16.02.1977
Neðri deild: 50. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

160. mál, umboðsmaður Alþingis

Flm. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 309 ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni, 3. þm. Austurl., frv. til l. um umboðsmann Alþingis. Þetta mál er ekki nýtt hér í sölum Alþ., og í grg. hef ég skýrt tekið fram hvað stóð að baki því að þetta frv. var samið, en það var þáltill. sem ég flutti á hv. Alþ. fyrst veturinn 1970–1971, en hún var þá ekki útrædd, og ég endurflutti hana á þinginu 1971–1972 og 16. mars 1972 var hún samþ. Þessi samþykkt Alþ. fól í sér að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um stofnun embættis umboðsmanns Alþingis. Þetta var gert fljótt og vel, og mun hæstv. dómsmrh. þá þegar hafa falið Sigurði Gizurarsyni að semja þetta frv. sem síðan var lagt fram á Alþingi seint á árinu 1973 og vísað til n. 10. des. 1973. Í ítarlegri framsöguræðu hæstv. ráðh., þar sem hann skýrði einstakar gr. frv. mjög skilmerkilega, eins og hans er von og vísa, tók hann m. a. fram að það væri ekki óeðlilegt þótt bæði þn. og þingið í heild ætluðu sér góðan tíma til að athuga þetta mál. Enn fremur benti hann á þá staðreynd, sem þá blasti við öllum hv. þm. og kannske þeim, er þá áttu sæti í hæstv. ríkisstj., frekast allra, að lítið var um fjárráð og erfiðir tímar fram undan og ef frv. yrði samþ. mundi það hafa í för með sér verulegan kostnað. Ég minnist þess að ég tók til máls við þessa umr. málsins og tók undir þetta með hæstv. ráðh. og taldi ekki heldur óeðlilegt að málið yrði vel athugað. Það var einnig gert. Allshn., sem hafði málið til meðferðar, skilaði álíti næsta vor þar sem allir nm. mæltu með samþykkt frv. þótt þeir svo áskildu sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.

Nú höfum við leyft okkur að endurflytja þetta frv., m. a. hafandi í huga þau orð dómsmrh. sem voru viðhöfð 1973, að það væri ekki óeðlilegt þótt mál sem slíkt væri athugað á tveimur þingum. Nú er nokkuð um liðið, nær 4 ár, þannig að ekki er óeðlilegt að málið verði tekið fyrir að nýju. Við tökum fram í grg. með frv. að öll þau rök, sem dregin voru fram í þáltill. þeirri sem ég hef hér minnst á og samþ. var á sínum tíma, séu enn í gildi, en til viðbótar komi það, sem ég hef hér drepið á, tímalengdin frá því að málið var athugað hér á hv. Alþ., og einnig það atriði, að hv. 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal, hefur flutt frv. um umboðsnefnd Alþ. Við flm. þessa frv. teljum að það sé í hæsta máta eðlilegt að þetta frv. fái jafnhliða því frv. athugun hv. allshn. deildarinnar.

Þá má og geta þess, sem dregið er fram í grg. af okkur flm., að það hefur líklega aldrei í sögu Alþ. verið ætlað að stíga stærri spor í sambandi við eflingu og umbætur á okkar réttarkerfi, bæði á sviði rannsókna og dóma. Hef ég ekki heyrt í þeim umr., sem fram hafa farið um þessi mál, að í veðri hafi verið látinn vaka ótti um kostnaðaraukann sem óhjákvæmilega hlýtur að verða af samþykkt þeirra frv. Við teljum því, ef sá ótti í sambandi við umbætur á lögum til úrbóta á okkar réttarkerfi er úr sögunni nú, að þá sé ærin ástæða til að athuga þetta frv. mjög alvarlega nú.

Við bendum svo í okkar grg. enn á nauðsyn þess að allt sé gert sem hægt er af löggjafans hálfu til þess að tryggja réttindi borgaranna og hindra að misrétti og valdníðslu sé beitt við einstaklinga og þá oft lítilmagnann sem hefur ekki efni á að standa á rétti sínum. Ég held að mörg dæmi megi finna á síðustu árum sem réttlæti þau orð sem ég hef hér vitnað til í grg. frv.

Að sjálfsögðu er látin fylgja með frv. hin ítarlega grg. höfundar, Sigurðar Gizurarsonar, sem m. a. felur í sér miklar sögulegar upplýsingar og upplýsingar um hvernig þessum málum er hagað í okkar nágrannalöndum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að svo stöddu, en leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.