16.02.1977
Neðri deild: 50. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

161. mál, heimild til að selja Húseiningum hf. húsnæði Tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 310 hef ég leyft mér ásamt tveimur öðrum þm. Norðurl. v., þeim hv. þm. Páli Péturssyni og Eyjólfi K. Jónssyni, að flytja frv. um heimild til að selja Húseiningum hf. húsnæði Tunnuverksmiðja ríkisins í Siglufirði. Hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, stendur einnig að flutningi þessa frv., en hann á eins og kunnugt er sæti í Ed.

Fyrirtækið Húseiningar hf. var stofnað á árinu 1972. Það hefur rekið starfsemi sína í húsnæði Tunnuverksmiðja ríkisins í Siglufirði síðan, en þá hafði tunnusmíði legið þar niðri um hríð. Eftir þennan tíma, sem liðinn er frá stofnun fyrirtækisins, er ljóst að þessu fyrirtæki vex fiskur um hrygg. Framleiðsla þess líkar vel og eftirspurn eftir framleiðslunni virðist næg, eða a. m. k. eins og nú standa sakir, þannig að tryggt er að nægileg eftirspurn er eftir framleiðslu þess fyrir þetta ár.

Frv. felur það í sér, eins og fram hefur komið, að ríkisstj. verði heimilað að selja húsnæði Tunnuverksmiðja ríkisins þessu fyrirtæki, Húseiningum hf., en forráðamenn Húseininga hf. hafa óskað eftir að slíkrar lagaheimildar verði aflað. Fyrirtækið býr við nokkurt öryggisleysi hvað húsnæði snertir og þarf að eignast sjálft þak yfir höfuðið, og er sjálfsagt að athuga til hlítar hvort þetta er ekki rétta leiðin til þess. Það býr einnig af þessum sökum við nokkurt öryggisleysi að því er snertir eðlilega fyrirgreiðslu fjárfestingarlánasjóða, eins og augljóst er, því að veðhæfar fasteignir eru auðvitað forsenda þess að eðlileg fyrirgreiðsla geti fengist.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta efni langa framsögu. Þetta er einfalt mál og hlýtur athugun í n. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.