16.02.1977
Neðri deild: 50. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

159. mál, siglingalög

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) :

Herra forseti. það eru aðeins örfá orð. Ég ætla ekki frekar en hæstv. ráðh. að fara að ræða hér brbl. frá því í haust eða afgreiðslu þeirra. Ég hef þegar gert það og gefst sjálfsagt tækifæri til þess ef frv. um staðfestingu á þeim lögum kemur nokkurn tíma frá Ed. og hingað til okkar Nd.- manna, sem maður skyldi nú vona að yrði.

En ég ætla að vekja athygli á því, að mótmæli þau, sem gerð voru við þá brbl.-setningu, voru að sjálfsögðu ekki mótmæli gegn hverjum stafkrók í þeim samningum sem gerðir höfðu verið og síðan felldir af fjölmörgum félögum sjómanna, en svo bundnir í lögum með aðgerðum hæstv. ráðh. Að sjálfsögðu voru sjómenn ekki að mótmæla því, að dánarbætur væru hækkaðar um sömu upphæð og þá sem í lögunum var eða örorkubætur hækkaðar úr 3 millj. kr. í 6 millj. Sjómenn voru að mótmæla því, að til þess ráðs væri gripið, sem hæstv. ríkisstj. greip til. að lögfesta með brbl. kjarasamninga sem höfðu verið felldir í allsherjaratkvgr. á vegum sjómannasamtakanna í fjölmörgum þeirra félaga sem fara með samningsrétt fyrir umbjóðendur sína. Sjómenn mótmæltu því einnig, að sú ástæða yrði notuð, sem fólst í frv., að banna með brbl. að grípa til verkfalla eða vinnustöðvana, án þess að slíkar aðgerðir hefðu svo mikið sem komið til umr., verið ræddar eða um þær fjallað á vegum samtaka sjómanna. Þessu var mótmælt og meira að segja dregið í efa að þetta samræmdist ákvæðum stjórnarskrár um setningu brbl. En hins vegar voru mótmælin ekki í því fólgin að afneita hverjum stafkrók í þessum brbl., t. d. því efni þeirra sem ég hef verið að gera hér að umræðuefni. Þetta vildi ég aðeins að fram kæmi vegna orða hæstv. ráðh. áðan.

Þá staðfesti hæstv. ráðh. enn fremur það, sem ég sagði, að eins og málum er nú skipað njóta ekki allir sjómenn sambærilegra tryggingaréttinda. Hann tók fram, hæstv. ráðh., að farmenn t. d. nytu ekki sömu tryggingabótaréttinda og fiskimenn. Þeir mundu hins vegar njóta slíkra réttinda, farmennirnir, til jafns við fiskimennina ef þetta yrði samþ. Þá væri réttarstaða allra sjómanna, án tillits til þess við hvers konar sjómennsku þeir starfa, ein og hin sama.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að að sjálfsögðu getur Alþ. ekki annað, þegar fjallað er um mál eins og þetta, en tekið tillit til þeirra laga sem í gildi eru hverju sinni Nú eru ákveðin ákvæði í gildi í almannatryggingalögum hvernig eigi að verðtryggja, ef má nota það orð, bætur skv. lögum um almannatryggingar. Auðvitað verður Alþ. að horfa á hvaða reglur um þetta eru í gildi en ekki taka tillit til þess að vera kunni að þeim reglum verði breytt einhvern tíma í framtíðinni, án þess að nokkrar till. um það séu komnar, og slá því á frest samræmingarbreytingum sem gerðar eru á öðrum lögum, svo að sambærileg verðtryggingarákvæði gildi í almannatryggingalögum og t. d. varðandi þær tryggingar sem þetta frv. fjallar um. Alþ. verður að sjálfsögðu að ganga út frá því hvaða reglur og lög eru í gildi og miða við það. En jafnvel þó að hæstv. ráðh. vilji benda mönnum á að taka til hliðsjónar einhverjar breytingar á almannatryggingalögum, þá á Alþ. ákaflega erfitt með að gera það, eingöngu vegna þess að alþm. hafa ekki hugmynd um hvaða breytingar það eru sem hæstv. ráðh. er að ræða um. Við höfum ekki séð þær. Við höfum ekki um þær heyrt Og auðvitað er ekki hægt að taka til hliðsjónar einhverjar breytingar sem enginn veit hverjar eru eða hvenær muni koma fram. Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að ef þessum reglum í almannatryggingalögunum verður breytt, þá er ákaflega auðvelt verk — og þarf ekki nema breytingu á orðalagi í einni setningu í þessu frv. — að samræma bráðabirgðaákvæðin siglingalögunum þeim breytingum sem gerðar yrðu á lögum um almannatryggingar. Það, sem hér er lagt til, er að bráðabirgðaákvæði í siglingalögum um tryggingar sjómanna sé hvað varðar verðtryggingu samræmt þeim ákvæðum sem nú er í gildi í lögum um almannatryggingar, og ef lögum um almannatryggingar verður breytt, þá er að sjálfsögðu mjög auðvelt að breyta þessu bráðabirgðaákvæði í siglingalögunum til samræmis við það.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því sem hæstv. samgrh. sagði hér í gær. Hann sagðist vera búinn að hafa þessi mál til athugunar í 11/2 ár skv. till. sem til hans var vísað og flutt var af þm. Alþfl. í þessari d. Og hann sagði að athugun síns rn. hefði leitt til þess að samið hefði verið frv. í rn. sem ætti væntanlega að leggja fram á Alþ. innan skamms, og í þessu frv., sem búið væri að semja í samgrn., væri lagt til að málið yrði leyst með sama hætti og okkur flm. þessa frv. hefur hugkvæmst. Þannig verður ekki betur séð en a. m. k. hæstv. samgrh. telji engin vandkvæði á því að leysa málið með þeim sama hætti og við flm. þessa frv. höfum lagt til og ég tel mig hafa rökstutt hér að sé unnt að gera og óhjákvæmilegt að gert verði og sé mjög auðvelt að breyta aftur til samræmis við breytingar sem gerðar kynnu að verða einhvern tíma í framtíðinni á lögum um almannatryggingar.