. höfum sérstaklega kynnt okkur. Svo dæmi sé tekið mætti umreikna bótafjárhæðirnar reglulega til samræmis við breytingar á framfærsluvísitölu, kaupgreiðsluvísitölu eða vísitölu vöruverðs og þjónustu. Einnig mætti hugsa sér að áætla í upphafi árs breytingar á meðaltekjum sjómanna sem verða kynnu á árinu, áætla tryggingaupphæðir í samræmi við þá spá og gera síðan endanlega upp við lok ársins, þegar tölur um raunverulegar breytingar á meðaltekjum liggja fyrir. Að athuguðu máli og í samráði við sérfræðinga hefur sú leið þó verið valin hér að hafa sama hátt á og segir í 78. gr. almannatryggingalaga, þ. e. a. s. að miða við breytingar á vikukaupi í almennri verkamannavinnu, og skuli ráðh., eins og þar segir, innan 6 mánaða breyta upphæðum bótanna til samræmis við það. Ástæður til þess, að þessi leið var valin, eru ýmsar, m. a. sú, að þá ríkir fullt samræmi í ákvörðun bótaupphæða hinna ýmsu bótategunda, sem bráðabirgðaákvæðið tekur til, og auk þess fullt samræmi við sambærilegar ákvarðanir bótaupphæða almannatrygginga. Í öðru lagi er tiltölulega mjög auðvelt og fyrirhafnarlítið að ákveða breytingar á umræddum tryggingabótum sjómanna með þessum hætti, þar eð ráðherra þarf hvort eð er að láta gera alla þá útreikninga, sem til þarf, í sambandi við ákvörðun bótafjárhæða almannatrygginga.

Það var upplýst hér á Alþ. í gær af hæstv. samgrh., að eftir um það bil eins og hálfs árs athugun á sama máli hafi rn. hans komist að nákvæmlega sambærilegri niðurstöðu um, hvernig þessum málum ætti að haga, og þeirri sem lögð er til í þessu frv. Skýtur það enn frekar stoðum undir það, að sú leið, sem hér er lögð til, er hyggileg og sanngjörn og mjög auðveld í framkvæmd. Okkur flm. er hins vegar ljóst, að þótt frv. þetta verði samþykkt næst ekki full trygging þess að tryggingaupphæðir til sjómanna haldi raungildi sínu því að vissulega hefur verðbólga verið meiri en nemur hækkun vikukaups í almennri verkamannavinnu og því ekki kaupmáttur þessara hóta fulltryggður þó að sú viðmiðun sé notuð. En talsvert ætti þó að hafa miðað í rétta átt ef sú breyting verður gerð sem í frv. felst, þ. e. a. s. miðað í þá átt sem m. a. kemur fram í ályktunum sjómannasambandsþings að sjómenn óska eftir að farið verði.

Ég held að ekki þurfi að fjalla frekar um þetta mál. Frv. er mjög ljóst og skýrt. Hér er sem sé aðeins lagt til að lögfesta í bráðabirgðaákvæðum siglingalaganna þau atriði sem þegar eru í lögum, brbl. frá því í sumar, um upphæðir bóta, en þó þannig að eins og brbl. eru nú ná þessar tryggingar ekki til allra sjómanna. Ef hins vegar bráðabirgðaákvæði yrði sett inn í siglingalögin, eins og við gerum ráð fyrir, munu allir sjómenn njóta jafnstöðu. Í frv. er sem sé ekki gert ráð fyrir að tryggingabæturnar eða bótafjárhæðirnar hækki frá þeim ákvæðum sem í gildi eru nú.

Nýmæli frv., sem hvorki er í núgildandi bráðabirgðaákvæðum siglingalaganna né heldur í ákvæðum brbl. frá því í sumar. felst í síðustu mgr. 1. gr. frv. og er í því fólgið að beita sömu aðferð og beitt er í lögum um almannatryggingar til þess að verðtryggja að nokkru bætur þær sem sjómenn eiga að njóta samkvæmt þessu frv. og brbl. frá því í sumar.

Það kann að vera. að frv. þetta eigi heima í heilbr.- og trn. þessarar hv. d., en þegar síðast var fjallað um slíkt mál var um það fjallað í sjútvn. d. Því leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til hv. sjútvn.