26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrst og fremst fyrirspyrjanda fyrir að vekja þetta mál hér á hv. Alþ. og síðan hæstv. iðnrh. fyrir svör hans, sem ég hefði þó gjarnan viljað að hefðu verið nokkru ítarlegri.

Enda þótt rekja megi hina upprunalegu hugmynd um álverksmiðju við Eyjafjörð fram fyrir árið 1969, lengra aftur í tímann, þá fer því náttúrlega víðs fjarri að þetta mál hafi hlotið lýðræðislega umfjöllun. Það er ljóst mál, að enda þótt vitna megi til einhvers konar samþykkta hreppsnefnda og bæjarstjórna norður í landi, norður við Eyjafjörð, á því ári, þá hefur ekki verið um þetta mál fjallað við fólkið sem hyggir þetta svæði, og því fer víðs fjarri að því hafi verið gerð grein fyrir eðli þessa máls. Ég hef rökstuddan grun um að þetta mál sé raunverulega komið mun lengra áleiðis heldur en ráðamenn vilja nú uppi hafa, og fyrir liggja yfirlýsingar varðandi það, að ýmsir þættir þess hafa þegar verið rannsakaðir og eru komnir á umræðustig.

Ætla mætti nú að fenginni reynslu, að yfirvöld teldu æskilegt að kannaður yrði vilji íbúa hinna ýmsu svæða þar sem rætt hefur verið um að koma upp orkufrekum iðnaði, ekki síst á verksmiðjum, eins og áhrif þeirra eru á umhverfið. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að í frumskýrslu þeirri, sem Norsk Hydro hefur þegar lagt fram um hugsanlegt staðarval, þá sé kveðið að orði á þá lund að verksmiðja af þessu tagi yrði til stórspjalla í litlum samfélögum eins og við Reyðarfjörð t.d. og á Húsavík, en skaðleg áhrif hennar, félagsleg, yrðu minni við Eyjafjörð. Einnig er mér kunnugt um að gert hefur verið lítið úr umhverfislegum hættum sem stafa af álveri á borð við þetta í viðræðum manna hér uppi á Íslandi, þótt kunnugt sé að athuganir úti í Noregi hafa leitt í ljós að verksmiðjur, jafnvel búnar hinum fullkomnustu tækjum, hafa reynst stórskaðlegar þar.

Við megum vera minnugir þess þegar fjallað var um samninginn við Union Carbide á sínum tíma hér á hv. Alþ., og ég vil minna á það einnig í leiðinni að frv. um samninginn við Union Carbide var m.a. réttlætt með því að þetta ameríska fyrirtæki tæki norskum fyrirtækjum svo langt fram á ýmsa lund að ekki kæmi til greina að ræða við þau fyrirtæki, Union Carbide væri svo miklu sterkara og öflugra og hreinlátara fyrirtæki. Og í sambandi við Union Carbidesamninginn vil ég minna á það, með hvaða hætti því máli var komið í gegn áður en hv. Alþ. fékk að fjalla um það. Ég man ekki betur en ráðinn hefði verið framkvæmdastjóri málmblendifélagsins, forstjóri Union Carbide í Noregi, áður en búið var að afgr. málið frá iðnn. Ed. Framkvæmdir voru hafnar efra áður en Ed. hafði afgr. frv. til Nd. Og ég man ekki betur en að hross hafi drepist í fyrstu holunni sem þeir grófu þar, áður en málið var sent frá Ed.